07.09.2011 09:36

Haustlegt veður

Í dag miðvikudaginn 7.september er frekar haustlegt um að lítast. Göngur standa yfir á Víðidalstunguheiði alla þessa viku og er þokan eitthvað að stríða gangnafólki sem bíður nú í Fellaskála eftir að létti til. Gangnamenn Lækjamótsfjölskyldunnar eru Ísólfur, Óli Steinar og Gunnar. Það er vonandi að þeir komist af stað til að smala í dag annars verður morgundagurinn ansi langur. Við sem sitjum heima horfum til fjalls og vonum það besta en erum um leið fegin að geta verið inni í hitanum.


Svona leit Víðidalsfjallið út kl. 9 í morgun, stóðhestarnir Freyðir og Flugar kipptu sér þó lítið upp við þokuna en þeir eru saman í kærkomnu haustfríi. Freyðir eftir að hafa sinnt hryssum og Flugar eftir að hafa staðið sig vel í keppnum í sumar.

28.08.2011 14:58

Síðsumarssýning á Hvammstanga

Síðasliðinn fimmtudag lauk síðsumarssýningu kynbótahrossa á Hvammstanga. Ísólfur sýndi þar fimm hross og Þórir eina hryssu. Almennt var útkoman í takt við það sem við var að búast og ágætis endapunktur á sumarið þar sem nú taka hauststörfin við; göngur, réttir, reiðkennsla og skólastarf.

Tvær hryssur frá Lækjamóti voru sýndar á sýningunni á Hvammstanga:

Alúð frá Lækjamóti er 5 vetra hryssa undan Þorsta frá Garði og Von frá Stekkjarholti með 7.94 fyrir byggingu og 7.70 fyrir hæfileika, í aðaleinkunn 7.80. Alúð er efnileg alhliða hryssa sem bætti einum og hálfum við skeiðeinkunn sína frá vorsýningu og hlaut fyrir það nú 8,0. Alúð er til sölu


Sögn frá Lækjamóti er hágeng og flott klárhryssa. Hún er 6 vetra undan Veigari frá Lækjamóti, sem er undan Kormáki frá Flugumýri II og Von frá Stekkjarholti, og undan Setningu frá Lækjamóti. Sögn hlaut fyrir sköpulag 7.80, fyrir kosti 7.63 og í aðaleinkunn 7.70. Sögn hlaut 8.5 fyrir vilja&geðslag, fegurð í reið, hægt tölt og hægt stökk.

21.08.2011 18:35

Fyrnarsterku Íþróttamóti Þyts lokið



Það var heldur betur líf og fjör á mótsvæði Þyts á Hvammstanga um helgina þar sem árlegt íþróttamót félagsins fór fram. Auk keppni í "hefðbundnum" íþróttagreinum fóru fram stökk og brokk kappreiðar sem vöktu mikla lukku og heyrðist hrópað og kallað í brekkunnni af spenningi.
Það var hópur hesta og manna sem keppti á mótinu frá Lækjamóti eða alls 13 hross og 9 manneskjur en fjölmennt hefur verið undanfarið í hesthúsinu á Lækjamóti og mikið fjör. Fleiri myndir frá mótinu má sjá hér
sjá má öll úrslit mótsins á heimasíðu  Þyts
Á laugardeginum fór fram öll forkeppni auk kappreiða. Ísólfur og James kepptu í 100 m skeiði. Ísólfur varð í 5 sæti á Hrók frá Kópavogi og James í 8. á Flugari frá Barkarstöðum.

Ísólfur og Hrókur frá Kópavogi á fleygiferð


James og Flugar frá Barkarstöðum á fljúgandi skeiði

Úrslitakeppni sunnudagsins hófst á b-úrslitum í fimmgangi 1.flokki en þar kepptu Ísólfur og James. Svo fór að Ísólfur og Ræll frá Gauksmýri unnu sér þáttökurétt í A-úrslitum með einkunnina 6,50.
Ísólfur og Ræll frá Gauksmýri

Næsta úrslitakeppni var í barnaflokki. Þar keppti Jónína Ósk Sigsteinsdóttir á hryssunni Vár frá Lækjamóti. Þær stóðu sig vel og enduðu í 2.sæti með 5,27. Jónína var einnig í úrslitum í tölti barna á sömu hryssu og varð þar í 3.sæti með 5,11.

