04.09.2012 21:38

Góður árangur á kynbótasýningu í Svíþjóð


Rauðhetta frá Skeppargarden sem hlaut 8,03 í aðaleinkunn þegar hún var sýnd í Svíþjóð um helgina. 

Síðasta kynbótasýningin í Svíþjóð var haldin á Sundbyholm um síðustu helgi. Á þessari kynbótasýningu sýndi Ísólfur þrár hryssur, Mærð frá Skeppargarden, Rauðhettu frá Skeppargarden og Ripa frá Kullen. Fyrir sýninguna hafði Ísólfur dvalið í rúmar tvær vikur á íslandshestabúgarði Lottu og Peters, í Skeppargarden, til að þjálfa og kenna.  Í stuttu máli gengu sýningarnar á þessum þremur hryssum mjög vel, þær fóru allar í 1.verðlaun og ein þeirra Mærð frá Skeppargarden varð 2.hæst dæmda 4.vetra hryssa sýningarinnar, hlaut 8,13 í aðaleinkunn. Sú sem stóð efst á sýningunni var Vigdís frá Sundsberg en hún er hæst dæmda 4.vetra hryssa ársins í heiminum.

Nú þegar kynbótasýningum er lokið í ár er áhugavert að taka saman niðurstöður á sýningunum. Niðurstaðan fyrir árið er mjög góð en Ísólfur sýndi í ár 15 sýningar í fullnaðardóm. Af þeim hlutu 8 sýningar 1.verðlaun í aðaleinkunn eða 53 % sýninga.  Af þessum 15 sýningum voru 7 í 1.verðlaun fyrir hæfileika. Okkur þykir að sjálfsögðu afar skemmtilegt að tvær af þessum hryssum sem hlutu 1. verðlaun í sumar séu frá Lækjamóti og gefur ástæðu til bjartsýni með framhaldið á ræktununni á Lækjamóti. 


Ein af þessum 1.verðlauna hryssum sem sýnd var í sumar er Návist frá Lækjamóti. Návist vann sér inn þátttökurétt á Landsmóti þar sem hún hækkaði sig í 8,21 í aðaleinkunn þar af 8,27 fyrir hæfileika. Návist er í eigu Þóris Ísólfssonar og fer í háskólanám á Hóla eftir áramót með Sonju.


Glæsihryssan Framtíð frá Leysingjastöðum hlaut 8,22 í aðaleinkunn. Framtíð er í eigu Hreins Magnússonar og var henni haldið undir Spuna frá Vesturkoti.


Stássa frá Naustum er mikill gæðingur og hlaut 8,09 í aðaleinkunn í sumar. Stássa er í eigu Illuga G. Pálssonar og var henni haldið undir Hrafn frá Efri-Rauðalæk.


Gáta frá Lækjamóti stimplaði sig rækilega inn í lok sumars þegar hún hlaut 8,13 í aðaleinkunn þar af 8,24 fyrir hæfileika aðeins 5 vetra gömul. Gáta er í eigu Elínar R. Líndal og verður í þjálfun í vetur á Lækjamóti.



Flettingar í dag: 192
Gestir í dag: 27
Flettingar í gær: 759
Gestir í gær: 43
Samtals flettingar: 556749
Samtals gestir: 58122
Tölur uppfærðar: 5.2.2025 11:48:30
LÆKJAMÓT  |  531 HVAMMSTANGI - ÍSLAND  |  +354 4512570  | [email protected]