28.04.2010 03:37
Sólin hækkar á lofti
Þetta er stóðhesturinn Blysfari frá Fremra-Hálsi. Hann er byrjaður að hressast sem betur fer. Undanfarnar vikur hefur hrossunum verið pakkað inn í ábreiður til að reyna að flýta fyrir bata. Þegar litið er yfir húsið þá mætti halda að það væri Landsmót á morgun því meira og minna öllu er pakkað inn, en önnur er raunin.
Aþena og Alúð
Sögn, Sindri og Freyðir
Sindri frá Leysingjastöðum innpakkaður í ábreiðu. Leiðist ekki að fá klapp frá vini sínum honum Guðmari
Freyðir að kíkja á Guðmar sem heldur á hestinum sínum honum Freyði :)
Við höfum aðeins verið að nýta tímann til að æfa fyrir byggingadóma, fara yfir stillingar og reyna að gera okkur í hugarlund hvar hrossin standa. Þetta er Eik frá Grund sem er í okkar eigu undan Markúsi frá Langholtsparti.
Kveðja frá Lækjamóti
17.04.2010 04:37
Móðir Náttúra
Í hesthúsinu er margt efnilegra hrossa og verður spennandi að sjá þau springa út með vorinu. Það fer að styttast í að fyrstu hryssurnar kasti og hafa þær verið settar á "fæðingardeildina" þannig auðveldara verði að fylgjast með þeim.
Hér koma myndir af efnilegum systkinum í húsinu. Þau eru undan Rauðhettu frá Lækjamóti, 1.verðl. Kolfinnsdóttur.
Eyvör f.2006 undan Kletti frá Hvammi. - Geðgóð og efnileg hryssa og ekki spillir liturinn fyrir.
Kvaran f.2005 undan Sveini-Hervari frá Þúfu - Afar efnilegur alhliðahestur með gott geðslag.
Ein í lokin af stóru systur, Björk f.2003 undan Stíganda frá Leysingjastöðum.
10.04.2010 05:46
KS-deildin og Húnverska liðakeppnin búin
Mikið hefur verið að gerast í vikunni og mikil spenna. Lokakvöld KS-deildarinnar var haldið á miðvikudagskvöldið þar sem Ísólfur endaði sjöundi í heildarstigasöfnuninni. Hann var með Dag frá Hjaltastaðahvammi í smalanum og varð í 7. sæti og Drift frá Hólum í skeiði en hlaut ekki stig þar. Þrjú hross frá Lækjamóti voru í keppninni þetta kvöld en Mön var í smalanum og Melkorka og Kóngur í skeiði. Melkorka og Þorsteinn urðu í 8. sæti og Kóngur og Tryggvi hlutu mjög góðan tíma og enduðu í 2.sæti.
Í gærkvöldi var svo lokakvöldið í Húnversku liðakeppninni en þar var keppt í tölti. Lækjamótsfólkið tilheyrir liði 3 sem er lið Víðidals og Fitjárdals. Liðið okkar varð í öðru sæti í heildarkeppninni. Þetta var ansi sterkt mót. Vigdís komst í B-úrslit í 2.flokki á Aþenu frá Víðidalstungu II með einkunnina 5.97 og hlaut 6.17 í úrslitum og varð áttunda. Í 1.flokki kepptu Ísólfur, James og Þórir. Ísólfur og Þrift frá Hólum fengu 6.43 í forkeppni og 6.61 í úrslitum og urðu einnig áttundu. James og Vígtýr frá Lækjamóti stóðu sig ansi vel og fengu 6.70 í forkeppni og 6.89 í úrslitum og enduðu sjöttu. Þórir keppti á Björk frá Lækjamóti og urðu þau rétt fyrir utan úrslit.
Eitthvað lítið var um myndatökur í vikunni en hér kemur ein gömul.