Jónína Ósk og Vár frá Lækjamóti

Þar á eftir hófst unglingaflokkur en þar áttum við tvo fulltrúa, þær Birnu O. Agnarsdóttur sem hefur unnið hjá okkur í sumar og Brynju Kristinsdóttur. Þær stóðu sig báðar mjög vel, Birna varð í 5.sæti með 5,33 og Brynja í 2.sæti með 6,57.

Birna og Björk frá Lækjamóti


Brynja og Tryggvi Geir frá Steinnesi

Þá voru það úrslit í fjórgangi 2.flokki. Þar tók Vigdís þátt á hryssunni sinni Sögn frá Lækjamóti. Sögn var í fyrsta sinn að koma inn á hringvöll og gekk mjög vel, þær unnu sig upp um sæti og urðu í 2.sæti með einkunnina 6,50.

Vigdís og Sögn frá Lækjamóti

Nú er komið hádegishlé en þegar því lauk tók við fjórgangur 1.flokkur. Þar mættu systkinin Ísólfur og Sonja. Ísólfur á Kristófer frá Hjaltastaðahvammi og Sonja á Kvarani sínum frá Lækjamóti.

Sonja, Riikka, Tryggvi, Ísólfur og Mette

Ísólfur og Kristófer urðu í 2.sæti með 6,93


Sonja og Kvaran urðu í 5.sæti með 6,13

Jakob var að sjálfsögðu með í klappliðinu alla helgina og fylgdist spenntur með þegar mamman var að keppa.


Slaktaumatölt var næsta úrslitagrein dagsins. Þóranna Másdóttir varð þar í 5 sæti.
Þóranna á Hvítserk frá Gauksmýri. Sigurvegarinn var Mette Mannseth og Háttur frá Þúfum

Að lokum voru töltúrslit 2.flokkur og þar var Vigdís á Ræl frá Gauksmýri. Þau unnu sig upp um tvö sæti og enduðu í 3.sæti með 5,94.

Vigdís og Ræll frá Gauksmýri

Mótinu lauk svo með Gæðingaskeiði. James og Þórir tóku þátt þar. James á Flugari frá Barkarstöðum og Þórir á Návist frá Lækjamóti. Þórir tók einnig þátt í tölti á Návist og hlaut 6,20 í einkunn en það dugði þó ekki í A-úrslit á þessu sterka og skemmtilega móti.

 
Þórir og Návist frá Lækjamóti

17.08.2011 16:32

Kvennareiðin 2011

Hin árlega kvennareið í Húnaþingi vestra var haldin á laugardaginn var. Riðin var skemmtileg leið með sjónum frá Hindisvík að Geitafelli, á Vatnsnesi. Um 100 konur tóku þátt í reiðinni og veðrið var gott. Þemað í ár var "ævintýrapersónur" og fóru frá Lækjamóti fjórar rauðhettur ríðandi á úlfum í ömmugervi.

Vigdís, Elín, Anna og Sonja

Enginn náði að toppa gervi Þórönnu vinnukonu sem mætti sem Fiona úr Shrek myndunum. Með Fionu voru mætt Shrek maðurinn hennar, barnið þeirra og asninn. Búningarnir vöktu mikla lukku enda mjög vel heppnaðir og mikil vinna að baki þeim.

Þóranna, Hrund, Hildur og Ingveldur                                                                           Mynd/Helga H.


13.08.2011 09:28

Skemmtilegur dagur!

Á fimmtudaginn var afskaplega skemmtilegur dagur. Reknar voru fram á heiði þær folaldshryssur sem voru fengnar. Þennan dag átti vinnukonan okkar hún Birna líka afmæli. Veðrið var afar gott og var hægt að spóka sig um léttklæddur, bursla í ánni og njóta þess að borða úti.

Áð á Hrappsstöðum


T.v. Þegar heitt er í veðri er gott að fá sér eitthvað svalandi að drekka. T.h. hryssurnar á leiðinni fram.


Þórir og Guðmar nýttu sér góða veðrið til að vaða í Öxná. Hundurinn Asja tók þar sundsprett og má sjá á myndinni til hægri hve spenntir þeir eru að sjá hvort hún hafi það af, að synda yfir til þeirra.


Afmælisveisla var svo fyrir Birnu í Fosshól eftir að búið var að skila af sér hryssunum.

