13.12.2011 21:10
Árið 2011 samantekt
Þegar áramót nálgast getur verið gott og gaman að horfa til baka rifja upp árið sem er að líða. Eins og svo oft áður var árið viðburðarríkt enda sjaldan rólegt hjá Lækjamótsfjölskyldunni.
Hér fyrir neðan er stutt samantekt á því sem helst stendur upp úr þegar horft er til baka.
Árið byrjaði á skemmtilegri sýnikennslu sem félagarnir Ísólfur, Guðmar Þór og James héldu saman í reiðhöllinni á Hvammstanga. Fleiri sýnikennslur voru á árinu hjá Ísólfi t.d á vegum Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og á eftirminnilegri afmælissýningu FT.
Ísólfur og Kristófer með sýnikennslu á afmælissýningu FT.
Í febrúar hófust innanhúsmótin og tókum við þar þátt í húnvetnsku liðakeppninni, skagfirsku mótaröðinni og KS-deildinni. Vel gekk á flestum þessum mótum og fjölgaði bikurum jafnt og þétt á bikarahillunni.
Vigdís varð samanlagður sigurvegari í 2.flokki í húnvetnsku liðakeppninni. Í öðru sæti varð Þóranna Másdóttir sem var hjá okkur frá janúar - ágúst 2011. Ekki má gleyma að nefna að lið 3 (okkar lið) sigraði samanlagt þessa skemmtilegu keppni.
í mars var lokapróf í frumtamningum hjá Önnu-Lenu sem var hjá okkur í verknámi, stóðst hún prófið með miklum glæsibrag.
Anna-Lena ánægð með lokaprófið
Í lok apríl hófust kynbótasýningarnar en árið 2011 sýndi Ísólfur mörg hross með góðum árangri. Alls fóru 8 hross í fyrstu verðlaun, stóðhestarnir Blysfari, Freyðir, Hlynur, Hróður, Kraftur, Stúdent,Vökull og svo hryssan Návist frá Lækjamóti.
Blysfari frá Fremra-Hálsi var hæst dæmda kynbótahrossið en hann er 4. hæst dæmdi 6 vetra stóðhestur í heiminum 2011 og varð í 7.sæti á Landsmótinu. Blysfari hlaut 8,77 fyrir hæfileika, þar af 9 fyrir tölt, brokk og fegurð í reið og risatöluna 9,5 fyrir vilja og geðslag. Í aðaleinkunn hlaut hann 8,49.
Í maí útskrifaðist James okkar sem reiðkennari frá Háskólanum á Hólum og var það mikil gleðistund.
Félagarnir James og Flugar saman á útskriftinni.
Þó að samantektin hér sé hestatengd þá er ekki hægt annað en að minnast á að þann 28.maí fæddist yndislegur drengur, sonur Sonju og Friðriks, sem seinna var skírður Jakob.
Og þrátt fyrir að vera nýbúin að eignast barn þjálfaði Sonja og keppti á Kvarani sínum á íþróttamóti Þyts með góðum árangri. Sonja, Friðrik og Jakob fóru svo aftur til Danmerkur í september þar sem Sonja er á 4.ári í dýralæknanámi.
Allt sumarið var tekið þátt í hinum ýmsu hestamótum, íþrótta-og gæðingamótum og tveimur landsmótum! Vel gekk á flestum þessum mótum, þónokkrir sigrar og hvorki meira né minna en Landsmótssigur á fyrsta Landsmóti 50+ sem haldið var á Hvammstanga. Þar sigraði Þórir með glæisbrag í tölti og fjórgangi á Kvaran frá Lækjamóti. Nokkrum dögum áður höfðu Þórir og Kvaran unnið sér þátttökurétt á Landsmóti hestamanna með sigri í A-flokki gæðinga hjá hestamannafélaginu Þyt.
Þórir og Kvaran á Landsmóti 50+ á Hvammstanga
Of langt mál væri að telja upp öll þau hross og mót sem tekið var þátt í en hér má sjá örfáar svipmyndir.
Ekki er hægt að rifja upp árið án þess að minnast á frábæran árangur Elvars Einarssonar og Kóngs frá Lækjamóti en þeir félagar settu Íslandsmet í 250 m. skeiði og urðu í 2.sæti í 100 m.skeiði á Heimsmeistaramóti íslenska hestsins.
Þegar ekki voru hestamót eða kynbótasýningar var nóg um að vera heima á Lækjamóti og auðvitað mikið snúist í kringum hross enda er það okkar áhugamál, atvinna og ástríða. Folöldin fæddust, stóðið rekið á heiði, þjálfað og tamið.
Frændurnir Guðmar og Jakob í fyrsta sinn (örugglega ekki í síðasta) saman á hestbaki.
Sumarið er yndislegur tími
kvennareiðin 2011 var eins og alltaf mikil skemmtun.
Þegar haustaði tóku svo smalamennskur, réttarstörf og reiðnámskeið.
feðgarnir Ísólfur, Ísak og Guðmar í almenningnum að draga féð.
Stóðréttarhelgin er mikil hátíð hjá okkur.
Í lok október var haldin uppskeruhátíð Hrossaræktarsamtakanna og hestamannafélagsins Þyts og hlaut Vigdís verðlaun sem stigahæsti knapi í 2.flokki. Er það góð hvatning fyrir framhaldið en á hús eru komin 27 hross, þar af 4 fyrstu verðlauna hross auk annarra ungra og efnilegra. Hlökkum við því til að halda áfram að bæta okkur og hrossin og vonum að 2012 verði okkur gæfuríkt.
Skrifað af Lækjamót
Flettingar í dag: 192
Gestir í dag: 27
Flettingar í gær: 759
Gestir í gær: 43
Samtals flettingar: 556749
Samtals gestir: 58122
Tölur uppfærðar: 5.2.2025 11:48:30
LÆKJAMÓT | 531 HVAMMSTANGI -
ÍSLAND | +354 4512570 | [email protected]