12.02.2011 11:36
Fyrsta móti vetrar lokið og margt spennandi framundan
Þá er fyrsta móti Sparisjóðs-liðakeppninnar lokið og er óhætt að segja að þáttaka hafi verið góð. Mótið hófst kl. 18 eftir að hafa verið frestað um klukkustund vegna hvassviðris. Rétt eftir miðnætti var vel heppnuðu móti lokið. Lið 3 (okkar lið) stendur lang efst eftir þetta kvöld með 57 stig en næst kemur lið 2 með 29 stig. Öll úrslit mótsins má sjá á heimasíðu hestamannafélagsins Þyts á www.thytur.123.is
Lækjamóts II hjónunum gekk vel og urðu þau bæði í 3.sæti, Ísólfur í 1.flokki og Vigdís í 2.flokki. Ísólfur á Freymóði frá Feti með einkunnina 7.0 eftir jafna og spennandi keppni í úrslitum. Freymóður er nýlega komin til okkar í þjálfun en hann hefur hæst hlotið 8.33 í aðaleinkunn í kynbótadómi þar af 8.48 fyrir hæfileika.
Vigdís var á Freyði frá Leysingjastöðum II og hlaut einkunnina 6.57 í úrslitum. Freyðir og Vigdís voru bæði í sinni fyrstu fjórgangskeppni innanhús og eru því mjög sátt við úrslitin. Freyðir er efnilegur stóhestur á 6.vetur sem verður sýndur í vor og þetta mót því gott í reynslubankann.
Þrátt fyrir að vera í öðru liði þá var annar Lækjamóts meðlimur sem stóð sig vel á mótinu en það var Þóranna Másdóttir sem starfar hjá okkur. Hún varð í 2.sæti eftir úrslitin í 2.flokki með einkunnina 6.60 á hryssunni Gátt frá Dalbæ.
James okkar sem nú býr á Hólum keppti að sjálfsögðu líka fyrir Víðidalsliðið og gekk vel hjá honum en hann endaði í 5.sæti með einkunnina 6.80 eftir að hafa unnið sig upp úr B-úrslitum. James keppti á Brimari frá Margrétarhofi.
Nú þegar þessu móti er lokið heldur fjörið samt áfram og ekkert slakað á frekar en fyrri daginn. Ísólfur var mættur á Miðfossa kl. 9 laugardagsmorguninn eftir mótið þar sem hann er með tveggja daga reiðnámskeið. Á miðvikudaginn 16. febrúar hefst svo Meistaradeild norðurlands - KS deildin og mætir Ísólfur þangaði í fjórganginn með hryssuna Nýey frá Feti.
Það er því í nógu að snúast en það er einnig gaman að segja frá því að Ísólfur og Vigdís eru nú flutt inn í nýja húsið sitt við tjörnina á Lækjamóti II.