07.11.2009 11:42

Hestahelgin óvenjulega

Langaði að gamni að segja hér frá óvenjulegri hestahelgi sem ég átti í Danmörku fyrir skömmu.
Ég fékk að prófa STÓRA dressúrhesta. Það var mjög gaman. Ég fór á tvo. Þeir eru báðir hátt í 1.80 á herðar, engin smá flikki. Grófleiki hreyfinganna og skrefastærð var líka eftir því. Þeir voru ansi hastir. Sá seinni sem ég prófaði var kominn mikið lengra en hinn og var líka meiri hestur og karakter. Hann kunni fljúgandi stökkskiptingar og ýmsar flóknar æfingar. Það var að mörgu leiti svipað að ríða þessum hestum og að ríða þeim íslensku  að minnsta kosti voru fimiæfingatakkarnir svipaðir, maður bara notaði hælinn mikið meira. Gaman að ríða þeim á stökki. Gott jafnvægi og auðvelt að stjórna þeim. Ég reið eina langhlið á passage þar sem hesturinn safnar sér á brokki og slettir úr framfótunum. Rosa flott. Þetta var reyndar óvart hjá mér, en gaman að prófa.  Set hér 2 myndir, þær eru ekkert rosalega
góðar, það er svo erfitt að taka myndir inní höll á venjulega myndavél.







Svo á sunnudegi þá hélt hestahelgin áfram. Ég fór að horfa á víðavangshlaup á hestum. Það var rosa gaman. Þetta var úti í stórum skógi og maður gat fylgst með þegar hópurinn stökk yfir hindranir og stökk út í vatn. Mjög gaman að sjá. Þetta voru yfir 100 þátttakendur og 20-30 þúsund manns að horfa á. Þetta er afar vinsælt í Danmörku.  Skemmtileg upplifun.






Hvort tveggja var óvenjulegt og nýtt fyrir mér og því afar skemmtilegt. Það eru til svo margar skemmtilegar hliðar á yndislegri hestamennskunni.
Bestu kveðjur,
Sonja.

28.10.2009 20:05

Ísólfur með sýnikennslu í frumtamningum

Nú í kvöld stóð FT-norður fyrir sýnikennslu sem Ísólfur sá um. Sýnikennslan var haldin í Þráarhöll á Hólum og voru sæti þétt skipuð áhorfendum, enda margt áhugavert að sjá og heyra. Ísólfur kom við á ýmsum stigum frumtamningar og sagði frá þróun í tamningaraðferðum og þróun búnaðar sem notaður er við tamningar.
Hér má sjá nokkrar myndir frá sýnikennslunni.

Áhorfendur fylgdust svo spenntir með að það mátti heyra saumnál detta


Ísólfur og Sögn frá Lækjamóti f. Veigar frá Lækjamóti m. Setning frá Lækjamóti


Laus í hringgerði


Með snúrumúl, vað og aukataum


Ísólfur komin á bak með tamningamúlinn


Sögn var ekki vel við boltann en með því að sækja og hörfa varð hann ekki
svo hræðilegur með tímanum


Vaðurinn orðinn slakur svo þetta er allt í rétta átt.

23.10.2009 15:12

Sýnikennsla!




FT-Norður stendur fyrir sýnikennslu í samvinnu við Háskólann á Hólum miðvikudaginn 28. október kl. 20. Kennslan fer fram á Hólum.


Fjallað verður um nýjustu strauma og mikilvæg atriði í frumtamningu hrossa.
Kennari verður Ísólfur Líndal Þórisson, reiðkennari við Hólaskóla.
Aðgangseyrir er 1000 kr en skuldlausir félagar í FT fá frítt.

Allir velkomnir!

20.10.2009 09:38

Tekið inn!

Vetrarstarfið farið af stað!

Um síðustu helgi var mikið fjör á Lækjamóti þar sem teknar voru inn prinsessurnar á 4. og 5. vetur auk graðhesta. Einnig var tekið inn á útibúi Lækjamóts þ.e hjá Ísólfi og Vigdísi á Hólum og er því allt komið á fullt. Það rigndi mikið þennan laugardag en með aðstoð regnhlífar tókst að taka nokkrar myndir. Stóðinu var smalað heim og var gaman að sjá hryssurnar og ungviðið sem hefur þroskast mikið í sumar.


flokkað í réttinni


Svo varð auðvitað að járna þegar búið var að taka inn

Hægt er að sjá fleiri myndir í myndalbúminu "tekið inn"

