20.12.2010 09:29

Sindri frá Leysingjastöðum II fallinn

Sá sorglegi atburður átti sér stað í gær þann 19.desember að gæðingurinn Sindri frá Leysingjastöðum II lést. Sindri veiktist skyndilega föstudagsmorguninn 17.desember. Í fyrstu var talið að um hrossasótt eða fóðureitrun væri að ræða og fékk hann meðhöndlun við því. Á laugardeginum virtist Sindra líða betur og voru dýralæknar sammála um það. Á sunnudagsmorgni versnaði honum skyndilega aftur og lést. Krufning leiddi í ljós bólgur í þörmum sem leiddu til blóðeitrunar. Ekki er vitað um orsök veikindanna enda mjög sjaldgæf hér á landi og engin lækning þekkt.
Sindri var heygður í Miðdegishólnum á Lækjamóti en þar sem fallnir höfðingjar hvíla.
Mikil sorg ríkir við þennan missi enda um einstakan vin og gæðing að ræða en þökkum um leið fyrir ánægjulegar og ógleymanlegar stundir, þú kenndir okkur margt.



Ísólfur og Sindri þreyttir en glaðir eftir velheppnaða kennslusýningu í Gusti sl. vetur.



vinirnir Sindri og Guðmar spjalla saman


Sindri og Ísólfur í úrslitum á Íslandsmóti 2009

05.12.2010 20:00

hesthúsið tilbúið

Sá skemmtilegi dagur rann upp í lok síðustu viku að norður hluti hesthúsins varð fullgerður eftir marga vikna vinnu Þóris sem hefur einn séð um að smíða allar stíurnar. Hestarnir voru glaðir að komast í "svíturnar" sínar en alls eru 11 einshesta stíur (hver 6,70 fm) og 4 tveggja hesta stíur (hver 12,5 fm). Eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan fer vel um hrossin.


beðið eftir heyvagninum, Freyðir farin að ulla af spenningi :)

25.11.2010 10:09

Verknámsdagurinn á Hólum

Eftir áramót mun Anna-Lena Aldenhoff hefja verknám frá Hólaskóla hér á Lækjamóti. Við skelltum okkur því í fjölskylduferð á Hóla til að hitta Önnu Lenu, kennara og aðra verknámskennara í gær. Það er alltaf gaman að koma á Hóla og voru Ísak og Guðmar glaðir að fá að koma með og hitta vini sína þar. Ísak fékk að fara í grunnskólann og ljúka skóladeginum með gömlu bekkjarfélögunum og Guðmar fór á sinn fyrsta verknámsfund og fylgdist grannt með þegar vinnubrögðin voru sýnd í Þráarhöll.

Guðmar einbeittur á svip að fylgjast með sýnikennslu (auðvitað með hest í hendinni líka...)

Verknámið er tvískipt og stendur yfir frá janúar fram í maí. Fyrst er um að ræða frumtamningu og að því loknu taka við þjálfunarhestar. Markmið verknámsins eru m.a að nemandinn fái - skipulega starfsþjálfun í tamningu, þjálfun og umhirðu hesta. - Auki sjálfstæði sitt við tamningu og þjálfun hesta. - Fái innsýn inn í stjórn og rekstur tamningastöðvar/hrossabús og fái þjálfun í mannlegum samskiptum.
Í gær fengum við að sjá hluta af þeim vinnubrögðum sem nemendur læra og voru það Þórarinn Eymundsson, Eyjólfur Þorsteinsson og Mette Mannseth sem stjórnuðu sýnikennslunni.




Anna Lena sýnir "laus í hringgerði"


hluti af nemendum 2.árs bíða spennt eftir að fá að sýni tryppin sín


31.10.2010 20:03

allt komið á fullt

Þá eru komin inn flest af þeim hrossum sem verða inni fyrir áramót og starfið að komast á fullt. Alls eru nú inni 23 hross þar af 11 stóðhestar. "nýji" hesthúshlutinn er að verða klár, 5 stíur alveg tilbúnar og 10 langt komnar. Alls verður pláss fyrir a.m.k 43 hesta þegar allt er tilbúið. Í dag var frídagur hjá hestunum og fengu þeir að dvelja lengi úti í veðurblíðunni. Myndavélinni var svo tekin með þegar sett var inn og kvöldgjöfin gefin.

