09.12.2012 21:20

Reiðkennsla og örfá pláss laus í þjálfun

Síðustu vikur hefur Ísólfur verið við kennslu á Hólum og undirrituð að mestu séð um þjálfunina á hrossunum. Það hefur ekki verið leiðinlegt að þjálfa gæðinga eins og Freyði frá Leysingjastöðum II, Kristófer frá Hjaltastaðahvammi, Sögn frá Lækjamóti, Gátu frá Lækjamóti, Alúð frá Lækjamóti og fleiri snillinga já það er sko gaman í vinnunni :) 

Á næstu dögum lýkur prófum á Hólum og Ísólfur hættir þar störfum. Við höfum því nú möguleika á að bæta við okkur hrossum í þjálfun. Einnig er hægt að fá einkatíma í reiðkennslu hér á Lækjamóti í vetur. Þannig að ef þið hafið áhuga á þjálfun fyrir hestinn ykkar eða viljið fá reiðkennslu, ekki hika við að hafa samband á [email protected] eða í s. 899-1146 (Ísólfur) / 895-1146 (Vigdís)

Freyðir frá Leysingjastöðum II fer vel af stað, hann er þessa dagana að prófa vatnsbrettið hjá Geira á Varmalandi og erum við spennt að sjá hvaða áhrif það hefur á hann.


Sögn frá Lækjamóti byrjar í miklu stuði og nú þegar búin að koma fram á einni sýnikennslu



Kristófer frá Hjaltastaðahvammi er alltaf flottur







02.12.2012 10:23

Vel heppnaðar sýnikennslur

Í gær þann 1.des skrapp Lækjamótsfólkið á Hvammstanga en þar var nóg um að vera. Jólamarkaðir voru bæði í félagsheimilinu og reiðhöllinni, kveikt var á jólatrénu og svo voru tveir meðlimir hennar með sýnikennslu í reiðhöllinni.  Það var gaman að koma aftur í reiðhöllina eftir nokkra mánaða hlé og ekki laust við tilhlökkun fyrir komandi keppnis-og sýningatímabili þar í vetur. Félagsmenn hafa unnið hörðum höndum undanfarið í reiðhöllinni, búið er að taka upp gólfið, þrífa allt hátt og lágt og lakka áhorfendastúku. Það má því segja að reiðhöllin sé búin að fá jólahreingerninguna og er hún glæsileg!

Það voru rúmlega 50 manns sem mættu á sýnikennslurnar í gær og erum við mjög ánægð með það. Þeir Ísólfur, Tóti og James stóðu sig mjög vel að vanda og sýndu uppbyggilega þjálfun. 


Áhugasamir áhorfendur fylgjast vel með sýnikennslunni


Ísólfur og Sögn opnuðu sýnikennsluna 


James og Flugar tóku svo við og fjölluðu um skeið 


Eftir hlé var síðan Þórarinn Eymundsson


29.11.2012 21:40

Sýnikennslur og hnakkaprófun - allt að gerast í Þytsheimum á laugardaginn!

Laugardaginn 1.desember verða þrjár áhugaverðar sýnikennslur í Þytsheimum.  Dagskráin hefst kl. 17:00 og lýkur 19:30.
Gert er ráð fyrir einu matarhléi og verða veitingar til sölu á staðnum. 
 
Fram koma:
Guðmundur Arnarson þjálfari og reiðkennari 
Ísólfur Líndal Þórisson þjálfari og reiðkennari 
Þórarinn Eymundsson tamningameistari 

 

 

 

 

 
 
 
 
Aðgangseyrir kr. 2000.- sem rennur óskiptur til hestamannafélagsins Þyts. 
Frítt fyrir 14 ára og yngri.
 
 
Hvetjum alla hestamenn nær og fjær til að mæta enda um mjög áhugaverða fræðslu að ræða

Þennan sama dag býður hestavöruverslunin Ástund  upp á hnakkamátun og prófun í reiðhöllinni þann 1.desember nk.  frá klukkan 13-16. Guðmundur hjá Ástund gefur fólki tækifæri til að koma með eigin hest og prófa mismunandi hnakka og fá ráðleggingar um val á hnökkum.
 