17.10.2009 14:56

Tamningar

Eins og áður hefur verið greint frá hér á síðunni þá sjá feðgarnir Þórir og Ísólfur um kennslu frumtamninga við Hólaskóla. Námið hefur gengið vel bæði hjá nemendum og tryppum og eru þeir feðgar sáttir með framvinduna. Nýlega var farið í fyrsta reiðtúrinn og í síðustu viku spreyttu nemendur  sig á fyrsta hluta tamningaprófsins en þá var prófað í atriðunum fætur teknir upp og laus í hringgerði, þar sem leiðtogahlutverk er sérstaklega kannað. Annar hluti prófsins eru svo teymingar við hlið, teymingar á eftir og á hesti og senda tryppið í kringum sig. Seinasti hluti prófsins, sem verður um miðjan nóvember, er svo reiðpróf þar sem prófaðir eru helstu þættir góðrar frumtamningar; beislissvörun, hliðarsvörun, samspil ábendinga, andlegt og líkamlegt jafnvægi tryppisns og fleira. Í öllum prófunum er tekið tillit vinnubragða nemanda. Frumtamningaáfanginn er afar skemmtilegur bæði að mati nemenda og kennara og er góður andi í kennslustundunum hjá þeim feðgum.

 



Eftir haustfrí eru hrossin hjá fjölskyldufólkinu á Lækjamóti farin að tínast á hús. Stóðhestarnir Kraftur frá Efri-Þverá og Sindri frá Leysingjastöðum fóru á járn um síðustu helgi og í dag var hesthúsið á Lækjamóti fyllt af spennandi ungviði sem eru að hefja sína skólagöngu. Fleiri graðhestar; Vígtýr frá Lækjamóti, Kvaran frá Lækjamóti og Blysfari frá Fremri-Hálsi eru einnig komnir á hús svo það er af nægu að taka.

Kvaran frá Lækjamóti og Sindri frá Leysingjastöðum


Já það er spennandi vetur framundan með fjölda af efnilegum og góðum hrossum.

Bestu kveðjur frá Lækjamóti

07.10.2009 16:49

Stóðréttarhelgin liðin

Það er ávallt mikil tilhlökkun og gleði hjá heimilisfólkinu á Lækjamóti fyrstu helgina í október, ár hvert. Stóðréttir í Víðidal hafa tilfinningalegt gildi fyrir okkur. Það er alltaf gaman að sjá hvernig ungviðið hefur stækkað og þroskast í 3 mánaða dvöl sinni á heiðinni. Fjöldi vina og ættingja sækja okkur heim og er því fjölmennt á Lækjamóti og mikil gleði þessa helgi. Engin undantekning var þar á þetta árið.


Nú var þó stóðréttarhelgin nokkuð óvenjuleg þar sem varla var hægt að smala á föstudeginum, eins og venja er, vegna veðurs. Maður sá vart handa sinna skil. Því varð smalamennskan frekar snubbótt og menn voru heldur betur veðurbarðir þegar heim var komið seinnipartinn á föstudegi.

 

Brr...kalt hjá þeim Sonju, Stefáni og Vigdísi við smalastörf.


Á laugardagsmorgni var svo farið aftur og náð í stóran hóp til viðbótar. Það vantar þó eitthvað enn. Þar á meðal vantar okkur einn fola og eitt folald, sem okkur þykir heldur verra. Vonandi koma þau í leitirnar. Réttarstörf fóru að öðru leiti vel fram og veðrið var afar fallegt á réttardaginn. Við seldum aðeins af hrossum í réttinni sem er bara jákvætt.

Stóðið rekið til réttar t.v og bjartasta vonin, Eyvör 3.v u. Kletti frá Hvammi t.h

Ísak Þórir t.v með folaldið sitt Orrustuþotu u. Sindra frá Leysingjastöðum og Þotu sem Guðmar situr hér t.h


Guðmar er alltaf sami hestakallinn og fékk þessi elska að hjálpa til við að reka stóðið heim. Það hefur líklega ekki gerst áður að svo lítill einstaklingur fái að reka heim, enda er riðið hratt. Hrossin vita hvert á að fara og vita að það er ekki svo langt heim í grasmikið landið. En hann er svo duglegur þessi ungi hestamaður. Hann hló og naut sín alla leiðina og fannst þetta toppurinn á tilverunni. Bæði að fá að vera á hestbaki OG horfa á fullt af hestum hlaupa.


Mikið fjör að reka heim stóðið.


Ísak Þórir var að fá sér nýjan fák. Fákur sá er ekki á fjórum fótum heldur tveimur hjólum og vekur mikla kátínu.


