09.02.2010 15:15

Heimasíðan skilar árangri

Við á Lækjamóti erum ánægð með gengi heimasíðunnar. Heimsóknafjöldi hefur verið að aukast og nú nýverið seldist hestfolald eingöngu fyrir tilstuðlan heimasíðunnar, án nokkurra tengsla. Þetta virkar hvetjandi fyrir okkur.


Hjaltalín frá Lækjamóti fer til Þýskalands til nýrra eigenda þar, Marion og Sönke Müller.

Annars er allt gott að frétta. Nóg að gera hjá öllum eins og fyrri daginn og veðrið eins og það gerist best í febrúar. Tamningar og þjálfun eru í fullum gangi bæði á Lækjamóti og Hólum og reiðkennsla skipar stóran sess í daglegu lífi. Friðrik og Ísólfur á Hólum og Þórir að kenna hjá Hestamannafélaginu Þyt ásamt því sem bæði Ísólfur og Sonja eru með kennslu erlendis. Innanhússmótin eru einnig að fara í gang. Fyrsta mótið í Húnversku liðakeppninni fór fram síðasta föstudag og fyrsta mótið í KS-deildinni verður 17.febrúar.

Við viljum hvetja ykkur til að kíkja á sölusíðuna okkar. Vorum til dæmis að setja inn nýtt myndband af Jaðri.


Bestu kveðjur frá Lækjamóti

30.01.2010 20:19

Stóðhestar í þjálfun í útibúinu frá Lækjamóti á Hólum

Það er ekki amalegir stóðhestarnir sem eru í þjálfun á Hólum hjá Ísólfi og Friðrik og spennandi ár framundan í keppni og sýningum. Þeir stóðhestar sem eru í þjálfun eru:
Blysfari frá Fremra-Hálsi
Freyðir frá Leysingjastöðum
Kraftur frá Efri Þverá
Ræll frá Gauksmýri
Sindri frá Leysingjastöðum
Þengill frá Ragnheiðarstöðum

Hér fyrir neðan má sjá smá sýnishorn af nokkrum þeirra :)


Freyðir frá Leysingjastöðum M. Dekkja frá Leysingjastöðum F.Sær frá Bakkakoti


Sindri frá Leysingjastöðum M. Heiða frá Leysingjastöðum F. Stígandi frá Leysingjastöðum


Þengill frá Ragnheiðarstöðum M.Þyrla frá Ragnheiðarstöðum F. Orri frá Þúfu


Kraftur frá Efri - Þverá  M. Drótt frá Kópavogi F. Kolfinnur frá Kjarnholtum I


Blysfari frá Fremra-Hálsi M. Frigg frá Fremra-Hálsi F. Arður frá Brautarholti

26.01.2010 20:25

Æft fyrir úrtöku meistardeildar KS

Á morgun verður úrtaka fyrir meistaradeild KS haldin í Svaðastaðahöllinni og skelltum við okkur því á Krókinn sl. sunnudagskvöld til að líta á æfingu hjá James og Steina en þeir eru meðal 13 keppenda sem berjast um 6 laus sæti. James ætlar að keppa á Vígtý frá Lækjamóti í fjórgangi og Úlfi frá Fjalli í fimmgangi.  Steini mætir með Ögra frá Hólum í fjórgang og Kylju frá Hólum í fimmgang. Það var margt skoðað og spáð á æfingunni og verður spennandi að sjá hvernig þetta fer allt saman annað kvöld.

    

James og Úlfur frá Fjalli





Steini og Ögri frá Hólum


Yfirþjálfarar fylgdust vel með :)

23.01.2010 15:36

Kraftur í góðum gír


Í dag fengum við góða heimsókn en eigendur Krafts frá Efri Þverá, Jónína og Siggi komu að kíkja á kappann. Það var auðvitað notað tækifærið og smellt af enda Kraftur öflug fyrirsæta (og Ísólfur líka)  :)


Jónína, Siggi og Ísólfur á spjalli


Kraftur í Þráarhöllinni



Síðan var aðeins farið út líka


flottur kappinn :)



17.01.2010 10:32

Hugað að útiganginum

Þótt veðurblíðan leiki við landsmenn þessa dagana þá er alltaf vert að huga að útigangshrossunum. Folaldsmerarnar á Lækjamóti eru komnar á gjöf en grasmikil jörðin sér ennþá fyrir restinni af útiganginum. Óhætt er að segja að það væsi ekki um stóðið í blíðunni og hrossin almennt í góðu ásigkomulagi. Í vikunni var myndavélin með í för þegar litið var eftir folaldsmerunum og tækifærið nýtt til að taka myndir af stóðhestsefnum úr okkar ræktun á 1.vetri.