10.08.2011 21:24

Innsýn í daglegt líf

Daglegt líf hér á Lækjamóti getur oft verið ansi fjörugt. Hér var mikill sónarskoðunardagur á mánudaginn þar sem skoðað var frá þremur stóðhestum sem hafa verið hér í hólfi í sumar. Þær hryssur sem við áttum hjá þeim voru flestar fengnar. Þetta voru tveir tveggja vetra Álfssynir, annar undan Þoku frá Hólum og heitir Þórálfur frá Prestbæ og hinn undan Jónínu frá Hala og heitir sá Jón frá Kjarri. Þriðji hesturinn er svo Sæssonurinn Freyðir frá Leysingjastöðum. Við komum með frekari fréttir af fylum í hryssum síðar.

Laxness frá Lækjamóti undan Blysfara frá Fremra-Hálsi kominn heimvið til að fylgja móður sinni í sónarskoðun.

Járningar eru fyrirferðarmikill þáttur á stórri tamningastöð.

T.v. Friðrik undirbýr kynbótahryssu. T.h. Þórir og James járna úti í góða veðrinu á "gamla mátann"


T.v eru þær Birna 15 ára og Jónína Ósk 13 ára. T.h er Vigdís að fara á útreiðar á hryssunni sinni Sögn frá Lækjamóti.

Eftir miklar umræður um búninga í tengslum við kvennareiðina sem er á morgun vildi Guðmar endilega fá að vera í spiderman-búningnum sínum á baki. Guðmar eyðir öllum deginum í hesthúsinu og finnur upp á mörgu skemmtilegu, heldur sýnikennslur fyrir viðstadda, þjálfar, mokar, eltir hundinn og köttinn og keyrir um á dráttavélinni sinni svo eitthvað sé nefnt.

T.v. Guðmar með Ösju vinkonu sína fyrir framan sig. Þóranna á hana Ösju. T.h. mundar Guðmar við að leggja á Ljúf.

Jakob eyðir líka stórum hluta af sínum degi í hesthúsinu. Hann er þó mest sofandi í vagninum og steinsefur þótt hnegg og járningar séu rétt handan við hornið. Hér fyrir neðan er hann þó að smala með mömmu sinni og afa og er þá í bumbupokanum sínum.


Þjálfunina á hrossunum er reynt að hafa sem fjölbreyttasta. Útreiðar, tæknivinna inni og vinna við hönd ásamt því að mjög reglulega er farið í rekstra með hrossin til að auka úthald, fjölbreytni og gleði. Allt er þetta hluti af daglega lífinu hér á Lækjamóti.

T.v. Ísólfur þjálfar við hönd. T.h. Þóranna lætur kyssa ístöð.


T.v. Þórir á útreiðum með bæinn í baksýn T.h. Guðmar dreymir um að fá að reiða Jakob fyrir framan sig einn daginn.

Hversdagurinn hér á Lækjamóti snýst um hesta og aftur hesta. Hér er líf og fjör og margt af fólki. Veðrið hefur leikið við okkur undanfarna daga sem hefur gert skemmtilega vinnu enn skemmtilegri.


07.08.2011 17:40

Hársbreidd frá heimsmeistaratitli


Mynd/GHP

Þeir félagar Elvar Einarsson og Kóngur frá Lækjamóti héldu á Heimsmeistaramót íslenska hestsins í Austuríki að Íslandsmóti loknu. Þar tóku þeir þátt í gæðingaskeiði, 250m skeiði og 100m skeiði. Bestum árangri náðu þeir í 100m skeiðinu þar sem þeir voru hársbreidd frá sigri. Þeir runnu skeiðið á 7,44 sek en sú sem sigraði, Tania sem keppti fyrir Danmörku, var á 7,43 sek eftir að hafa fengið að fara auka sprett þar sem tölvukerfið nam ekki seinni sprett hennar. Þar með misstu þeir félagarnir hárfínt af heimsmeistaratitli. Þó er þetta frábær árangur þrátt fyrir að óneitanlega hafi verið spælandi að missa þetta frá sér í aukaspretti.





17.07.2011 14:46

Elvar og Kóngur frá Lækjamóti íslandsmeistarar!

Elvar Einarsson og Kolfinnssonurinn Kóngur frá Lækjamóti urðu í gær íslandsmeistarar í 250m skeiði. Þeir fóru seinni sprettinn á tímanum 21,89 sek sem er tími undir gildandi íslandsmeti! Það á þó eftir að fá staðfest hvort um íslandsmet sé að ræða en við bíðum spennt eftir fregnum af því.  Þeir félagarnir tóku einnig þátt í 100m flugskeiði og urðu þar í öðru sæti á tímanum 7,65 sek. Glæsilegur árangur og óskum við þeim innilega til hamingju!


