15.11.2012 11:41

Eyjólfur Ísólfsson heiðraður

Á uppskeruhátíð hestamanna 2012 veitti LH Eyjólfi Ísólfssyni heiðursverðlaun fyrir áralanga aðkomu að málefnum íslenska hestsins um allan heim. Lítið hefur verið fjallað um þessi heiðursverðlaun á hestamiðlunum en þau eru engu að síður afar merkileg.


Samúel Örn Erlingsson las á uppskeruhátíðinni upp nokkur af afrekum Eyjólfs og fengum við góðfúslegt leyfi til að birta orð hans hér á heimasíðunni.


Eyjólfur Ísólfsson kynntist íslenska hestinum barn og hefur starfað við tamningar, þjálfun og reiðkennslu í rúmlega 40 ár, hér heima og erlendis. Áhrif hans á hestamennsku nútímans eru mikil.

Hann er einn af stofnendum Félags tamningamanna og mótaði mjög starf þess.

Þegar nýtt framfaraskeið hófst á Íslandi upp úr 1970 kom hann mikið að þróun reiðmennskunnar . Markmið og þjálfunaraðferðir Eyjólfs kristölluðust í tímamótasýningu og eftirminnilegum sigri hans á Hlyni frá Bringu í B flokki gæðinga á Landsmóti á Þingvöllum 1978.

Margt mætti síðan telja, en nægir að nefna sigur hans í tölti á Rás frá Ragnheiðarstöðum á Landsmóti á Vindheimamelum 2002, það sama ár var Eyjólfur valinn knapi ársins.

Eyjólfur hefur starfað við Háskólann á Hólum í um 20 ár, lengst af sem yfirreiðkennari. Hann hefur gengt lykilhlutverki við faglega uppbyggingu námsins.   Breytingarnar sem hafa orðið á menntun atvinnufólks í greininni á þessum 20 árum eru meiri en nokkurn gat órað fyrir. Hundruð tamningamanna og á annað hundrað reiðkennara hafa útskrifast frá Hólakóla frá því að stofnuð var sérstök hestafræðideild við skólann 1996.  

Eyjólfur hefur helgað sig þessu starfi og byggt á því besta úr íslenskri reiðmennskuhefð en viðað að sér hugmyndum og aðferðum hvaðanæva úr heiminum, prófað þær og aðlagað með hestvænar, fágaðar og árangursríkar leiðir að markmiði.

Hugmyndir Eyjólfs um hestamennsku má draga saman með orðum hans sjálfs:

Öll vinna með hestinum þarf að byggja á trausti hans til mannsins.  Reiðmennskan þarf að sýnast auðveld til að vera falleg og eftirsóknarverð. 


Fjölskyldan á Lækjamóti óskar Eyjólfi innilega til hamingju með þennan mikla heiður og vonar að hann haldi ótrauður áfram að bera út hróður íslenska hestins um allan heim.


Flettingar í dag: 192
Gestir í dag: 27
Flettingar í gær: 759
Gestir í gær: 43
Samtals flettingar: 556749
Samtals gestir: 58122
Tölur uppfærðar: 5.2.2025 11:48:30
LÆKJAMÓT  |  531 HVAMMSTANGI - ÍSLAND  |  +354 4512570  | [email protected]