Aðal töffarinn í sveitinni


Já frábær helgi að baki og ekki laust við að tilhlökkun til sömu helgar að ári sé þegar farin að gera vart við sig. Hér að lokum koma nokkrar myndir frá Lækjamóti.

Stóð í kafgrasi heima á Lækjamóti t.v. Kjarval u. Tinna frá Kjarri og Hjaltalín u. Hóf frá Varmalæk t.h

Dagrós í haganum t.v og Rauðhetta gerir grín t.h emoticon

Hesthúsið á Lækjamóti og snæviþakið Víðidalsfjallið t.v. Tignarlegur bærinn t.h

20.09.2009 15:10

Fréttir af ræktuninni

Eftir ýmsar hrakfarir í hrossaræktinni þetta sumarið þá hefur nú verið staðfest fyl í þeim hryssum sem var haldið og við horfum bjartsýn fram á veginn. Ekki fengu þær þó allar við þeim hestum sem upphaflega var áætlunin en við erum sátt og bíðum spennt.
Best að útlista hér það helsta:

Dagrós  Kappi
Sonja að sæða.
Dagrós frá Stangarholti er fylfull við Kappa frá Kommu. Fylið varð til við sæðingar framkvæmdar af heimasætunni svo það er sérstaklega spennandi að sjá hvernig það kemur út. Kappi er klárhestur sem sýndi frábæra eiginleika þegar hann hlaut 8.42 í aðaleinkun aðeins 4. vetra gamall.



Hrönn, Elding og Rödd

Kraftur frá Efri-Þverá
Hrönn frá Leysingjastöðum, Elding frá Stokkhólma og Rödd frá Lækjamóti fóru allar undir Kraft frá Efri-Þverá. Kraftur er rúmur og flottur alhliðahestur sem varð efstur 4. vetra stóðhesta á LM2006. Ísólfur hefur þjálfað hestinn undanfarið ár og vitum við því hvað býr í þessum mikla gæðingi.


Seiður Rauðhetta
Rauðhetta frá Lækjamóti fór undir Seið frá Flugumýri. Seiður var efstur 4.vetra stóðhesta á LM2008. Stór og myndarlegur, jafvígur og góður alhliðahestur. Við vorum svo óheppin að missa folald undan honum í vor og því verður þetta vonandi til að bæta upp fyrir það.



Ómur á LM2008
Valdís frá Blesastöðum og Breyting frá Lækjamóti eru fylfullar við Ómi frá Kvistum. Ómur er afar athylisverður hestur sem býr yfir frábæru skeiði með einkar góðu afturfótaskrefi. Hann er fríður hestur á velli og ekki spillir það fyrir að það standa að honum heiðursverðlaunahross. Ómur stóð efstur í flokki 5. vetra stóðhesta á LM2008.


Rán Sindri
Rán frá Lækjamóti er fylfull við Sindra frá Leysingjastöðum. Sindri hefur verið að sýna hvað í honum býr á keppnisvellinum í sumar á sínu fyrsta keppnistímabili. En hann er viljugur og hágengur klárhestur undan Stíganda frá Leysingjastöðum.


Kosning GildraBlysfari
Kosning frá Ytri-Reykjum, Gildra frá Lækjamóti og Jarlhetta frá Neðra-Ási fóru undir Blysfara frá Fremra-Hálsi, þær hafa reyndar ekki verið ómskoðaðar. Blysfari er 4.vetra, undan Arði frá Brautarholti. Blysfari fór í kynbótadóm í vor og hlaut 7,95 í aðaleinkunn. Hann er einkar  framgripsmikill og skrefmikill hestur með frábært geðslag, ásækinn og leggur sig fram við að gera knapanum til geðs. Blysfari er í eigu Jóns Benjamínssonar en Friðrik hefur séð um tamningu og þjálfun á hestinum fyrir hann og Ísólfur sýndi.


Toppa Vilmundur
Toppa frá Lækjamóti fékk við ungum fola sem er albróðir Vilmundar frá Feti og heitir Werner frá Feti. Vonandi höfum við dottið í lukkupottinn þar, en það kemur víst ekki í ljós alveg strax því hann er bara 2. vetra.

Vonandi höfðuð þið gaman af að fá smá innsýn í hrossaræktina hjá okkur. Ef ykkur langar að fræðast meira um hryssurnar er hægt að skoða þær hér.
Bestu kveðjur frá Lækjamóti.

14.09.2009 01:06

Haustfréttir

Kæru lesendur.