James og Vígtýr frá Lækjamóti undan Stíganda frá Leysingjastöðum í des 2009
05.04.2010 02:04
Kvennatölt Norðurlands 2010
Kvennatölt Norðurlands í boði útflutningsþjónustu Eysteins Leifssonar var haldið s.l laugardag á Sauðárkróki. Skemmtilegt mót sem er eflaust komið til að vera. Leiðinda veður var þetta kvöld og þónokkuð búið að snjóa á Norðurlandi og vorið greinilega búið að fresta komu sinni í bili. En það stoppaði þær Vigdísi og Sonju ekki.
Vigdís keppti á Aþenu frá Víðidalstungu II og Freyði frá Leysingjastöðum II í flokki minna keppnisvanra en þetta var fyrsta töltkeppni þessarra ungu hrossa. Svo fór að Vigdís komst í úrslit með þau bæði, Aþenu beint í A-úrslit með 6.17 og Freyði í B-úrslit með 5.80. Hún valdi að ríða Aþenu í úrslitum og höfnuðu þær í 5.sæti með einkunnina 6.11. Flottur árangur það!
Vigdís og Freyðir frá Leysingjastöðum II
Vigdís og Aþena frá Víðidalstungu II
Vinningshafar í A-úrslitum hjá minna keppnisvönum. Fjóla, Svala, Rósa, Álfhildur og Vigdís.
Sonja keppti á hryssu úr eigin ræktun, Björk frá Lækjamóti í flokki meira keppnisvanra. En þetta var fyrsta töltkeppni Bjarkar. Þær komu aðrar inn í B-úrslit með 6.30 í einkunn, unnu sig síðan upp í A-úrslitin með 6.61 og þaðan svo upp í fjórða sætið með 6.50. Ansi mikil reið á einu kvöldi en mjög gaman. Einnig var í úrslitum í hryssan Mön frá Lækjamóti undir stjórn Ásdísar Óskar og enduðu þær þriðju.
Sonja á hryssunni sinni Björk frá Lækjamóti
Vinningshafar í A-úrslitum hjá meira keppnisvönum. Oddný, Heiðrún, Ásdís, Sonja og Hallfríður.
Skemmtilegt mót að baki og stútfull hestavika framundan með lokakvöldi í Meistaradeild KS og lokamóti í Húnversku liðakeppninni. Mikil spenna!
31.03.2010 06:28
Líf og fjör hjá unga fólkinu í sveitinni
Ísak Þórir með dekurrófuna sína Flottur í framan
Guðmar hæstánægður með lambið sitt Þrílemba. Og ef þú ert að velta því fyrir þér hvort við séum bara með mislitt,
þá er svarið JÁ.
Allir að leggja á. Guðmar, Jónína og Ísak.
Guðmar í reiðtíma hjá afa sínum. Ljúfur gamli stendur alltaf fyrir sínu.
Ísak Þórir og Vár frá Lækjamóti Jónína Ósk og Kolvör frá S-Skörðugili
Ísak Þórir stendur sig vel í reiðtíma hjá Sonju frænku, bæði á Vár og Kolvöru.
Allir duglegu krakkarnir saman á baki. Jónína Ósk á Vár, Ísak Þórir á Kolvöru og Guðmar Hólm á Ljúf.
Að lokum er hér svo mynd af smíðunum sem eru farnar í gang á Lækjamóti, en nú á að breyta hinum helmningnum af fjárhúsunum líka í hesthús.
Látum þetta gott heita af fréttum úr sveitinni í bili.
Bestu kveðjur frá Lækjamóti
29.03.2010 13:22
Ræktun 2010
18.03.2010 21:12
KS-deildin fimmgangur
Þá er þriðju grein KS deildarinnar af fimm lokið og ljóst að lokakvöldið verður æsispennandi í heildarstigasöfnunni. Ísólfur keppti í fimmgangi á Krafti frá Efri Þverá og urðu þeir í 7.sæti og hefur þar með hlotið 17,5 stig og er í 2.sæti á eftir Bjarna Jónasar sem er með 24 stig.