Ísak og Guðmar duglegir að hjálpa til í hesthúsinu

hinn gangurinn

Sindri f. Leysingjastöðum í einni af nýju stíunum


   Borgar f. Strandarhjáleigu                      Blysfari f. Fremra-Hálsi

Þar sem það fylgir því óhjákvæmilega miklar járningar þegar mörg hross eru tekin á hús er Guðmar búin að "stúdera" járningar síðust daga. Þessi aðferð hans verður þó líklega seint talin venjuleg en hún virkar emoticon




Mjög einbeittur. Svo er auðvitað að athuga fótstöðuna og hvernig til tókst




25.10.2010 20:26

Tekið inn

Í dag var farið í yndislegu veðri, frosti og logni, að tína inn gæðinga og gæðingsefnin sem verða inni í vetur. Það er alltaf gaman að taka hrossin á hús og var ekki laust við fiðring í maganum eins og jólin væru að koma þegar farið var í hólfin að sækja hvern gæðinginn á fætur öðrum. Nú vonar maður bara að hrossin verði öll frísk í vetur og hægt verði að sýna hvað í þeim býr. Þeir hestar sem teknir voru inn í dag voru stóðhestarnir: Kraftur f. Efri-Þverá, Sindri f. Leysingjastöðum II, Freyðir f. Leysingjastöðum II, Blysfari f. Fremra-Hálsi, Gustur f. Lækjarbakka, Flugar f. Barkarstöðum, Vígtýr f. Lækjamóti, Kufl f. Grafarkoti. Einnig voru tekin inn: Hvítserkur f. Gauksmýri, Kristófer f. Hjaltastaðahvammi, Katrín f. Vogsósum, Hörður f. Hnausum og Serbus f. Miðhópi. Á næstu dögum munu bætast fleiri í hópinn og því spennandi dagar framundan.
                                                                                                                                               

Vígtýr f. Lækjamóti og Freyðir f. Leysingjastöðum II sóttir í stóðhestahólf


sumir voru hrifnari af fötunni en aðrir en í henni leyndustu kögglar


það var ekið um sýsluna til að ná í stóðhestana úr ýmsum hólfum


Guðmar var að sjálfsögðu með þennan dag og hjálpaði mikið til. Hér fær hann blíðar móttökur hjá kisu (Rispu f. Þingeyrum) sem býr í hesthúsinu, fegin að fá félagsskap í húsið.


"útlendingurinn" eins og sumir kalla hann í fjölskylduboðum, glaður að vera komin heim eftir mikla kennslu og sýningartörn erlendis.

10.10.2010 18:27

Sýning í bandaríkjunum

Síðustu daga hefur Ísólfur tekið þátt í að sýna  íslenska hestinn í bandaríkjunum á hinu risastóru World Equestrian Games sem haldið var að þessu sinni í Kentucky Horse Park. Þetta er í fyrsta sinn sem íslenski hesturinn fær að taka þátt en örugglega ekki í það síðasta. Í sýningunni tóku alls þátt 8 knapar undir stjórn Guðmars Þórs sem býr ásamt Gígju Dögg með íslenska hesta í Kentucky.
Sýningin gekk mjög vel og vakti gífurlega athygli en í atriðinu var blandað saman fræðslu og skemmtun þar sem fjölmargir kostir íslenska hestsins fengu að njóta sín. Atriðið vakti í raun svo mikla athygli að Guðmar Þór var sífellt boðaður í sjónvarpsviðtöl og eitt kvöldið var hópnum boðið í grillveislu hjá hinum virta knapa Pat Parelli.
Hér koma nokkrar myndir frá sýningunni teknar af Astrid Harrisson


Allur hópurinn ríður þétt saman





ýmsar æfingar sýndar


félagarnir Sölvi og Ísólfur skála líkt og víkingum sæmir

29.09.2010 01:27

Stóðréttahelgin nálgast!


Nú styttst í Stóðréttir í Víðidal! Stóðinu verður smalað til byggða á föstudaginn og réttað verður á laugardaginn. Verið velkomin í heimsókn á Lækjamót.
Hlökkum til að sjá þig í Víðidalnum um helgina!

22.09.2010 17:46

Fréttir úr sveitinni

Þá er haustið gengið í garð með öllu sem því tilheyrir. Kindaréttirnar voru þann 11. september og var það mikið fjör að venju. Fullt hús af fólki og börnin nutu sín sérstaklega vel.

 
Smíðar á íbúðarhúsi og á hesthúsi halda áfram og ganga vel
. Þórir er byrjaður að kenna frumtamningar á Hólum eins og hann hefur gert undanfarin haust þannig hann brunar daglega á skódanum á milli sýslna. Eitthvað hefur hóstapestin verið að gera vart við sig þar en vonandi getur skólastarfið gengið sinn vanagang áfram. Ísólfur hefur verið þónokkuð að kenna erlendis og mun nú senn halda til Bandaríkjanna og vera þar í mánuð við þjálfun, sýningar og kennslu. Sonja er flogin til Danmerkur og er nú byrjuð á sínu þriðja ári í dýralækningum.
Allir hafa nóg fyrir stafni hvort sem er innanheimilis eða utan. Ísak Þórir fór í ævintýraheimsókn til Sigurðar í London og var það honum ógleymanlegt.