Vinsamlegast pantið tíma á netfangið [email protected] eða í síma 895-1146 (Vigdís) ef þið hafið áhuga á að nýta ykkur þetta frábæra tækifæri.
 
 Hnakkarnir sem fólki gefst tækifæri til að prófa eru:
 
Ástund Winner
 
Ástund Royal

24.11.2012 16:24

Mánuður til jóla

Þegar þetta er ritað er nákvæmlega 1 mánuður þar til jólin verða hringd inn. Það er ýmislegt sem minnir á jólin í dag, snjór, frost og logn. Á heimilinu er byrjað að finna til jólaseríur og smáköku ilmur er í húsinu.  Í dag fór undirrituð með erfðaprinsana í bíltúr til að finna flottan stað fyrir jólamyndatökuna. Það er um marga staði að velja hér í nágrenninu og uppgötvuðum við mjög marga í þessum bíltúr okkar.
 
Hörgshóll varð m.a fyrir valinu sem ljósmyndastaður dagsins :)

Þessi mynd var tekin við Bjarghús


Víðidalsfjallið er að sjálfsögðu alltaf í miklu uppáhaldi

Við erum komin á fullt að þjálfa hestana en þeir voru teknir inn óvenju snemma í ár eða október. Til að byrja með er að sjálfsögðu farið rólega af stað og förum við einnig með þau í rekstra. Myndavélin var tekin með um daginn, en þá var -10¨c og betra að fara varlega.


Hrossin á heimleið úr rekstri


hrossin fóru út eftir rekstur og þó þau væri stutt úti urðu þau svona strax þar sem frostið var svo mikið


Sögn eins og hún sé með vírarflækju í faxinu


Að reka hrossin inn en við erum svo heppin að geta haft þau úti í grashólfi meðan við erum að hirða hesthúsið.

15.11.2012 11:41

Eyjólfur Ísólfsson heiðraður

Á uppskeruhátíð hestamanna 2012 veitti LH Eyjólfi Ísólfssyni heiðursverðlaun fyrir áralanga aðkomu að málefnum íslenska hestsins um allan heim. Lítið hefur verið fjallað um þessi heiðursverðlaun á hestamiðlunum en þau eru engu að síður afar merkileg.


Samúel Örn Erlingsson las á uppskeruhátíðinni upp nokkur af afrekum Eyjólfs og fengum við góðfúslegt leyfi til að birta orð hans hér á heimasíðunni.


Eyjólfur Ísólfsson kynntist íslenska hestinum barn og hefur starfað við tamningar, þjálfun og reiðkennslu í rúmlega 40 ár, hér heima og erlendis. Áhrif hans á hestamennsku nútímans eru mikil.

Hann er einn af stofnendum Félags tamningamanna og mótaði mjög starf þess.

Þegar nýtt framfaraskeið hófst á Íslandi upp úr 1970 kom hann mikið að þróun reiðmennskunnar . Markmið og þjálfunaraðferðir Eyjólfs kristölluðust í tímamótasýningu og eftirminnilegum sigri hans á Hlyni frá Bringu í B flokki gæðinga á Landsmóti á Þingvöllum 1978.

Margt mætti síðan telja, en nægir að nefna sigur hans í tölti á Rás frá Ragnheiðarstöðum á Landsmóti á Vindheimamelum 2002, það sama ár var Eyjólfur valinn knapi ársins.

Eyjólfur hefur starfað við Háskólann á Hólum í um 20 ár, lengst af sem yfirreiðkennari. Hann hefur gengt lykilhlutverki við faglega uppbyggingu námsins.   Breytingarnar sem hafa orðið á menntun atvinnufólks í greininni á þessum 20 árum eru meiri en nokkurn gat órað fyrir. Hundruð tamningamanna og á annað hundrað reiðkennara hafa útskrifast frá Hólakóla frá því að stofnuð var sérstök hestafræðideild við skólann 1996.  

Eyjólfur hefur helgað sig þessu starfi og byggt á því besta úr íslenskri reiðmennskuhefð en viðað að sér hugmyndum og aðferðum hvaðanæva úr heiminum, prófað þær og aðlagað með hestvænar, fágaðar og árangursríkar leiðir að markmiði.

Hugmyndir Eyjólfs um hestamennsku má draga saman með orðum hans sjálfs:

Öll vinna með hestinum þarf að byggja á trausti hans til mannsins.  Reiðmennskan þarf að sýnast auðveld til að vera falleg og eftirsóknarverð. 


