28.02.2010 20:00
Vel heppnuð afmælissýning Þyts
Hestamannafélagið Þytur hefur nú fyllt árin 60 og var haldið upp á það með skemmtilegri sýningu í nýju reiðhöllinni á Hvammstanga. Atriði sýningarinnar voru sett saman af heimafólki og má geta þess að 84 knapar tóku þátt í sýningunni og margir komu fram oftar en einu sinni þannig að hrossafjöldinn var þónokkur. Ekki amalegt fyrir ekki stærra félag. Mjög leiðinlegt hríðarveður var á föstudagskvöldið þegar generalprufan var haldin og gleymist það kvöld líklega seint á meðal aðstandenda sýningarinnar. Veðrið var ekki spennandi uppúr hádegi á laugardag en svo snarhætti veturkonungur við að gera okkur lífið leitt og fínasta veður var restina af deginum. Fullt var á sýningunni sem var afar ánægjulegt. Boðið var uppá veglegt afmæliskaffi í hléinu og hjálpuðust félagar að við það eins og annað. Um kvöldið var svo grillveisla í boði hestamannafélagsins. Nýja reiðhöllin okkar fékk nafnið Þytsheimar. Heiðursfélagi var útnefndur Guðmundur Sigurðsson, eða Gúndi eins og við þekkjum hann. Hann hefur unnið óeigingjarnt starf í þágu félagsins til fjölda ára.
Gaman er að geta þess að samheldnir Þytsfélagar lögðust á eitt við að byggja stúkur, veitinga- og salernisaðsöðu ásamt því sem félgar lögðu mikla vinnu á sig við byggingu reiðhallarinnar og einnig við að láta þessa skemmtilegu sýningu verða að veruleika.
Lækjamót var með ræktunarbússýningu og heppnaðist hún vel. Við fengum mörg hrós fyrir sýninguna og þótti okkur gaman að heyra það. Hrossin voru góð og reyndum við að flétta inní atriðið fimi og fagmennsku. Hrossin sem við vorum með voru Vígtýr f. 2004 undan Stíganda frá Leysingjastöðum og Valdísi frá Blesastöðum, Jafet f. 2003 undan Hrym frá Hofi og Sjöfn frá Miðsitju, Björk f. 2003 undan Stíganda frá Leysingjastöðum og Rauðhettu frá Lækjamóti, Mön f. 2000 undan Óði frá Brún og Von frá Stekkjarholti og Kvaran f. 2005 undan Sveini-Hervari frá Þúfu og Rauðhettu frá Lækjamóti.
Mön og Elvar - Takk fyrir hjálpina Elvar Jafet og James
Kvaran og Friðrik Björk og Sonja Vígtýr og Þórir í "aktion"
Lækjamótsfólkið var með í fleiri atriðum eins og t.d ræktunarbúi frá Víðidalstungu II en hross frá þeim hafa verið þónokkuð í tamningu á Lækjamóti síðustu ár. Einnig voru systkinin Ísólfur og Sonja með í atriði sem var kallað Íslandsmeistarar en Hestamannafélagið Þytur hefur í gegnum árin eignast nokkra íslandsmeistara og þótti við hæfi að þeir kæmu fram saman á þessarri sýningu.
Aþena frá Víðidalstungu II og Þórir Ræll frá Gauksmýri og Ísólfur
Ísólfur var með gæðingafimisýningu á Jaðri frá Litlu-Brekku og vakti hún lukku. Hesturinn mjúkur og flottur og sýndu þeir hinar ýmsu æfingar.
Sniðgangur á tölti afturfótasnúningur skeið
Skilyrði til myndatöku voru ekki sérlega góð en við látum þó hér að lokum fljóta með nokkrar myndir frá sýningunni.
Stórskemmtilegir fimleikar á hestum
Svörtu folarnir Gamli tíminn Dívurnar
Takk fyrir skemmtilegan dag kæru Þytsfélagar.