Þá er nú heldur betur kominn tími á fréttir.

  www.holar.is
Haustið er tekið við með öllu sem því fylgir. Skólarnir eru byrjaðir, Sonja hefur nú hafið sitt annað ár í dýralæknanáminu og feðgarnir, þeir Ísólfur og Þórir byrjaðir að kenna við Hólaskóla. Í haust kenna þeir frumtamningar á öðru ári við skólann. Það er krefjandi en skemmtilegt að frumtemja. Forvitið ungviðið er eins og óskrifað blað og það er í höndum tamningamannsins að skrifa á það. Tamningaaðferðirnar sem við vinnum eftir byggja á forsendum hestsins, þ.e kenna hrossinu það sem tamningamaðurinn vill, sem mest út frá náttúrulegu eðli hestsins. Hesturinn er flóttadýr, en honum þykir líka rosalega gott að fá umbun. Fyrst þarf hesturinn að vera óhræddur, hræddur hestur lærir hægt eða ekki. Hestar elska umbun og sækjast í að gera aftur það sem þeir gerðu seinast áður en þeir fengu umbun. Það er síðan hlutverk tamningamannsins að gera óæskilega hegðun hestsins erfiða fyrir hann og fá hestinn til að velja að gera það sem tamningamaðurinn vill og svo er honum umbunað fyrir. Tamningamaðurinn þarf að líta í eigin barm ef eitthvað gengur ekki sem skyldi því hann gæti verið ómeðvitað að veita hestinum umbun fyrir óæskilega hegðun. Hesturinn gerir ekki greinarmun á því hvort hegðunin sé óæskileg eða ekki að mati mannsins, hann bara gerir það sem hann fær umbun fyrir. Endilega hafðu samband ef þú vilt vita meira. Við bjóðum upp á tamningar og reiðkennslu á öllum stigum.


Friðrik hefur nú hafið nám við Sænska landbúnaðarháskólann Uppsala þar sem hann leggur stund á framhaldsnám í þjálfunarlífeðlisfræði hesta. Í dag eru rannsóknir á íslenska hestinum á þessu sviði af skornum skammti en mörg spennandi verkefni bíða. Námið er fjölbreytt og skemmtilegt og hefur hann nú þegar farið í nokkrar athyglisverðar heimsóknir á stóra búgarða hjá fólki sem er að ná góðum árangri í fimikeppni og brokkkappreiðum. Einnig hefur hann fengið tækifæri til að fylgjast með veðreiðum og farið á stærstu sæðistökustöð í Svíþjóð til að fylgjast með sæðistökum og sæðingum. Það er gaman að sjá hvernig aðrir gera hlutina og kynna sér hvað sé að skila öðrum árangri. Maður getur alltaf lært meira, nýja hluti sem geta stuðlað að betri árangri og bættri meðferð og velferð íslenska hestsins.


Göngur og réttir eru skemmtilegur hluti af haustinu. Síðastliðna helgi voru fjárréttir í Víðidalstungurétt og var fjöldi manns á Lækjamóti. Yngstu fjölskyldumeðlimirnir létu sig ekki vanta þegar gangnamennirnir mættu til byggða með féð og riðu seinustu klukkutímana á eftir fénu. Ísak Þórir og Jónína Ósk frænka hafa farið áður en Guðmar var að fara í fyrsta skipti á hesti í þetta ævintýri, með mömmu sinni þó. Það er mikil upplifun fyrir 3 ára hestasjúkling að fá að vera á hestbaki í marga, marga klukkutíma, með svona rosalega mörgum kindum. Svo eru stóðréttirnar laugardaginn 3.október þetta árið. Ætlar þú að mæta? Láttu þig ekki vanta í ævintýrið, taktu helgina frá!


Það eru tvær meyjur í fjölskyldunni. Þórir varð 55 ára þann 29.ágúst og brá heldur betur í brún þegar það beið hans Ástund Winner Plús í sjónvarpsstólnum þegar hann vaknaði, algjör draumur, hún kann sko að koma á óvart hún Elín. Svo verður hann Guðmar 3 ára 21.september en tækifærið var nýtt nú um réttarhelgina og haldið upp á afmælið á Lækjamóti.

Látum þetta gott heita af fréttum í bili.
Bestu kveðjur frá Lækjamóti.

