17.10.2009 14:56
Tamningar
Eins og áður hefur verið greint frá hér á síðunni þá sjá feðgarnir Þórir og Ísólfur um kennslu frumtamninga við Hólaskóla. Námið hefur gengið vel bæði hjá nemendum og tryppum og eru þeir feðgar sáttir með framvinduna. Nýlega var farið í fyrsta reiðtúrinn og í síðustu viku spreyttu nemendur sig á fyrsta hluta tamningaprófsins en þá var prófað í atriðunum fætur teknir upp og laus í hringgerði, þar sem leiðtogahlutverk er sérstaklega kannað. Annar hluti prófsins eru svo teymingar við hlið, teymingar á eftir og á hesti og senda tryppið í kringum sig. Seinasti hluti prófsins, sem verður um miðjan nóvember, er svo reiðpróf þar sem prófaðir eru helstu þættir góðrar frumtamningar; beislissvörun, hliðarsvörun, samspil ábendinga, andlegt og líkamlegt jafnvægi tryppisns og fleira. Í öllum prófunum er tekið tillit vinnubragða nemanda. Frumtamningaáfanginn er afar skemmtilegur bæði að mati nemenda og kennara og er góður andi í kennslustundunum hjá þeim feðgum.
Eftir haustfrí eru hrossin hjá fjölskyldufólkinu á Lækjamóti farin að tínast á hús. Stóðhestarnir Kraftur frá Efri-Þverá og Sindri frá Leysingjastöðum fóru á járn um síðustu helgi og í dag var hesthúsið á Lækjamóti fyllt af spennandi ungviði sem eru að hefja sína skólagöngu. Fleiri graðhestar; Vígtýr frá Lækjamóti, Kvaran frá Lækjamóti og Blysfari frá Fremri-Hálsi eru einnig komnir á hús svo það er af nægu að taka.
Kvaran frá Lækjamóti og Sindri frá Leysingjastöðum
Já það er spennandi vetur framundan með fjölda af efnilegum og góðum hrossum.
Bestu kveðjur frá Lækjamóti