Frumraunin í fimmgangi á Krafti gekk ágætlega og ljóst að hesturinn á mikið inni en þeir hlutu í einkunn úr forkeppni 6,50.
Á laugardaginn er svo stefnan tekin á Stjörnutölt þar sem Kraftur mætir á ísinn - svellkaldur :) .
Auk þess verður farið með Freyði frá Leysingjastöðum II í stóðhestakeppnina en Freyðir er á 5.vetur og hefur ekki komið fram áður. Það verður því spennandi að sjá hvernig hann bregst við ísnum.
Undirrituð var aldrei þessu vant ekki með myndavélina á lofti og því fylgir hér með mynd sem tekin var í vetur af Krafti en sjá má myndir og frétt frá keppnninni m.a á heimasíðunni www.feykir.is
04.03.2010 08:28
Frábært kvöld hjá Ísólfi og Sindra!
Ísólfur og Sindri stóðu sig mjög vel og sigruðu. Frábær árangur hjá þeim félögum sem smám saman öðlast meiri reynslu, en mótin nú í KS-deildinni eru fyrstu innanhússmót þessa knáa hests. Stórkostlegt hægt tölt hjá þeim köppum í úrslitunum, hraðabreytingarnar góðar og svifu þeir svo um á yfirferðinni og gáfu reynsluboltunum sem með honum voru í úrslitum ekkert eftir. En Gáski brunaði um brautina eins og honum er lagið á yfirferðinni og svo fór að þeir Ísólfur og Ólafur urðu jafnir. Ákváðu þeir að ríða ekki bráðabana heldur biðja um sætaröðun. Fór þá ekki á milli mála að Ísólfur og Sindri höfðu sigrað. Fleira var skemmtilegt fyrir okkur á Lækjamóti á þessu móti en Elvar Einarsson reið hryssu frá Lækjamóti, henni Mön, og stóðu þau sig ansi vel og komust beint í A-úrslitin og enduðu fjórðu.
Úrslitin urðu eftirfarandi:
A-úrslit:
1. Ísólfur Líndal Þórisson og Sindri frá Leysingjastöðum II 7.50/8.11
2. Ólafur Magnússon og Gáski frá Sveinsstöðum 7.70/8.11
3. Bjarni Jónasson og Komma frá Garði 7.57/7.89
4. Elvar Eylert Einarsson og Mön frá Lækjamóti 7.30/7.50
5. Magnús Bragi Magnússon og Farsæll frá Íbishóli 7.07/7.50
B-úrslit:
5. Magnús Bragi Magnússon og Farsæll frá Íbishóli 7.07/7.50
6. Sölvi Sigurðarsson og Töfri frá Keldulandi 6.93/7.22
7. Þórarinn Eymundsson og Fylkir frá Þingeyrum 7.00/7.22
8. Mette Mannseth og Happadís frá Stangarholti 7.23/7.11
9. Þorsteinn Björnsson og Ögri frá Hólum 7.13/7.11
Ísólfur Líndal og Sindri frá Leysingjastöðum í sveiflu.
