17.08.2009 13:55
Hrönn í 1.verðlaun
Hrönn frá Leysingjastöðum II er í eigu Ísólfs og Vigdísar. Hún er 5 vetra undan Stíganda frá Leysingjastöðum II og Þóru frá Leysingjastöðum. Hún byrjaði í tamningu eftir áramótin og tók svo þátt í tamningakeppninni " Það snýst um traust" í vor. Sérstaklega gott geðslag í þessari hryssu. Henni var síðan haldið í vor undir Kraft frá Efri-Þverá og er fylfull. Hún fór á dögunum í kynbótadóm og stóð sig mjög vel og fór í 1. verðlaun. Hlaut m.a. 8,5 fyrir skeið. Hún hefur verið að bæta sig mikið að undanförnu og tókst að skila því í brautinni. Flottur árangur eftir ekki meiri tamniningu og verður spennandi að fá folald undan henni næsta vor.
Team Koniak
Hin árlega kvennareið húnveskra kvenna fór fram s.l laugardag. Glimmerprýddur flokkur 105 kvenna lagði í hann frá Hnjúki í Vatnsdal og reið yfir holt og hæðir, mýrar og móa og endaði í Miðhópi í Víðidal. Mæðgurnar Elín og Sonja smelltu sér í reiðina og höfðu gaman af enda varla annað hægt. Það var brugðið sér í leiki á leiðinni og voru mæðgurnar í sigurliðinu, Team Koniak. Góður félagsskapur, frábær stemning, glimmer og glamúr, milt og fínt veður og túrinn endaði svo á dýrindis grilluðu lambalæri, gítarspili og söng.
Þónokkuð hefur verið um framkvæmdir á Lækjamóti í sumar. Hesthúsið var málað að utan og innan, nýr reiðvegur leit dagsins ljós, rekstrarleið girt af, gamla hesthúsið rifið, kjallarinn undir hesthúsinu mokaður og gólfið í reiðaðstöðunni tætt upp og betrumbætt. Þetta er allt af hinu góða og verður vonandi til þess að ennþá skemmtilegra verði að vinna við tamningar á Lækjamóti næsta vetur.
Bestu kveðjur frá Lækjamóti