Mynd/ S.Fjóla: Elvar kampakátur með titilinn og þennan frábæra tíma                                         Mynd/ Kolla Gr.: Kóngur frá Lækjamóti

15.07.2011 11:47

Ungviðið

Ungviðið dafnar vel í sumarblíðunni sem loksins lét sjá sig hér hjá okkur. Tryppin voru rekin fram á Víðidalstunguheiði í vikunni þar sem þau dvelja frjáls og óháð mannfólki þar til í októberbyrjun. Folöldin eru nú flest komin í heiminn og dafna vel þótt grasspretta sé með lakara móti. Yngstu drengirnir í fjölskyldunni hafa haft ýmislegt fyrir stafni að undanförnu og einnig var Sigurður heima í nokkra daga og því hafa verið mörg tilefnin til myndatöku síðast liðna viku. Við lofum því myndunum að tala sínu máli.


Jakob 5 vikna kominn á bak á Degi frá Hjaltastaðahvammi í veðurblíðunni


Systkinin Ísólfur, Sonja og Sigurður við Lækjamótsbæinn


Sigurður og Guðmar fóru saman á útreiðar


Þennan bláa fola hafði Guðmar verið að temja svo litli frændi gæti fengið að prófa. Það gekk svona líka vel. Jakob smellpassaði á Kjarna hinn bláa.


Guðmar í hestaleik eins og fyrri daginn. Nú kominn á járn, með skeifur teipaðar við tútturnar, með hlýfar og beisli á leið á hestamót.


Stóðið rekið af stað. Bærinn í baksýn.


Stóðið rann ljúft fram.


Eitt af folöldum ársins 2011. Hestfolald undan Blysfara frá Fremra-Hálsi og Rauðhettu frá Lækjamóti

11.07.2011 18:38

Jakob Friðriksson Líndal

Litli snáðinn þeirra Friðriks og Sonju sem fæddist í Kaupmannahöfn þann 28. maí s.l. var skírður í gær, sunnudaginn 10. júlí, hér á Lækjamóti. Við skírnina hlaut drengurinn nafnið Jakob og var nánasta fjölskylda samankomin til að gleðjast á fallegum degi. Mikil gleði ríkir hjá litlu fjölskyldunni sem nýtur núna sumarsins í faðmi fjölskyldu og vina í sveitinni og verður á Íslandi fram í byrjun september.


Stoltir foreldrar Jakobs eftir að kveikt var á skírnarkertinu.


Foreldrar og afar og ömmur Jakobs F. Líndal eftir skírnina.


Skírnartertan var glæsileg og auðvitað með nafninu á.

03.07.2011 16:41

Landsmót hestamanna 2011

Þá er Landsmóti hestamanna á Vindheimamelum lokið. Veðrið lék við mótsgesti seinni hluta vikunnar sem gerði mjög mikið fyrir mótið, en kuldi setti svip á fyrri hluta vikunnar. Þá var mikill kostur að á annað hundrað bílar gátu stillt sér upp við kynbótabrautina og fylgst með.

Mikil kynbótaveisla var á þessu Landsmóti og var hrein unun að fylgjast með bæði stóðhestum og hryssum á mótinu, því sjaldan hafa sést jafn góð hross á einu móti. Ísólfur sýndi Blysfara frá Fremra-Hálsi í flokki 6 vetra stóðhesta. Blysfari stóð sig vel og hlaut 8.41 í aðaleinkunn og 7. sætið í þétt skipuðum hópi frábærra hesta. Hann hlaut 8,63 fyrir hæfileika og má nefna að hann hækkaði upp í 9,5 í fyrir brokk. Þetta gerði hann þrátt fyrir að gömul meiðsl frá því í vetur hafi tekið sig upp á mótinu, en meiðslin ollu því að hann komst ekki í verðlaunaafhendingu stóðhesta eða afkvæmasýningu föður síns, Arðs frá Brautarholti, sem stóð efstur hesta til 1. verðlauna fyrir afkvæmi. Okkur þótti leitt að Blysfari og Ísólfur fengu því ekki tækifæri til að monta sig fyrir áhorfendum í verðlaunaafhendingunni eða afkvæmasýningunni, en þeir náðu að heilla áhorfendur á yfirlitssýningu á föstudaginn og hlutu lófatak fyrir.