17.08.2009 13:55

Hrönn í 1.verðlaun


Hrönn frá Leysingjastöðum II er í eigu Ísólfs og Vigdísar. Hún er 5 vetra undan Stíganda frá Leysingjastöðum II og Þóru frá Leysingjastöðum. Hún byrjaði í tamningu eftir áramótin og tók svo þátt í tamningakeppninni " Það snýst um traust" í vor. Sérstaklega gott geðslag í þessari hryssu. Henni var síðan haldið í vor undir Kraft frá Efri-Þverá og er fylfull. Hún fór á dögunum í kynbótadóm og stóð sig mjög vel og fór í 1. verðlaun. Hlaut m.a. 8,5 fyrir skeið. Hún hefur verið að bæta sig mikið að undanförnu og tókst að skila því í brautinni. Flottur árangur eftir ekki meiri tamniningu og verður spennandi að fá folald undan henni næsta vor.






Team Koniak emoticon

Hin árlega kvennareið húnveskra kvenna fór fram s.l laugardag. Glimmerprýddur flokkur 105 kvenna lagði í hann frá Hnjúki í Vatnsdal og reið yfir holt og hæðir, mýrar og móa og endaði í Miðhópi í Víðidal. Mæðgurnar Elín og Sonja smelltu sér í reiðina og höfðu gaman af enda varla annað hægt. Það var brugðið sér í leiki á leiðinni og voru mæðgurnar í sigurliðinu, Team Koniak. Góður félagsskapur, frábær stemning, glimmer og glamúr, milt og fínt veður og túrinn endaði svo á dýrindis grilluðu lambalæri, gítarspili og söng.


Þónokkuð hefur verið um framkvæmdir á Lækjamóti í sumar. Hesthúsið var málað að utan og innan, nýr reiðvegur leit dagsins ljós, rekstrarleið girt af, gamla hesthúsið rifið, kjallarinn undir hesthúsinu mokaður og gólfið í reiðaðstöðunni tætt upp og betrumbætt. Þetta er allt af hinu góða og verður vonandi til þess að ennþá skemmtilegra verði að vinna við tamningar á Lækjamóti næsta vetur.


Bestu kveðjur frá Lækjamótiemoticon

10.08.2009 16:02

Hestaferð í Austurdal

Þá er hin árlega hestaferð fjölskyldunnar afstaðin. Þessi flotti, ca 20 manna hópur ákvað þetta árið að ríða fram í Austudal í Skagafirði. Hrossin voru keyrð að bænum Kelduland á Kjálka og þaðan var riðið yfir Merkigil og að bænum Merkigili þar sem við gistum allar 3 næturnar. Gilið sjálft var stórfenglegt og meiriháttar gaman að hafa farið það. Á öðrum degi var svo riðið fram dalinn, fram í Ábæ og þaðan í Hildarsel og síðan fram í Fögruhlíð þar sem villtur skógur vex í uþb 500 m.y.s. Það er eins og að ríða inn í aðra veröld þegar maður kemur þarna fram í Fögruhlíð, sannkallað ævintýri. Síðasta daginn í reið var svo farið með hestana niður að Breið í Lýtingstaðahrepp og keyrt aftur að Merkigili og gist þar. Góður matur, milt veður, söngur og glens. Já þetta var bara alveg ekta góð hestaferð. Læt hér inn nokkrar skemmtilegar myndir úr ferðinni en fleiri myndir er hægt að skoða HÉR.

    

Ísólfur fór fyrr heim úr hestaferðinni til þess að geta tekið þátt á Opnu íþróttamóti Þyts með þau Kylju og Ögra frá Hólum. Þar stóð hann sig með prýði og vann 4-ganginn, varð 2. í slaktaumatölti og 5-gangi og 5. í tölti og gæðingaskeiði. Hann varð einnig hæsti í samanlögðum fjórgangara. Kylja var í fyrsta skipti í keppni í slaktaumatölti og gæðingaskeiði og einnig í sínum fyrstu úrslitum í fimmgangi þannig að hann má vel við una enda óvenju sterkt mót og margir utanaðkomandi lögðu leið sína á Hvammstanga.

 
Ögri frá Hólum                                                     Kylja frá Hólum

22.07.2009 11:45

Litli hestamaðurinn!

