20.09.2009 15:10

Fréttir af ræktuninni

Eftir ýmsar hrakfarir í hrossaræktinni þetta sumarið þá hefur nú verið staðfest fyl í þeim hryssum sem var haldið og við horfum bjartsýn fram á veginn. Ekki fengu þær þó allar við þeim hestum sem upphaflega var áætlunin en við erum sátt og bíðum spennt.
Best að útlista hér það helsta:

Dagrós  Kappi
Sonja að sæða.
Dagrós frá Stangarholti er fylfull við Kappa frá Kommu. Fylið varð til við sæðingar framkvæmdar af heimasætunni svo það er sérstaklega spennandi að sjá hvernig það kemur út. Kappi er klárhestur sem sýndi frábæra eiginleika þegar hann hlaut 8.42 í aðaleinkun aðeins 4. vetra gamall.



Hrönn, Elding og Rödd

Kraftur frá Efri-Þverá
Hrönn frá Leysingjastöðum, Elding frá Stokkhólma og Rödd frá Lækjamóti fóru allar undir Kraft frá Efri-Þverá. Kraftur er rúmur og flottur alhliðahestur sem varð efstur 4. vetra stóðhesta á LM2006. Ísólfur hefur þjálfað hestinn undanfarið ár og vitum við því hvað býr í þessum mikla gæðingi.


Seiður Rauðhetta
Rauðhetta frá Lækjamóti fór undir Seið frá Flugumýri. Seiður var efstur 4.vetra stóðhesta á LM2008. Stór og myndarlegur, jafvígur og góður alhliðahestur. Við vorum svo óheppin að missa folald undan honum í vor og því verður þetta vonandi til að bæta upp fyrir það.



Ómur á LM2008
Valdís frá Blesastöðum og Breyting frá Lækjamóti eru fylfullar við Ómi frá Kvistum. Ómur er afar athylisverður hestur sem býr yfir frábæru skeiði með einkar góðu afturfótaskrefi. Hann er fríður hestur á velli og ekki spillir það fyrir að það standa að honum heiðursverðlaunahross. Ómur stóð efstur í flokki 5. vetra stóðhesta á LM2008.


Rán Sindri
Rán frá Lækjamóti er fylfull við Sindra frá Leysingjastöðum. Sindri hefur verið að sýna hvað í honum býr á keppnisvellinum í sumar á sínu fyrsta keppnistímabili. En hann er viljugur og hágengur klárhestur undan Stíganda frá Leysingjastöðum.


Kosning GildraBlysfari
Kosning frá Ytri-Reykjum, Gildra frá Lækjamóti og Jarlhetta frá Neðra-Ási fóru undir Blysfara frá Fremra-Hálsi, þær hafa reyndar ekki verið ómskoðaðar. Blysfari er 4.vetra, undan Arði frá Brautarholti. Blysfari fór í kynbótadóm í vor og hlaut 7,95 í aðaleinkunn. Hann er einkar  framgripsmikill og skrefmikill hestur með frábært geðslag, ásækinn og leggur sig fram við að gera knapanum til geðs. Blysfari er í eigu Jóns Benjamínssonar en Friðrik hefur séð um tamningu og þjálfun á hestinum fyrir hann og Ísólfur sýndi.


Toppa Vilmundur
Toppa frá Lækjamóti fékk við ungum fola sem er albróðir Vilmundar frá Feti og heitir Werner frá Feti. Vonandi höfum við dottið í lukkupottinn þar, en það kemur víst ekki í ljós alveg strax því hann er bara 2. vetra.

Vonandi höfðuð þið gaman af að fá smá innsýn í hrossaræktina hjá okkur. Ef ykkur langar að fræðast meira um hryssurnar er hægt að skoða þær hér.
Bestu kveðjur frá Lækjamóti.

Flettingar í dag: 236
Gestir í dag: 33
Flettingar í gær: 759
Gestir í gær: 43
Samtals flettingar: 556793
Samtals gestir: 58128
Tölur uppfærðar: 5.2.2025 12:37:59
LÆKJAMÓT  |  531 HVAMMSTANGI - ÍSLAND  |  +354 4512570  | [email protected]