06.05.2013 16:39

Draumar geta ræst

Það hefur margt gerst í lífi okkar á Lækjamóti II (Ísólfur, Vigdís, Ísak og Guðmar) undanfarnar vikur. Til að byrja með keyptum við Ísólfur og Vigdís 50% af Lækjamótsjörðinni af Þóri og Elínu og erum nú stoltir landeigendur. 

Í byrjun febrúar fóru svo fleiri góðir hlutir að gerast en þá tóku erlendir vinir okkar þá ákvörðun að efla hrossaræktina með okkur á Lækjamóti II. Til þess voru keyptar sex 1.verðlauna hryssur, Þær Katla frá Blönduósi (a.e 8,25), Eydís frá Hæli (a.e 8,24), Sýn frá Grafarkoti (a.e 8,13), Návist frá Lækjamóti (a.e 8,21), Dimma frá Hólum (a.e 8,06) og Viðreisn frá Búðardal (a.e 8,10).  

Auk þess langaði þeim að eiga hér góða keppnishesta sem yrðu í okkar umsjón á Íslandi en þau eru miklir aðdáendur íslenska hestsins og íslenskrar náttúru. Hestarnir sem keyptir voru eru, Vaðall frá Akranesi (a.e 8,42), Sólbjartur frá Flekkudal (a.e 8,29), Gandálfur frá Selfossi (a.e 8,46), Korði frá Kanastöðum, Flosi frá Búlandi og fyrir áttu þau Freyði frá Leysingjastöðum (a.e 8,17). 
Hér fyrir neðan má sjá myndir af nokkrum af þeim hrossum sem eru nú á Lækjamóti.
Vaðall frá Akranesi, Sólbjartur frá Flekkudal, Freyðir frá Leysingjastöðum

Gulltoppur frá Þjóðólfshaga, Flosi frá Búlandi og Gandálfur frá Selfossi


Það eru mikil forréttindi að fá að hugsa um og þjálfa þessi hross sem hafa verið nefnd og njótum við hverrar stundar. Í framtíðinni er hugmyndin að bjóða upp á aukna reiðkennslu hér heima hjá okkur á Lækjamóti. Viljum við hafa til þess góða hesta svo fólk fái tækifæri á að prófa hvernig vel þjálfaður íslenskur gæðingur getur verið, en að okkar mati eru vel þjálfaðir gæðingar bestu kennararnir.

Til að taka vel á móti þessum hugsanlegu viðskiptavinum ætlum við á Lækjamóti II að byggja upp frábæra aðstöðu og er nú þegar byrjað að grafa fyrir grunni á nýrri reiðhöll og hesthúsi sem mun vonandi verða tilbúið strax í byrjun næsta árs. Er okkur gert kleyft að ráðast í þessar framkvæmdir með fjárfestingu og lánveitingu frá okkar góðu vinum, þeim sömu og eiga hér hestana. Það má því segja að draumar geti svo sannarlega ræst!

Fjölskyldan á Lækjamóti II. 
Fyrsta skóflustungan hefur verið tekin og eru framkvæmdir hafnar en reiðhöllin og hesthúsið mun rísa í göngufæri frá heimili okkar á Lækjamóti II. 



Flettingar í dag: 192
Gestir í dag: 27
Flettingar í gær: 759
Gestir í gær: 43
Samtals flettingar: 556749
Samtals gestir: 58122
Tölur uppfærðar: 5.2.2025 11:48:30
LÆKJAMÓT  |  531 HVAMMSTANGI - ÍSLAND  |  +354 4512570  | [email protected]