Við á Lækjamóti vitum nú alveg hvað hestaáhugi er enda mikið af honum í fjölskyldunni. En hann Guðmar (2 ára) er svo heltekinn hestamaður að áhugi er vart rétta orðið fyrir þennan lítinn gutta. Hann hugsar um hesta allan sólahringinn. Fer í hesthúsið og á hestbak á hverjum degi og helst á 2 hesta og leikur sér þess á milli ekki að öðru en hestum eða reiðtygjum. Ef hann er með bíl með í leiknum, þá er það vegna þess að aftan í honum er kerra með hesti í. Þessi áhugi hefur verið áberandi frá því hann var aðeins nokkurra mánaða gamall, þegar hann sprikklaði og skríkti þegar hann sá hesta. Guðmar, þetta litla sjarmatröll, nær að heilla alla upp úr skónum og oft hefur maður hugsað hvað væri nú gaman að vera með myndavélina þegar hann eyðir tímunum saman í hesthúsinu. En loksins var munað eftir myndavélinni og þessar myndir teknar þar sem hann var að dunda sér og kúra hjá Setningu gömlu frá Lækjamóti í stíunni sinni.







Það verður gaman að fylgjast með þessum litla herramanni í framtíðinni.

Sólskinskveðjur frá Lækjamóti.

19.07.2009 17:18

Ísólfur og Sindri í B-úrslit á Íslandsmóti


Ísólfur og Sindri frá Leysingjastöðum

Þá er Íslandsmóti 2009 á Akureyri lokið en þar tóku Ísólfur og Friðrik báðir þátt í spennandi keppni.
Ísólfur keppti á Sindra frá Leysingjastöðum í fjórgangi og tölti,  Ögra frá Hólum í fjórgangi og Kylju frá Hólum í fimmgangi. Ísólfur og Sindri hlutu 7,0 í forkeppni í fjórgangi sem þýddi í þetta sinn 11 sæti og aðeins 0,03 frá B úrslitum. Ísólfur og Ögri hlutu einkunnina 6,50.
Fimmgangurinn gekk ekki nógu vel, Kylja varð eitthvað lítil í sér og vildi lítið sýna sitt besta í Eyjafirðinum að þessu sinni.
Í tölti gekk hinsvegar allt upp og fengu þeir Ísólfur og Sindri einkunnina 7,80 sem skaut þeim upp í 6.sæti og fóru þeir því í B- úrslit. Þar fengu þeir 8,0 en urðu í 7.sæti þeir voru báðir afskaplega sáttir enda mjög góður árangur og góð reynsla. Sindri er nú komin í sumarfrí á Lækjamóti og hittir þar hryssur.
Friðrik keppti á Degi frá Hjaltastaðahvammi í slaktaumatölti og urðu í 9. sæti.





Ísólfur og Ögri frá Hólum
 

07.07.2009 08:19

Fjórðungsmóti lokið

Jæja þá er Lækjamótsfjölskyldan komin heim af aldeilis frábæru Fjórðungsmóti á Kaldármelum. Veðrið var prýðilegt og hrossin góð.

Um árangur fjölskyldunnar á mótinu er þetta helst að segja:


Dagur frá Hjaltastaðahvammi


B-flokkur: Friðrik keppti á Degi frá Hjaltastaðahvammi. Áttu þeir félagar fína sýningu og fengu þeir 8.11 í einkunn. Ísólfur keppti á þremur hrossum í B-flokk. Þar af kom hann tveimur beinustu leið inní A-úrslit, þeim Sindra frá Leysingjastöðum II með 8.41 í einkunn og Ögra frá Hólum með 8.40. Björk frá Lækjamóti sýndi flotta takta og allt stefndi í góða einkunn þegar hún skipti sér á kýrstökk og þar með var vonin um sæti í úrslitum úti en hún fékk engu að síður 8.12 í einkunn. Ísólfur reið svo sjálfur á Sindra í úrslitunum en fékk Mette Mannseth til að ríða Ögra fyrir sig. Sindri er alveg nýr á keppnisbrautinni og átti svolítið erfitt með að skilja hvað væri í gangi. Hann átti þvílíka takta á hægu tölti en brokkaði ekki nema smávegis og kom síðan verulega á óvart á yfirferðinni. Hann stækkaði bara skrefin og gaf hinum ekkert eftir, mjúkur og hágengur. Hann bætti sig með hverju skiptinu sem hann kom inn á völlinn eftir því sem leið á mótið, alltaf að læra betur og betur á þetta. Sindri er verulega efnilegur á keppnisbrautinni og verður spennandi að fylgjast með þeim félögum, Ísólfi og Sindra, í framtíðinni.

Sindri frá Leysingjastöðum II


Björk frá Lækjamóti


Ögri frá Hólum

Tölt: Ísólfur var með tvo hesta í töltinu. Þá Ögra frá Hólum og Sindra frá Leysingjastöðum. Ögri sýndi ekki sínar bestu hliðar í forkeppninni en Sindri dansaði sig inn í B-úrslitin með 7.30 í einkunn. Hann endaði síðan 8. með 7.39 í einkunn. Þrælefnilegur töltari hér á ferðinni.


