28.06.2009 08:53

Samantekt frá vorinu

Góðan daginn kæru lesendur og verið velkomin á heimasíðu Lækjamóts.


Þá er best að skrifa hér svolitla samantekt frá vorinu til að koma ykkur inní líf Lækjamótsfjölskyldunnar. Við munum svo reyna að skrifa hér inn reglulegar fréttir. Fullt af gleðitíðindum, hér kemur það helsta:


Friðrik lauk prófi í kynbótadómum og er því kominn með alþjóða kynbótadómararéttindi FEIF. Hann hefur verið að dæma bæði á Norður- og Suðurlandi og tvívegis í Danmörku í vor og kann vel við starfið enda alltaf verið sjúkur í kynbótahross.


James, verkneminn okkar, tók þátt í tamningakeppninni "Það snýst um traust" sem haldin var í tengslum við Tekið til kostanna á Sauðárkróki. Hann stóð sig aldeilis prýðilega og tala myndirnar sínu máli hvað varðar traust tryppisins til tamningamannsins og einnig hvað varðar hugmyndaflug. Myndirnar eru fengnar af heimasíðu Hólaskóla www.holar.is.



James útskrifaðist svo frá sínu öðru ári við Hólaskóla með glæsibrag.  Hann mun búa áfram hjá okkur á Lækjamóti og vinna við tamningar.


Vorið er yndislegur tími. Okkar örfáu rolluskjátur báru í maí og einnig fóru folöldin að líta dagsins ljós. Það leynir sér aldrei spenningurinn þegar tölt er upp í hólf til að kíkja á nýfætt folald og athuga kynið, lit, snoturleika og hreyfingar. Þetta vorið fæðast m.a folöld undan Óm frá Kvistum, Baug frá Víðinesi, Seið frá Flugumýri, Hóf frá Varmalæk, Tjörva frá Sunnuhvoli, Kiljan frá Steinnesi, Sindra frá Leysingjastöðum, Feldi frá Hæli og Blæ frá Hesti.


Veigar frá Lækjamóti er stóðhestur úr okkar ræktun sem gerði það gott á kynbótasýningu í USA á vordögum. Hann fór þar í 8.26 í aðaleinkunn 8.28 fyrir byggingu og 8.25 fyrir hæfileika, klárhestur. Veigar er undan Kormáki frá Flugumýri II og Von frá Stekkjarholti sem hefur verið að gefa góð hross en hún er einnig móðir Hlekks frá Lækjamóti sem er 4 vetra foli undan Álfi frá Selfossi sem einnig fór í dóm í vor. Hann fór í 7.82 í aðaleinkunn og 8.11 fyrir byggingu. Hlekkur er hreyfingafallegur klárhestur og á framtíðina fyrir sér, það verður spennandi að sjá hvernig hann þróast. Von á 2 önnur 1.verðl. afkvæmi.



Ísólfur hefur vart átt dauðan tíma í allt vor. Hann hefur þrætt kynbótasýningar og keppnir samhliða því að vera með kennslu bæði á Hólum og erlendis. Hann sýndi m.a 2 framtíðarræktunarhryssur Lækjamótsbúsins, þær Björk frá Lækjamóti og Eik frá Grund. Björk er hágeng og rúm klárhryssa með 8,5 fyrir tölt og fegurð í reið, henni verður væntanlega haldið í fyrsta skipti í sumar en það á ennþá eftir að velja stóðhest á hana, hún mun þó fyrst fara á Fjórðungsmót í keppni í B-flokki. Á úrtöku/gæðingamóti Þyts var hún hæst dæmda hryssa mótsins sem var afar ánægjulegt. Eik er aðeins 4 vetra og verður því þjálfuð áfram og sýnd aftur næsta vor, þetta var svona prufukeyrsla. Eik er efnis alhliðahryssa. Ísólfur sýndi einnig Veru frá Hjaltastaðahvammi sem er Hróðursdóttir sem fer í ræktun hjá Friðriki og Sonju. Blysfari frá Fremra-Hálsi er 4 vetra stóðhestur sem Friðrik hefur tamið og þjálfað í vetur en Ísólfur síðan sýndi í 7.95 í aðaleinkunn nú í vor. Blysfari er hreyfingafallegur, skrefstór og þrælefnilegur foli. Það verður verulega spennandi að sjá hvernig hann þróast. Blysfari verður í hólfi á Lækjamóti í sumar ásamt fleiri stóðhestum (hægt að lesa nánar um það undir tenglinum Stóðhestar til notkunar) Ekki verða talin upp frekar þau hross eða sýningar sem Ísólfur hefur tekið þátt í í vor en skemmst er frá því að segja að hann fer með 5 hross á Fjórðungsmótið á Kaldármelum, Friðrik fer líka með einn hest í B-flokk og James vinnumaður með einn í A-flokk á FM2009.  Það verður spennandi að fylgjast með þeim þar.



Sonja hefur lokið sínu fyrsta ári í dýralæknanáminu og er komin heim í sumarfrí í nokkrar vikur. Hún fór nú á vordögum í smá verknám hjá Höskuldi dýralækni í Skagafirði. Hann eyðir vorinu að stórum hluta í að sæða hryssur. Það var verulega spennandi fyrir Sonju að komast í að fylgjast með þessum flinka dýralækni. Þar sem Dagrós, ein af okkar ræktunarhryssum, var í sæðingunum þá gat Sonja fengið að prófa sjálf að setja á sig dýralæknahanskana og fá nasaþef af því sem mun bíða að námi loknu. Æfingin skapar meistarann og ekki amalegt að fá svona tækifæri snemma á námsferlinum.



Fortamningatímabilinu á Lækjamóti er lokið þetta árið. Þórir og James sáu um það að gera 3. vetra tryppin bandvön og setja á þau gjörð. Þetta er spennandi árgangur og verður ekki leiðinlegt að byrja að temja hann í haust.


Annars gengur lífið sitt vanagang hjá fjölskyldunni að Lækjamóti. Mikið að gera hjá öllum sem er okkur að skapi.


Vonandi sjáum við sem flesta á Fjórðungsmóti á Kaldármelum 1.-5. júlí.


Kveðja frá Lækjamóti.

Flettingar í dag: 236
Gestir í dag: 33
Flettingar í gær: 759
Gestir í gær: 43
Samtals flettingar: 556793
Samtals gestir: 58128
Tölur uppfærðar: 5.2.2025 12:37:59
LÆKJAMÓT  |  531 HVAMMSTANGI - ÍSLAND  |  +354 4512570  | [email protected]