Þetta er megatöffarinn hann Vikar undan Tjörva frá Sunnuhvoli og Von frá Stekkjarholti


Hjaltalín, brúnstjörnóttur undan Hófi frá Varmalæk og Rauðhettu frá Lækjamóti. Með honum er Monika undan Kiljan frá Steinnesi og Rödd frá Lækjamóti

Það er alltaf gaman að vera ræktandi þegar ungviðið bregður á leik og maður fyllist von og tilhlökkun um að sjá hvernig úr rætist.

Bestu kveðjur frá Lækjamóti.

10.01.2010 17:24

Vetrarstarfið í fullum gangi

Um helgina skelltum við fjölskyldan á Hólum okkur í heimsókn á Lækjamót og að sjálfsögðu urðum við að sjá stöðuna á tamningu og þjálfun hjá James og Þóri :)
Ísak og Guðmar fóru líka í reiðtúr á Ljúf gamla en hann fór með okkur aftur á Lækjamót og verður þar fyrir strákana í vetur til að þjálfa.
Með okkur norður á Hóla aftur kom svo stóðhesturinn Ræll frá Gauksmýri og verða settar myndir af honum ásamt þeim sem eru hjá okkur Ísólfi á Hólum í þjálfun von bráðar. En hér koma nokkrar myndir af hluta hrossana sem eru á járnum á Lækjamóti.


Guðmar hestshaus varð aðeins að hlaupa og láta taka mynd af sér


Ísólfur og Eik frá Grund, á 5. vetur, efnileg alhliða hryssa í eigu Lækjamótsbúsins


Ísólfur og Eik



Þórir og Vár, tölthryssa á 7. vetur í eigu Þóris

Jafet sem er efnilegur fjórgangari í eigu Þóris


Úlfur tók vel á því á skeiðinu hjá James og sést hér á fljúgandi skeiði :)


Úlfur á flottu brokki


James og Kolvör frá Syðra-Skörðugili


James og Lækur, foli sem við Ísólfur eigum


Ísólfur og Guðmar saman á Ljúf gamla


Ísak fór líka á bak á Ljúf - einbeittir félagarnir á leiðinni heim :)



30.12.2009 10:40

Hestamót á jólum



Yfir jólahátíðina er heldur rólegra yfir hesthúsinu. Við njótum þess, eins og hefð er á jólum, að vera sem mest með fjölskyldunni. Hrossin hafa fengið að njóta þess að vera mikið úti og velta sér í snjónum. Hugurinn dvelur þó gjarnan með hestamennskunni. Skemmtilegt hestamót var haldið á Lækjamóti á jóladag. Eftir mikinn undirbúning var lagt af stað frá nýja playmo hesthúsinu, hrossin sett á nýja hestabílinn og haldið á mót. Meðfylgjandi mynd er frá verðlaunaafhendingunni á jólamótinu.

Friðrik og Guðmar í skemmtilegum leik.


Hér er mynd af þeim fjölskyldumeðlimum sem staddir voru á Lækjamóti á jóladag.

James, nýtrúlofuðu Friðrik og Sonja, Vigdís, Ísólfur, Ísak Þórir, Guðmar, Þórir og Elín.


Gleðilegt nýtt ár.


23.12.2009 20:01

Heimsókn í útibúið

Útibú Lækjamóts er á Hólum í Hjaltadal hjá þeim Ísólfi, Vigdísi og sonum, auk þess fer Friðrik að taka þar inn hross á næstu dögum. Það var um að gera að renna heim að Hólum og gera smá úttekt þar. Það var nú ekki leiðinlegt og er hestakosturinn hjá þeim hjónum alls ekki af verri endanum. En sökum mikils frosts og birtuleysis náðust ekki nógu margar skemmtilegar myndir en hér koma þó myndir af mósótta genginu.