Elvar Eylert og Mön frá Lækjamóti
Fleiri myndir frá úrslitunum í gærkvöldi má sjá HÉR
Stigasöfnun knapa í KS deildinni
* 1 Ólafur Magnússon 16 stig
* 2 Ísólfur Líndal Þórisson 15 stig
* 3 Bjarni Jónasson 14 stig
* 4 Mette Mannseth 11,5 stig
* 5 Elvar E. Einarsson 11,5 stig
* 6 Þórarinn Eymundsson 7,5 stig
* 7 Magnús Bragi Magnússon 7,5 stig
* 8 Sölvi Sigurðarson 6,5 stig
* 9 Þorsteinn Björnsson 1,5 stig
* 10 Líney María Hjálmarsdóttir 1 stig
28.02.2010 20:00
Vel heppnuð afmælissýning Þyts
Hestamannafélagið Þytur hefur nú fyllt árin 60 og var haldið upp á það með skemmtilegri sýningu í nýju reiðhöllinni á Hvammstanga. Atriði sýningarinnar voru sett saman af heimafólki og má geta þess að 84 knapar tóku þátt í sýningunni og margir komu fram oftar en einu sinni þannig að hrossafjöldinn var þónokkur. Ekki amalegt fyrir ekki stærra félag. Mjög leiðinlegt hríðarveður var á föstudagskvöldið þegar generalprufan var haldin og gleymist það kvöld líklega seint á meðal aðstandenda sýningarinnar. Veðrið var ekki spennandi uppúr hádegi á laugardag en svo snarhætti veturkonungur við að gera okkur lífið leitt og fínasta veður var restina af deginum. Fullt var á sýningunni sem var afar ánægjulegt. Boðið var uppá veglegt afmæliskaffi í hléinu og hjálpuðust félagar að við það eins og annað. Um kvöldið var svo grillveisla í boði hestamannafélagsins. Nýja reiðhöllin okkar fékk nafnið Þytsheimar. Heiðursfélagi var útnefndur Guðmundur Sigurðsson, eða Gúndi eins og við þekkjum hann. Hann hefur unnið óeigingjarnt starf í þágu félagsins til fjölda ára.
Gaman er að geta þess að samheldnir Þytsfélagar lögðust á eitt við að byggja stúkur, veitinga- og salernisaðsöðu ásamt því sem félgar lögðu mikla vinnu á sig við byggingu reiðhallarinnar og einnig við að láta þessa skemmtilegu sýningu verða að veruleika.
Lækjamót var með ræktunarbússýningu og heppnaðist hún vel. Við fengum mörg hrós fyrir sýninguna og þótti okkur gaman að heyra það. Hrossin voru góð og reyndum við að flétta inní atriðið fimi og fagmennsku. Hrossin sem við vorum með voru Vígtýr f. 2004 undan Stíganda frá Leysingjastöðum og Valdísi frá Blesastöðum, Jafet f. 2003 undan Hrym frá Hofi og Sjöfn frá Miðsitju, Björk f. 2003 undan Stíganda frá Leysingjastöðum og Rauðhettu frá Lækjamóti, Mön f. 2000 undan Óði frá Brún og Von frá Stekkjarholti og Kvaran f. 2005 undan Sveini-Hervari frá Þúfu og Rauðhettu frá Lækjamóti.
Mön og Elvar - Takk fyrir hjálpina Elvar Jafet og James
Kvaran og Friðrik Björk og Sonja Vígtýr og Þórir í "aktion"
Lækjamótsfólkið var með í fleiri atriðum eins og t.d ræktunarbúi frá Víðidalstungu II en hross frá þeim hafa verið þónokkuð í tamningu á Lækjamóti síðustu ár. Einnig voru systkinin Ísólfur og Sonja með í atriði sem var kallað Íslandsmeistarar en Hestamannafélagið Þytur hefur í gegnum árin eignast nokkra íslandsmeistara og þótti við hæfi að þeir kæmu fram saman á þessarri sýningu.
Aþena frá Víðidalstungu II og Þórir Ræll frá Gauksmýri og Ísólfur
Ísólfur var með gæðingafimisýningu á Jaðri frá Litlu-Brekku og vakti hún lukku. Hesturinn mjúkur og flottur og sýndu þeir hinar ýmsu æfingar.
Sniðgangur á tölti afturfótasnúningur skeið
Skilyrði til myndatöku voru ekki sérlega góð en við látum þó hér að lokum fljóta með nokkrar myndir frá sýningunni.
Stórskemmtilegir fimleikar á hestum
Svörtu folarnir Gamli tíminn Dívurnar
Takk fyrir skemmtilegan dag kæru Þytsfélagar.
