24.01.2014 14:35
Góður árangur í Meistaradeild Vís
Fjórgangsmóti Meistaradeildar Vís lauk í gærkvöldi. Öll umgjörð var til fyrirmyndar, frábær stemming var meðal áhorfenda sem létu vel í sér heyra og glæsileg sjónvarpsútsending Stöð 2 setti punktinn yfir i-ið. Mjög gaman var líka að fá fréttir af því að margir hittust og horfðu saman á beina útsendingu á stöð 2 sport. Auk þess sem margir vinir okkar búsettir erlendis fylgdust með í gegnum internetið.
Ísólfur og Kristófer frá Hjaltastaðahvammi stóðu sig frábærlega, hlutu 7,23 í einkunn í forkeppni sem þýddi 5.-6. sæti og sæti í A-úrslitum. Eftir A-úrslitin enduðu þeir í 4.sæti með 7,67 í einkunn eftir harða keppni við frábæra hesta og knapa þar sem Ólafur og Hugleikur frá Galtanesi hlutu verðskuldaðan sigur. Ísólfur hafði orð á því eftir mótið að honum hefði liðið eins og hann væri að keppa á Íslandsmóti nema það er ennþá bara janúar!
![]() |
Við vorum líka afar ánægð með árangur Vaðals frá Akranesi sem við lánuðum Guðmari Þór, þeir hlutu 6,90 einkunn. Flottur árangur en þetta er í fyrsta sinn sem Vaðall keppir í fjórgangi og fyrsta sinn sem keppt er á honum innanhús. Í raun var það svo að við (Ísólfur og Vigdís) vorum eins og stressaðir foreldrar með hnút í maganum þegar Vaðall "litli" var í braut ;)
Gott var að komast heim í nótt en við tókum ákvörðun um að keyra beint heim eftir mótið til að komast á undan storminum sem spáð var. Heimferðin gekk mjög vel og voru allir 8 hestarnir ánægðir að komast heim aftur í stíurnar sínar. Þeir höfðu samt mjög gott af því að kíkja á suðurlandið og komu reynslunni ríkari heim. Næsta mót er Gæðingafimi þann 6. febrúar sem verður gaman að sjá hvernig hún fer.
staðan í einstaklingskeppninni eftir fyrsta mótið er þessi:
KNAPI STIG
Ólafur B. Ásgeirsson 12
Olil Amble 10
Eyjólfur Þorsteinsson 8
Ísólfur Líndal Þórisson 7
Jakob S. Sigurðsson 6
Viðar Ingólfsson 4,5
Þórdís Erla Gunnarsdóttir 4,5
Eyrún Ýr Pálsdóttir 3
Guðmundur Björgvinsson 2
Hulda Gústafsdóttir 1
og liðakeppnin er svona:
Lið Stig
Hrímnir/Export hestar 59,5
Top Reiter/Sólning 47
Gangmyllan 43
Lýsi 33
Auðsholtshjáleiga31,5
Spónn.is/Heimahagi 31
Árbakki/Hestvit 30
Ganghestar/Málning 25