Skeiðsprettur með fánaborgina í baksýn


Blysfari í syngjandi sveiflu

Á mánudeginum fór fram B-flokkur gæðinga. Þar tóku Kristófer frá Hjaltastaðahvammi og Brimar frá Margrétarhofi þátt með Ísólf við stjórnvölinn. Þeim gekk ljómandi vel en Brimar og Ísólfur unnu sér þátttökurétt í milliriðlum sem síðan voru riðnir á þriðjudeginum. Þeir félagar stóðu sig með prýði og voru aðeins 0,06 frá úrslitum.

Kristófer frá Hjaltastaðahvammi                                                Brimar frá Margrétarhofi

Á þriðjudagsmorguninn var forkeppni í A-flokki. Kvaran frá Lækjamóti og Þórir fóru vel og hlutu góða einkunn en keppnin var gríðarlega hörð. Ísólfur reið þar einnig Ræl frá Gauksmýri og Flugari frá Barkarstöðum. Enginn þeirra komst þó í milliriðla að þessu sinni en gaman að taka þátt.

Kvaran frá Lækjamóti

Í lokin kemur hér ein mynd af litla snáðanum þeirra Sonju og Friðriks sem hefur nú eytt fjórðungi ævinnar á hestamannamóti. Hann undi sér afskaplega vel á Landsmóti og mætti galvaskur með mömmu sinni og pabba alla dagana og lúrði vel í vagninum, bílnum eða í fellihýsinu hjá ömmu sinni og afa á milli þess sem hann fékk sér sopa. Myndin er tekin á setningarathöfn mótsins.


25.06.2011 12:05

Þórir Landsmótssigurvegari ;o)

Fyrsta Landsmót UMFÍ 50+ er haldið á Hvammstanga nú um helgina. Þórir tók þátt í hestaíþróttum og náði mjög góðum árangri. Hann sigraði þar bæði fjórgang og tölt og varð annar í fimmgangi. Í fjórgangi og tölti reið Þórir 6 vetra alhliðahestinum Kvarani frá Lækjamóti. Kvaran er undan Sveini-Hervari frá Þúfu og Kolfinnsdótturinni Rauðhettu frá Lækjamóti. Í fimmgangi reið Þórir til úrslita á 5 vetra hryssunni Návist frá Lækjamóti sem þreytti sína frumraun á keppnisbrautinni. Návist fór nýverið í fyrstu verðlaun og er undan Sævari frá Stangarholti og Andvaradótturinni Gildru frá Lækjamóti. Aldeilis glæsilegur árangur hjá Þóri og hrossum ræktuðum á Lækjamóti.

 
Þórir og Kvaran frá Lækjamóti 6 vetra hlutu 1.sætið í tölti og fjórgangi á Landsmóti UMFÍ 50+.


Þórir og Návist frá Lækjamóti 5 vetra urðu í 2.sæti í fimmgangi á Landsmóti UMFÍ 50+.


Þórir setti svo punktinn yfir i-ið með því að leggja Kvaran á skeið útaf vellinum eftir að hafa unnið á honum bæði tölt og fjórgang. Þar með eru þeir félagarnir klárir til þátttöku í A-flokki á Landsmóti hestamanna á Vindheimamelum sem hefst á morgun.


17.06.2011 05:18

Fyrsti hesthúsdagurinn

Krílið þeirra Sonju og Friðriks eyddi í fyrsta sinn heilum degi í hesthúsinu í gær. Drengurinn undi sér vel. Svaf vært á milli þess sem hann fékk sér sopa eða virti fyrir sér umhverfið. Þessi skemmtilega mynd náðist þegar hann horfði dolfallinn á Kvaran frá Lækjamóti sem var ekki síður spenntur að skoða litla angann.


13.06.2011 21:54

spennufall

Þá er öllum kynbótasýningum og úrtökum fyrir landsmót lokið þetta árið og ekki laust við að spennufall hafi gert vart við sig. Þetta hafa verið fjörugar vikur sem hafa innihaldið mikla gleði og eins og eðlilegt er, einhver vonbrigði.
Úrslit hjá Þyt voru haldin í gær, sunnudag og gekk mjög vel hjá okkar fólki. Þórir sigraði A-flokkinn, Ísólfur varð í annar og James þriðji. (nánari úrslit og fleiri myndir má sjá á heimasíðu Þyts). 
Þórir og Kvaran frá Lækjamóti sem er 6 vetra geldingur í eigu Sonju


Þórir, Ísólfur og James kampakátir eftir skemmtileg úrslit í A-flokki

Töltið sigraði James með miklum glæsibrag á Brimari auk þess að vinna 100m skeið á Flugari sínum.