26.02.2010 11:31
Hestamannafélagið Þytur 60 ára
Reiðhallarsýning í tilefni 60 ára afmælis Hestamannafélgasins Þyts í Vestur-Húnavatnssýslu og um leið, vígsla á nýju reiðhöllinni, verður haldin laugardaginn 27.febrúar kl. 15. Sýningin verður byggð upp af heimafólki sem hefur lagt metnað sinn í fjölda skemmtilegra atriða. Fjölmörg ræktunarbú úr héraðinu, sýningar barna og unglinga, mynsturreiðar og fleira skemmtilegt. Afmæliskaffi í hléi. Aðgangseyrir er 2000 kr fyrir fullorðna, 800 kr fyrir 7-12 ára og frítt fyrir börn 6 ára og yngri.
Vonumst til að sjá sem flesta.
22.02.2010 19:01
Ræll frá Gauksmýri
Stefnt er að því að keppa á Ræl í vetur og næsta sumar en Ræll er mikill alhliða gæðingur.
21.02.2010 08:51
Bautatölt 2010
Það er óhætt að segja að A-úrslitin á Bautatöltinu sem fram fór á Akureyri í gær hafi verið spennandi enda frábærir hestar og knapar þar í úrslitum.
Ísólfur og Kraftur frá Efri - Þverá voru síðustu keppendur forkeppninar en alls tóku um 70 keppendur þátt. Áður en Ísólfur kom inn á voru Þorsteinn Björnsson (Steini) og Ögri frá Hólum efstir með einkunnina 7,0 en Ísólfur og Kraftur mættu einbeittir á svellið og skutust í efsta sætið með einkunnina 7,17. Frábær árangur hjá Krafti í sinni fyrstu töltkeppni.
Að loknu hléi og B-úrslitum hófust A-úrslitin og voru þar auk Ísólfs og Steina þeir
Sölvi Sigurðarson og Glaður frá Grund, Barbara Wensl og Dalur frá Háleggsstöðum og Magnús Magnússon og Farsæll frá Ibishóli sem kom upp úr B-úrslitum.
Úrslitin voru mjög jöfn en svo fór að Steini og Ögri sigruðu og Ísólfur og Kraftur urðu í 2.sæti. Í þriðja sæti var svo Barbara og Dalur, 4. varð Sölvi og Glaður og 5. urðu Maggi og Farsæll.
Að lokinni keppni var svo gæðingunum pakkað inn í ábreiður og settir upp á sömu kerru og haldið af stað heim á Hóla í snjókomunni.
Ekki gekk nægjanleg vel að ná myndum og lagði undirrituð ekki í að renna sér inn á svellið en hér koma myndir sem teknar voru þegar beðið var niðurstöðu dómara :)
Reiðkennarnir þrír - Ísólfur, Steini og Sölvi bíða spennir eftir niðurstöðu dómara
úrslitin ljós
18.02.2010 04:03
Úrslit KS deildarinnar - fjórgangur
Þá er fjórgangskeppni KS deildarinnar lokið og er óhætt að segja að hún hafi verið mjög skemmtileg. Margir góðir hestir og flottar sýningar. Úrslitin urðu þessi:
A-úrslit
1. sæti: Mette Mannseth og Happadís frá Stangarholti eink. 7,40 / 7,87
2. sæti: Ólafur Magnúss. og Gáski frá Sveinsstöðum eink. 7,30 / 7,63
3. sæti: Bjarni Jónass. og Komma frá Garði eink 7,37 / 7,63
4. sæti: Elvar E. og Mön frá Lækjamóti eink. 6,90 / 7,37
5. sæti: Ísólfur Líndal og Sindri frá Leysingjastöðum II eink. 7,03 / 7,17
6. sæti: Þórarinn E. og Fylkir frá Þingeyrum eink.7,03 / 7,13
B-úrslit
upp úr B. úrslitum og í A-úrslit fór svo Elvar E. á Mön frá Lækjamóti með 7,33
7. sæti: Sölvi S. og Nanna frá Halldórsstöðum eink. 6,77 / 7,23
8. sæti: Magnús Bragi og Farsæll frá Íbishóli eink. 6,87 / 7,20
9. sæti: Líney María og Þytur frá Húsavík eink. 6,73 / 6,80
Ísólfur og Sindri frá Leysingjastöðum II
Sölvi og Nanna frá Halldórsstöðum
Ólafur Magnússon og Gáski frá Sveinsstöðum
Bjarni Jónasson og Komma frá Garði
Það var einnig nóg um að vera baksviðs en gerður verður þáttur um KS deildina líkt og áður. Auk þess fór fram fyrsti hluti rannsóknar sem er hluti af lokaverkefni Sigríðar Bjarnadóttur BS-nema í hestafræði við Háskólann á Hólum. Verkefnið felst í að gera stöðumat á keppnishestum og er meðal annars mæld hjartsláttartíðni, öndunartíðni, líkamshiti og styrkur mjólkursýru í blóði. Friðrik Már er einn af leiðbeinendum þessa lokaverkefnis.