Freyðir frá Leysingjastöðum u. Sæ frá Bakkakoti og Dekkju frá Leysingjastöðum
f.2005 eig. Hreinn Magnússon



Truflun frá Bakka u. Þyt frá Neðra-Seli. F.2005 eig. Ísólfur og Vigdís

Ísak Þórir og Guðmar eru líka duglegir að þjálfa og fóru í reiðtúr á Ljúf gamla þótt frostið biti í kinnarnar. "Ljúfur lullar alltaf med miiig, hann er nefninlega svo gaaamall" tjáði Guðmar okkur, alveg með þetta á hreinu emoticon


Það er fleira spennandi í þjálfun hjá þeim Ísólfi og Vigdísi m.a Sindri frá Leysingjastöðum, Kraftur frá Efri-Þverá og ung og spennandi Orradóttir.

Látum þetta gott heita af fréttum frá útibúinu í bili.
Bestu kveðjur frá Lækjamóti

19.12.2009 20:21

Myndavélin með í hesthúsið





Veðrið hefur verið yndislegt undanfarið og því var kjörið að taka myndavélina með í hesthúsið og smella nokkrum myndum af tamningamanninum, honum James, á útreiðum. Aðrir fjölskyldumeðlimir földu sig fyrir myndavélinni í þetta skiptið og því fær hann að njóta sín í þessarri frétt. Þrátt fyrir að það sé bara desember eru flest hrossin sem eru á húsi á Lækjamóti komin vel af stað og horfir vel við þjálfun vetrarins.
Við lofum myndunum að tala sínu máli.




Vigtýr frá Lækjamóti u. Stíganda frá Leysingjastöðum              Aþena frá Víðidalstungu II u. Illingi frá Tóftum



Önn frá Lækjamóti u. Veigari frá Lækjamóti           Vár frá Lækjamóti u. Víkingi frá Voðmúlastöðum

Svo hér í lokin verður að koma ein týpisk af okkar yndæla tamningamanni. Það verður nú að gera hrossin símavön í nútíma samfélagi emoticon


Bestu kveðjur frá Lækjamóti

15.12.2009 17:33

Feðgar í Færeyjum


Nú nýliðna helgi fóru feðgarnir Ísólfur og Þórir til Færeyja. Reiðkennsla var meginmarkmið túrsins. Allt heppnaðist mjög vel og verða nú í framhaldinu regluleg námskeið þar. Tíminn var rúmur svo þeir náðu svolítið að skoða sig um og létu vel af landi og þjóð. Hestamennskan er á góðu róli í Færeyjum og er mikill metnaður áberandi í mannskapnum sem er bara af hinu góða. Hér koma nokkrar myndir úr ferðalaginu.


 
Merki Íslandshestafélagsins t.v og hesthúsahverfið t.h

 
Tekið yfir Þórshöfn t.v og fyndin færeyska t.h


 
Reiðhöllin t.v og Þórir með færeyskum hesti t.h

Bestu kveðjur frá Lækjamóti.

15.12.2009 17:10

Rekstur


Það er skemmtileg tilbreyting bæði fyrir menn og hesta að komast í rekstur. Það eykur þol, styrk og gleði í hrossunum. Í seinustu viku var farið í einn slíkan á Lækjamóti en reynt er að miða við að fara einu sinni í viku. Veðrið var dásamlegt og mikil hlaupagleði í hrossunum. Það er alltaf gaman að virða fyrir sér hreyfingar hrossanna og sýndu þau mörg hver á sér ansi skemmtilegar hliðar. Það er komið gott skrið á tamningar og húsið fullt á Lækjamóti. Margt efnilegt og spennandi vetur framundan.