Úlfur frá Fjalli


Kylja frá Hólum


A-flokkur: James vinnumaður keppti í fyrsta skipti í A-flokki á nýja hestinum sínum honum Úlfi frá Fjalli. Þetta tókst vel upp hjá þeim miðað við aldur og fyrri störf og hlutu þeir 8.12 í einkunn. Ísólfur keppti á hryssunni Kilju frá Hólum og fór hann beint í A-úrslit með 8.34 í einkunn. Hann endaði síðan í 5. sæti eftir úrslitin með 8.43 í einkunn og getur vel við unað.

Spyrna frá Álftárósi

Ísólfur var einnig með í ræktunarbússýningu fyrir Álftárós með hryssu sem hann hefur tamið og þjálfað frá upphafi, Spyrnu frá Álftárósi. Fínasta sýning hjá þeim. En talandi um ræktunarbú, þá er ekki annað hægt en að minnast á ræktunarbúið frá Steinnesi sem skartaði hverju glæsihrossinu á fætur öðru. Kiljan frá Steinnesi vann hug og hjörtu Lækjamótsfjölskyldunnar bæði á kynbótabrautinni og ræktunarbússýningunni og efalaust flestra sem í brekkunni voru.


Ekki þótti okkur það nú verra að það beið okkar heima á Lækjamóti merfolald undan honum og 1.verðl. Hágangsdótturinni Rödd frá Lækjamóti. Helst langaði okkur að pakka því inn í bómull þegar heim var komið en það var víst ekki í boði því brunað var með merina suður undir hinn hæfileikaríka Tenór frá Túnsbergi.



Það var gleðiefni þegar Dagrós var ómskoðuð í gær, fylfull við Kappa frá Kommu. Vonandi að allt fari vel og folald fæðist næsta vor. Þetta er verulega spennandi fyrir Sonju þar sem hún sæddi hryssuna sjálf. Einnig er búið að ómskoða Eldingu og Hrönn en þær voru báðar hjá Krafti frá Efri-Þverá og báðar fylfullar.


Ætli þetta sé ekki komið nóg af fréttum í bili.

Kær kveðja frá Lækjamóti.

28.06.2009 08:53

Samantekt frá vorinu

Góðan daginn kæru lesendur og verið velkomin á heimasíðu Lækjamóts.


Þá er best að skrifa hér svolitla samantekt frá vorinu til að koma ykkur inní líf Lækjamótsfjölskyldunnar. Við munum svo reyna að skrifa hér inn reglulegar fréttir. Fullt af gleðitíðindum, hér kemur það helsta:


Friðrik lauk prófi í kynbótadómum og er því kominn með alþjóða kynbótadómararéttindi FEIF. Hann hefur verið að dæma bæði á Norður- og Suðurlandi og tvívegis í Danmörku í vor og kann vel við starfið enda alltaf verið sjúkur í kynbótahross.


James, verkneminn okkar, tók þátt í tamningakeppninni "Það snýst um traust" sem haldin var í tengslum við Tekið til kostanna á Sauðárkróki. Hann stóð sig aldeilis prýðilega og tala myndirnar sínu máli hvað varðar traust tryppisins til tamningamannsins og einnig hvað varðar hugmyndaflug. Myndirnar eru fengnar af heimasíðu Hólaskóla www.holar.is.



James útskrifaðist svo frá sínu öðru ári við Hólaskóla með glæsibrag.  Hann mun búa áfram hjá okkur á Lækjamóti og vinna við tamningar.


Vorið er yndislegur tími. Okkar örfáu rolluskjátur báru í maí og einnig fóru folöldin að líta dagsins ljós. Það leynir sér aldrei spenningurinn þegar tölt er upp í hólf til að kíkja á nýfætt folald og athuga kynið, lit, snoturleika og hreyfingar. Þetta vorið fæðast m.a folöld undan Óm frá Kvistum, Baug frá Víðinesi, Seið frá Flugumýri, Hóf frá Varmalæk, Tjörva frá Sunnuhvoli, Kiljan frá Steinnesi, Sindra frá Leysingjastöðum, Feldi frá Hæli og Blæ frá Hesti.