James og Brimar f. Margrétarhofi


James og Flugar á fleygiferð

í B-flokki urðu svo Ísólfur og Kristófer f. Hjaltastaðahvammi í 2.sæti


Í dag (mánudag) var svo haldin úrtaka hjá Neista á Blönduósi og tóku Ísólfur og Freyðir þátt þar.
Ekki komust þeir að þessu sinni á Landsmót en áttu engu að síður góða sýningu og urðu í 2.sæti eftir úrslitin með 8,46 sem er glæsilegur árangur hjá þessum 6 vetra fola sem var í fyrsta sinn að keppa á hringvelli.

Ísólfur og Freyðir í sveiflu


Í 2.sæti á eftir hinum þrautreynda gæðing Gáska frá Sveinsstöðum

11.06.2011 21:58

Návist frá Lækjamóti í 1.verðlaun og þrír komnir inn á landsmót í gæðingakeppni


Það hafa heldur betur verið fjörugir síðustu dagar en kynbótasýningar hafa staðið yfir og í dag fór fram úrtaka fyrir landsmót hjá Þyt sem er okkar félag. Ísólfur sýndi 8 hross á kynbótasýningu sem fór fram á Akureyri í vikunni og vegna mikillar skráningar þurfti að lengja sýninguna um einn dag og var yfirlitssýning því haldin í dag laugardag. Sama dag fór hinsvegar fram úrtaka fyrir landsmót og voru þá góð ráð dýr þar sem Ísólfur ætlaði að taka þátt þar líka en erfitt getur reynst að vera á tveimur stöðum í einu. En ef vilji er fyrir hendi er allt framkvæmalegt og fékkst leyfi hjá aðstandendum sýningarinnar á Akureyri að Ísólfur myndi ekki byrja að sýna kynbótahrossin 8 fyrr en kl.13 og hestamannafélagið Þytur ákvað til að liðka til að byrja mótið kl. 8:00 og tókst Ísólfi því að sýna þrjá hesta áður en hann brunaði í Eyjafjörð til að sýna kynbótahrossin.
Ein hryssa frá Lækjamóti var sýnd á yfirlitssýningunni í dag, Návist frá Lækjamóti og fór hún í fyrstu verðlaun í aðaleinkunn með 8,13 fyrir byggingu og 7,92 aðaleinkunn 8.0.


Návist frá Lækjamóti

Sköpulag
Höfuð 8
Háls/herðar/bógar 8
Bak og lend 8
Samræmi 7.5
Fótagerð 9
Réttleiki 8
Hófar 8.5
Prúðleiki 8
Sköpulag 8.13
Kostir
Tölt 8
Brokk 8
Skeið 7.5
Stökk 8
Vilji og geðslag 8
Fegurð í reið 8
Fet 8
Hæfileikar 7.92
Hægt tölt 8.5
Hægt stökk 8
Aðaleinkunn 8


Af úrtöku fyrir landsmót var svo það að frétta að í B-flokk komst Kristófer f. Hjaltastaðahvammi áfram fyrir Þyt, Kvaran f. Lækjamóti og Þórir komust áfram í A-flokk og Brimar f. Margrétarhofi og James fara í B-flokk fyrir Snarfara. Úrtakan var um leið félagsmót Þyts og fara úrslitin fram á morgun sunnudag, niðurstöður verða því birtar að þeim loknum emoticon . Á mánudaginn fer svo fram úrtaka hjá Neista á Blönduósi og fer Ísólfur þangað með Freyði f. Leysingjastöðum.


Kristófer f. Hjaltastaðahvammi og Ísólfur á íþróttamóti í Borgarnesi í vor.
Flettingar í dag: 114
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 759
Gestir í gær: 43
Samtals flettingar: 556671
Samtals gestir: 58108
Tölur uppfærðar: 5.2.2025 09:38:23
LÆKJAMÓT  |  531 HVAMMSTANGI - ÍSLAND  |  +354 4512570  | [email protected]