Hestamaðurinn og litla sjarmatröllið hann Guðmar varð 4 ára í gær og var það langþráður dagur því hann á sér þann draum heitastann að verða sem fyrst stór svo hann geti farið að temja sjálfur.
 


Nú styttist í stóðréttir í Víðidal. Smölunin verður föstudaginn 1. okt og réttin sjálf laugardaginn 2. okt. Takið daginn frá! Allir velkomnir í heimsókn á Lækjamót!

11.09.2010 20:10

James á leið í reiðkennaranám!

Það var mikið spennufall sem átti sér stað föstudaginn 10.sept. sl. þegar James okkar lauk við inntökupróf á Hólum. Hann var ásamt fleirum að þreyta inntökupróf um að komast inn á 3.ár hestafræðideildar Háskólans á Hólum og stóðst það með glæsibrag! Til þess að komast í námið þarf að sýna tvo hesta, einn fjórgangshest og annan alhliða gæðing. Það getur verið þrautinni þyngra að finna hesta sem henta í verkefnið því kröfurnar eru miklar enda námið krefjandi en skemmtilegt. James mætir því í Janúar á Hóla með stóðhestana sína Vígtý frá Lækjamóti og Flugar frá Barkarstöðum og tekst á við spennandi verkefni.
Innilega til hamingju James með frábæran árangur.

 
James og Flugar frá Barkarstöðum f. Hrafn f. Reykjavík m. Fluga frá Valshamri





Vígtýr frá Lækjamóti f. Stígandi frá Leysingjastöðum II m. Valdís f. Blesastöðum 1A

03.09.2010 13:46

90% fyljun hjá Blysfara

Búið er að sónarskoða þær hryssur sem voru hjá Blysfara frá Fremra-Hálsi í sumar, en hann var í hólfi á Lækjamóti. Blysfari fór í hryssur eftir Miðsumarsýningu á Vindheimamelum í júlí og voru 30 hryssur hjá honum í sumar. Alls voru 27 hryssur fengnar eftir sumarið og því er fyljunarhlutfallið 90% sem verður að teljast mjög gott. Stærstur hluti þeirra hryssna sem eru fengnar við Blysfara eru 1. verðlauna hryssur enda var folatollurinn frír fyrir 1. verðlauna hryssur í sumar.

Má nefna að hjá honum voru þær Gáta frá Ytra-Vallholti (8,40), Ófelía frá Breiðstöðum (8,18), Smella frá Flugumýri (8,08), Rauðhetta frá Lækjamóti (8,01), Hrönn frá Leysingjastöðum (8,00), Rödd frá Lækjamóti (8,06), Rán frá Lækjamóti (8,22), Dalla frá Ási (8,01), Bestla frá Kagaðarhóli (8,03), Alda frá Syðri-Völlum (8,06), Hending frá Sigmundarstöðum (8,11), Sóllilja frá Halldórsstöðum (8,06), Þruma frá Viðborðsseli (8,00), Ösp frá Minni-Reykjum (8,10), Gola frá Leysingjastöðum (8,14), Svala frá Ólafsfirði (8,06) og Eldborg frá Eyri (8,11) auk fjölda annarra góðra hryssna.


Gáta frá Ytra-Vallholti                                                   Ófelía frá Breiðstöðum


Smella frá Flugumýri                                                           Rauðhetta frá Lækjamóti



Hrönn frá Leysingjastöðum                                                       Rödd frá Lækjamóti

26.08.2010 16:10

Fjöruferð



Sonja og Friðrik brugðu út af vananum og fóru með reiðhestana sína í fjöruna við ósa Austari-Héraðsvatna í Skagafirði og þjálfuðu þar. Þetta var hin mesta skemmtun. Sandurinn harður og fjaðrandi og hestarnir vakandi á nýju umhverfi og þá sérstaklega voru þeir hissa á ölduganginum. Þetta var skemmtileg tilbreyting í þjálfuninni. Það er mikilvægt að hafa fjölbreytta þjálfun til að halda gleði í hestum og mönnum og ekki síður til að fá hrossin til að leita til og treysta knapanum í krefjandi aðstæðum. Myndavélin var með í för. Lofum við því myndunum að tala sínu máli.