Veigar frá Lækjamóti er stóðhestur úr okkar ræktun sem gerði það gott á kynbótasýningu í USA á vordögum. Hann fór þar í 8.26 í aðaleinkunn 8.28 fyrir byggingu og 8.25 fyrir hæfileika, klárhestur. Veigar er undan Kormáki frá Flugumýri II og Von frá Stekkjarholti sem hefur verið að gefa góð hross en hún er einnig móðir Hlekks frá Lækjamóti sem er 4 vetra foli undan Álfi frá Selfossi sem einnig fór í dóm í vor. Hann fór í 7.82 í aðaleinkunn og 8.11 fyrir byggingu. Hlekkur er hreyfingafallegur klárhestur og á framtíðina fyrir sér, það verður spennandi að sjá hvernig hann þróast. Von á 2 önnur 1.verðl. afkvæmi.



Ísólfur hefur vart átt dauðan tíma í allt vor. Hann hefur þrætt kynbótasýningar og keppnir samhliða því að vera með kennslu bæði á Hólum og erlendis. Hann sýndi m.a 2 framtíðarræktunarhryssur Lækjamótsbúsins, þær Björk frá Lækjamóti og Eik frá Grund. Björk er hágeng og rúm klárhryssa með 8,5 fyrir tölt og fegurð í reið, henni verður væntanlega haldið í fyrsta skipti í sumar en það á ennþá eftir að velja stóðhest á hana, hún mun þó fyrst fara á Fjórðungsmót í keppni í B-flokki. Á úrtöku/gæðingamóti Þyts var hún hæst dæmda hryssa mótsins sem var afar ánægjulegt. Eik er aðeins 4 vetra og verður því þjálfuð áfram og sýnd aftur næsta vor, þetta var svona prufukeyrsla. Eik er efnis alhliðahryssa. Ísólfur sýndi einnig Veru frá Hjaltastaðahvammi sem er Hróðursdóttir sem fer í ræktun hjá Friðriki og Sonju. Blysfari frá Fremra-Hálsi er 4 vetra stóðhestur sem Friðrik hefur tamið og þjálfað í vetur en Ísólfur síðan sýndi í 7.95 í aðaleinkunn nú í vor. Blysfari er hreyfingafallegur, skrefstór og þrælefnilegur foli. Það verður verulega spennandi að sjá hvernig hann þróast. Blysfari verður í hólfi á Lækjamóti í sumar ásamt fleiri stóðhestum (hægt að lesa nánar um það undir tenglinum Stóðhestar til notkunar) Ekki verða talin upp frekar þau hross eða sýningar sem Ísólfur hefur tekið þátt í í vor en skemmst er frá því að segja að hann fer með 5 hross á Fjórðungsmótið á Kaldármelum, Friðrik fer líka með einn hest í B-flokk og James vinnumaður með einn í A-flokk á FM2009.  Það verður spennandi að fylgjast með þeim þar.



Sonja hefur lokið sínu fyrsta ári í dýralæknanáminu og er komin heim í sumarfrí í nokkrar vikur. Hún fór nú á vordögum í smá verknám hjá Höskuldi dýralækni í Skagafirði. Hann eyðir vorinu að stórum hluta í að sæða hryssur. Það var verulega spennandi fyrir Sonju að komast í að fylgjast með þessum flinka dýralækni. Þar sem Dagrós, ein af okkar ræktunarhryssum, var í sæðingunum þá gat Sonja fengið að prófa sjálf að setja á sig dýralæknahanskana og fá nasaþef af því sem mun bíða að námi loknu. Æfingin skapar meistarann og ekki amalegt að fá svona tækifæri snemma á námsferlinum.



Fortamningatímabilinu á Lækjamóti er lokið þetta árið. Þórir og James sáu um það að gera 3. vetra tryppin bandvön og setja á þau gjörð. Þetta er spennandi árgangur og verður ekki leiðinlegt að byrja að temja hann í haust.


Annars gengur lífið sitt vanagang hjá fjölskyldunni að Lækjamóti. Mikið að gera hjá öllum sem er okkur að skapi.


Vonandi sjáum við sem flesta á Fjórðungsmóti á Kaldármelum 1.-5. júlí.


Kveðja frá Lækjamóti.

20.05.2009 11:46

Ný síða

Velkomin á nýja heimasíðu Hrossaræktarbúsins að Lækjamóti
Flettingar í dag: 114
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 759
Gestir í gær: 43
Samtals flettingar: 556671
Samtals gestir: 58108
Tölur uppfærðar: 5.2.2025 09:38:23
LÆKJAMÓT  |  531 HVAMMSTANGI - ÍSLAND  |  +354 4512570  | [email protected]