13.02.2010 08:55
Vilmundur frá Feti á Lækjamóti
Vilmund frá Feti ættu flestir hrossaræktendur að þekkja. Hann sló í gegn á LM2006 á Vindheimamelum. Kliður fór um brekkuna þegar hann kom í brautina. Framganga þessa unga hests vakti mikla og verðskuldaða athygli. Vilji og fas ásamt úrvals gangtegundum.
Nú hefur Lækjamót, í samstarfi við Hrossaræktarsamtökin í Vestur og Austur Húnavatnssýslu, fengið hestinn til afnota á fyrra gangmáli sumarið 2010. Hann verður í hólfi á Lækjamóti.
Elstu afkvæmi Vilmundar eru fædd 2004 og því ekki mikil reynsla komin enda hesturinn ekki gamall. Þrátt fyrir það þá hafa komið fram afar góð hross undan Vilmundi. Hæst dæmd eru Stakkavík frá Feti með 8.31 í aðaleinkunn og Stefán frá Hvítadal með 8.2.
Ætt Vilmundar er ekki af verri endanum. Hann er undan hinum þekkta stóðhesti Orra frá Þúfu sem hefur gefið fjöldan allan af afburða ræktunargripum. Móðir Vilmundar er Vigdís frá Feti og hefur hún reynst afskaplega vel sem ræktunarhryssa. Afkvæmi hennar eru 12 og hafa 7 þeirra verið sýnd, eða öll sem náð hafa 5 vetra aldri. 6 þeirra eru með fyrstu verðlaun.
Vilmundur er með 129 í kynbótamati (BLUP), sem er næst hæsta kynbótamat á íslenskum stóðhesti í heiminum í dag og það hæsta á Íslandi.
Einstaklingsdómur Vilmundar er glæsilegur og fylgir hann hér:
Aðaleinkunn: 8,56 |
|
Sköpulag: 7,96 |
Kostir: 8,95 |
Höfuð: 7,5 Smá augu Háls/herðar/bógar: 8,0 Mjúkur Skásettir bógar Bak og lend: 8,5 Mjúkt bak Breitt bak Samræmi: 8,0 Fótagerð: 7,5 Réttleiki: 7,5 Framfætur: Útskeifir Hófar: 8,5 Prúðleiki: 8,0 |
Tölt: 9,0 Rúmt Taktgott Há fótlyfta Brokk: 9,0 Öruggt Skrefmikið Há fótlyfta Skeið: 8,5 Ferðmikið Öruggt Stökk: 8,5 Ferðmikið Teygjugott Vilji og geðslag: 9,5 Fjör Ásækni Vakandi Fegurð í reið: 9,0 Góður höfuðb. Mikill fótaburður Fet: 7,5 Skrefstutt Hægt tölt: 9,0 Hægt stökk: 8,0 |
|
Vinsamlega hafið samband á [email protected] til að fá frekari upplýsingar.
Bestu kveðjur frá Lækjamóti