 

Mikið fjör í rekstri emoticon


Bestu kveðjur frá Lækjamóti

08.12.2009 18:54

Vel heppnuð sýnikennsla

                                 
                                                                        ljósmynd: HGG

Í síðustu viku brunaði Ísólfur suður til Reykjavíkur til að halda sýnikennslu í Andvara. Um tíma var aðeins tvísýnt með hvort Ísólfur kæmist suður en mikið hvassviðri gekk yfir landið daginn áður og um morguninn en mikil hálka var á leiðinni. Svo fór þó að Ísólfur komst suður með þrjá hesta í kerrunni og mætti galvaskur í Andvara um kvöldið.
Sýnikennslan þótti heppnast mjög vel eins og sjá má á heimasíðu FT
http://tamningamenn.is

Ísólfur fór með þrjú hross með sér þau Truflun frá Bakka sem er 4 vetra hryssa undan Þyt frá Neðra-Seli, Aþenu frá Víðidalstungu II sem er 5 vetra undan Illing frá Tóftum og stóðhestinn Sindra frá Leysingjastöðum 7 vetra undan Stíganda frá Leysingjastöðum.

Það er alltaf nóg að gera hjá Lækjamótsfjölskyldunni hvar í heiminum sem hún er stödd því að á sama tíma og Ísólfur var með sýnikennslu hélt Sonja fyrirlestur fyrir Íslandshestafélag í Danmörku.

26.11.2009 10:39

Vetrardagskrá

Innanhúsmót og ísmót eru alltaf að verða stærri og stærri hluti vetrarstarfseminnar og nú eru komin drög að dagskrá að þeim mótum sem eru hér í kringum okkur.

Ísólfur hefur tekið þátt í Meistaradeild KS frá upphafi og kemur vonandi sterkur til leiks í ár. Úrtakan fyrir laus sæti verður 27. janúar.

Keppniskvöld verða eftirfarandi:
17. febr.  3. mars  17.mars  og 7.apríl

Ísmótið á Svínavatni verður haldið 6. mars


Húnvetnska liðakeppnin er skemmtileg röð innanhússmóta í reiðhöllinni á Hvammstanga. Keppnin var haldin í fyrsta skipti í fyrravetur og heppnaðist stórvel þar sem mikil stemming myndaðist í Húnaþingi vestra og þátttakan var mikil. Keppt er í fjórum greinum, tölti, fjórgangi, fimmgangi og smala. Í fyrra vann okkar lið, lið Víðidals. Í ár verður ekkert gefið eftir og vonandi eigum við von á skemmtilegri keppni.

Liðin eru fjögur:
Lið 1 Hvammstangi og Miðfjörður
Lið 2 Línakradalur og Vatnsnes
Lið 3 Víðidalur og Fitjárdalur 
Lið 4 Austur Húnavatnssýsla

Komin eru drög af dagsetningum fyrir liðakeppnina í vetur:
5. febrúar - fjórgangur (færist yfir á 4.febrúar ef þorrablótið verður 5.feb)
19. febrúar - smali
12. mars - fimmgangur
9. apríl - tölt



26.11.2009 08:27

Ísólfur með sýnikennslu í Andvara fimmtudaginn 3. des

 

Ísólfur Líndal, tamningamaður, reiðkennari við Hólaskóla og meðlimur í Lækjamótsfjölskyldunni verður með sýnikennslu á vegum FT og Andvara í reiðhöllinni á Kjóavöllum fimmtudaginn 3.desember nk.

Sýningin hefst kl 20
og er miðaverð 1500 kr, en skuldlausir félagar í Andvara og FT fá miðann á 1000 kr.

Ísólfur mun fjalla um nýjustu strauma og mikilvæg atriði í frumtamningu en einnig aðeins um framhaldið, frá gangsetningu og yfir í þjálfaðan hest. Þetta er samskonar sýnikennsla og fór fram á Hólum fyrir skemmstu þar sem Ísólfur þótti fara á kostum. Þetta er einstakt tækifæri fyrir hestamenn til að kynna sér nýjungar og hita upp fyrir vetrarþjálfunina.

Allir velkomnir, kaffiveitingar á staðnum.

Flettingar í dag: 114
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 759
Gestir í gær: 43
Samtals flettingar: 556671
Samtals gestir: 58108
Tölur uppfærðar: 5.2.2025 09:38:23
LÆKJAMÓT  |  531 HVAMMSTANGI - ÍSLAND  |  +354 4512570  | [email protected]