09.07.2013 14:45
Kynbótahryssur á Fjórðungsmóti
Vel heppnuðu Fjórðungsmóti á Kaldármelum er lokið. Mótið kom sérstaklega vel út fyrir Lækjamót sem okkur þykir að sjálfsögðu mjög gaman og erum stolt af. Í þessarri frétt verður í stórum dráttum rakinn árangur kynbótahryssnanna sem fóru á mót frá okkur. Fjórar hryssur úr okkar ræktun voru í einstaklingsdóm, þær Alúð, Gáta, Ólafía og Sigurrós. Skemmst er frá því að segja að þær komust allar í verðlaunasæti í sínum aldursflokkum þrátt fyrir að engin þeirra hafi farið í sinn hæsta dóm.
Ólafía frá Lækjamóti
Ólafía er 5 vetra undan Aðli frá Nýja-Bæ og Kolfinnsdótturinni Rauðhettu frá Lækjamóti. Hún hlaut 9 fyrir tölt, brokk og vilja&geðslag og sannaði þar með að gæði hennar eru ótvíræð. Mýkt, skreflengd, fótaburður og rými. Ásækin og þjál. Aðaleinkunn hennar á mótinu var 8.13 og hún varð í 5. sæti í flokki 5 vetra hryssna.
Sigurrós frá Lækjamóti
Sigurrós er 6 vetra systir Ólafíu að móðurinni til, undan Trú frá Auðsholtshjáleigu. Hún er jöfn og skrefstór alhliðahryssa sem bætti bara í eftir því sem leið á mótið. Í aðaleinkunn hlaut hún 8.04 og 3.sæti í flokki 6 vetra hryssna.
Gáta frá Lækjamóti
Gáta er 6 vetra jöfn og góð alhliðahryssa einnig undan Trú frá Auðsholtshjáleigu og móðir hennar er Toppa frá Lækjamóti. Gáta hlaut 8.5 fyrir bæði skeið og vilja&geðslag. Skeiðupplagið er stórgott, taktgott skeið og ferðmikið. Í aðaleinkunn á mótinu hlaut hún 8.13 og stóð efst í flokki 6 vetra hryssna.
Alúð frá Lækjamóti
Alúð er 7 vetra undan Þorsta frá Garði og Von frá Stekkjarholti. Alúð er hágeng, takthrein og skrefstór ahliðahryssa en hún náði sér ekki alveg á strik á mótinu. Alúð hlaut 7.95 í aðaleinkunn og 5. sæti í flokki 7 vetra og eldri hryssna og var nokkuð frá sínu besta.
Þessar hryssur eru allar á leið í ræktun á Lækjamóti. En þær eru meðal þeirra 8 fyrstu verðlauna hryssna sem eru að fara nýjar í ræktun á Lækjamóti í sumar.