14.10.2012 14:23

James kominn heim og á batavegi



"Í dag þann 6.10 varð ungur maður undir hrossastóði í Víðidalstungurétt í.
Maðurinn tróðst undir hrossunum þegar verið var að reka þau í
dilk og var hann fluttur með sjúkrabíl til Akureyrar. Ekki er vitað
hvað hann er mikið slasaður."

Þessi frétt birtist hjá nokkrum fjölmiðlum landsins þann 6.október sl. Það eru kannski ekki allir sem vita að maðurinn sem fréttin fjallaði um var hann James okkar.

James var fluttur eins og segir á Akureyri til rannsóknar. Í fyrstu var talið að hann hefði sloppið, engin beinbrot eða innvortisblæðingar. Var öllum mjög létt enda leit þetta ekki vel út. Við enn frekari rannsóknir kom hinsvegar í ljós mikið innvortis mar og fór svo að James þurfti að dvelja á sjúkrahúsinu í tæpa 5 sólahringa. Niðurstöður fjölda rannsókna sýndu mar á brjóstkassa, lungum, kviðvegg, mjóbaki og mjaðmagrind ásamt mari á hálsliðum og axlarliðum.
Læknarnir voru ekkert hrifnir af því að sleppa James út strax enda þurfti hann að taka með sér mikið af verkjalyfjum. En hann var óþekkur sjúklingur og vildi fara að komast upp í hesthús þó ekki nema til að finna hestalykt svo honum var sleppt með loforðum um að hann verði stilltur og fari ekki of fljótt að reyna á sig. 

Það er ljóst að það mun taka einhvern tíma fyrir James að jafna sig en batahorfur eru góðar og lán í óláni að ekki fór verr. James vill koma á framfæri innilegu þakklæti til þeirra sem brugðust skjótt og rétt við þegar slysið varð. Einnig hefur hann fundið fyrir miklum hlýhug og kveðjum frá fjölmörgum og vill hann þakka fyrir það og segist að lokum vera glaður að vera komin heim!

Flettingar í dag: 153
Gestir í dag: 20
Flettingar í gær: 759
Gestir í gær: 43
Samtals flettingar: 556710
Samtals gestir: 58115
Tölur uppfærðar: 5.2.2025 11:27:24
LÆKJAMÓT  |  531 HVAMMSTANGI - ÍSLAND  |  +354 4512570  | [email protected]