Friðrik og Dagur frá Hjaltastaðahvammi                                      Sonja og Kvaran frá Lækjamóti 5 vetra

24.08.2010 09:13

Íþróttamót Þyts 2010

Þá er Íþróttamóti Þyts lokið en það var með heldur óhefðbundnu sniði í ár þar sem norðan hvassviðri og úrhellis rigning setti strik í reikninginn á sunnudeginum þegar ríða átti úrslitin. Mótanefnd ákvað því að færa mótið inn í reiðhöllina frekar en að aflýsa því.

Ísólfur, James og Sonja kepptu á mótinu og gekk það prýðilega. Þau komust öll í úrslit. Ísólfur varð annar í fimmgangi og fimmti í gæðingaskeiði á Ræl frá Gauksmýri
, annar í fjórgangi á Herði frá Hnausum og fjórði í tölti á Katrínu frá Vogsósum. James varð þriðji í fimmgangi á Flugari frá Barkarstöðum. Sonja varð þriðja til fimmta í fjórgangi á Kvarani frá Lækjamóti eftir að hafa unnið sig upp úr b-úrslitum og varð svo þriðja í slaktaumatölti á Degi frá Hjaltastaðahvammi.

Ansi lítið hefur verið um mótahald í sumar og því var þetta kærkomið til að hressa við menn og hesta.


Ísólfur og Ræll frá Gauksmýri                                                       James og Flugar frá Barkarstöðum


Sonja og Kvaran frá Lækjamóti 5 vetra                                               Ísólfur og Hörður frá Hnausum


Sonja og Dagur frá Hjaltastaðahvammi                                             Ísólfur og Katrín frá Vogsósum

18.08.2010 17:22

Kynbótasýningu á Blönduósi lokið

Farið var með hryssur í kynbótadóm á Blönduós í vikunni og gekk það nokkuð vel. Hæsta dóm sýningarinnar eða 8,17 í aðaleinkunn hlaut glæsihryssan Framtíð frá Leysingjastöðu II. Framtíð hefur verið í þjálfun hjá Ísólfi síðan í vetur og er fylfull við Kraft frá Efri Þverá. Eigandi hennar er Hreinn Magnússon. Framtíð er 5 vetra gömul undan Orra frá Þúfu og Gæsku frá Leysingjastöðum og hlaut 8,44 fyrir sköpulag og 7,98 fyrir kosti þar af 8,5 fyrir tölt, fegurð í reið, vilja og geðslag og fet.



Framtíð frá Leysingjastöðum II, 5 vetra

 


Þrjár aðrar hryssur voru sýndar og voru þær ansi samstíga í aðaleinkunn eða allar um 7,70 :)
Þetta eru hryssurnar Eyvör frá Lækjamóti, Önn frá Lækjamóti og Eik frá Grund.
Eyvör er 4.vetra gömul undan Kletti frá Hvammi og Rauðhettu frá Lækjamóti. Eigandi er Þórir. Eyvör hlaut í aðaleinkunn 7.70.


Eyvör frá Lækjamóti 4.vetra gömul




Önn frá Lækjamóti er 5 vetra gömul undan Veigari frá Lækjamóti og Öld frá Lækjamóti. Eigandi er Jens T.Mortensen. Önn hlaut 7.71 í aðaleinkunn.


Önn frá Lækjamóti, 5 vetra




Eik frá Grund er einnig 5 vetra en hún er undan Markúsi frá Langholtsparti og Ösp frá Hóli. Eigendur eru Ísólfur og Þórir. Eik hlaut í aðaleinkunn 7,70


Eik frá Grund, 5 vetra



17.08.2010 06:50

Ásdís og Mön frá Lækjamóti íslandsmeistarar!

Þá er Íslandsmóti yngri flokka lokið í ár en það var haldið á Hvammstanga. Þytsmenn lögðu sig fram við að gera vel og ekki bar á öðru en almenn ánægja hafi verið með mótið. "Þetta kemur alltsaman skemmtilega á óvart" var meðal þess sem ánægðir mótsgestir tjáðu starfsfólki.

Þótt allt unga fólkið sem keppti hafi staðið sig með prýði þá ætlum við að leyfa okkur hér að tíunda til einn íslandsmeistaratitil sem okkur finnst við eiga pínulítið í. En knapinn knái Ásdís Ósk Elvarsdóttir reið hryssunni Mön frá Lækjamóti til sigurs í tölti barna. Til hamingju með það!



Flettingar í dag: 114
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 759
Gestir í gær: 43
Samtals flettingar: 556671
Samtals gestir: 58108
Tölur uppfærðar: 5.2.2025 09:38:23
LÆKJAMÓT  |  531 HVAMMSTANGI - ÍSLAND  |  +354 4512570  | [email protected]