Fjölskyldan á Lækjamóti óskar Eyjólfi innilega til hamingju með þennan mikla heiður og vonar að hann haldi ótrauður áfram að bera út hróður íslenska hestins um allan heim.


04.11.2012 13:11

Snjórinn er líka skemmtilegur

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að síðustu daga hefur verið óveður á Íslandi. Við á Lækjamóti höfum haft það gott þessa daga, étið, spilað, horft á sjónvarp og hvílt okkur enda þurftum við sem betur fer lítið að vera á ferðinni. 
Afleggjarinn til okkar á Lækjamóti II varð þó fljótt ófær og þurfti því að labba til að komast upp í hesthús. Þá var lítið annað að gera en að klæða sig vel.


James og Johanna létu veðrið ekki stoppa sig frá því að koma í heimsókn. Þau urðu að labba frá gamla bænum þar sem afleggjarinn var orðinn ófær. En hvað gerir maður ekki til að hittast og spila í óveðri :)


Í dag er komin blíða og eini snjórinn á jörðinni er á afleggjaranum okkar og í kringum hesthúsið, hinn virðist allur hafa fokið til Hvammstanga ;)



Og þar sem allir voru að springa úr orku eftir inniveruna var  notið þess að renna sér á sleða í dag


Guðmar leggur í hann


Ísak að ýta pabba sínum almennilega

29.10.2012 21:43

Knapar ársins hjá Þyt og hæst dæmda hryssan

Að venju heppnaðist uppskeruhátíð Hrossaræktarsamtaka Vestur-Húnavatnssýslu og hestamannafélagsins Þyts frábærlega en hún fór fram sl. laugardagskvöld. Glæsilegur matur var á boðstólnum, skemmtiatriði á vegum félagsmanna slógu algjörlega í gegn og svo gott kúrekaball á eftir.

Ýmis verðlaun voru veitt þetta kvöld og tók Lækjamótsfólkið á móti nokkrum af þeim emoticon
Knapar ársins í 1. og 2. flokki hjá Hestamannafélaginu Þyt voru hjónin á Lækjamóti II 
Ísólfur Líndal Þórisson og Vigdís Gunnarsdóttir


Hrossaræktarsamtökin veittu einnig verðlaun og hlaut Elín R. Líndal verðlaun fyrir hryssu sína Gátu frá Lækjamóti en hún varð í 3. sæti í flokki 5 vetra hryssna með aðaleinkunn 8,13. 
Þórir Ísólfsson tók svo við verðlaunum fyrir Návist frá Lækjamóti en hún varð í 1.sæti í flokki 6 vetra hryssna með 8,21 í aðaleinkunn og var auk þess hæst dæmda hryssan í Húnaþingi vestra. Frábær árangur þar.

Elín og Þórir með verðlaunin fyrir sínar hryssur

Og þó að lífið á Lækjamóti snúist að mestu leyti um hesta alla daga þá kemst fótbolti aðeins að hjá heimilisfólkinu en Ísak Þórir æfir fótbolta af miklum krafti.  Hjá honum var sl. sunnudag úrvalsæfing á vegum KSÍ, haldin á Akureyri. Fórum við fjölskyldan á II að fylgjast með þeirri æfingu og vorum að sjálfsögðu afar stoltir foreldrar á hliðarlínunni


Vinirnir Viktor Ingi og Ísak Þórir þreyttir en glaðir eftir góða úrvalsæfingu






25.10.2012 09:27

Veigar frá Lækjamóti stendur sig vel í Bandaríkjunum


Veigar frá Lækjamóti og Guðmar Þór

Veigar frá Lækjamóti hefur búið í Bandaríkjunum í nokkur ár en eigandi hans er Guðmar Þór Pétursson. Veigar sem er fyrstu verðlauna klárhestur (a.e 8,26) er stöðugt að bæta sig og á móti í Kentucky um síðustu helgi hlaut hann 7,47 í forkeppni í 4gangi og 7,70 í úrslitum.  Í tölti fór hann svo í 7,37 í forkeppni og 7,80 í úrslitum, en þetta var í fyrsta sinn sem hann keppir í tölti.  
Frábær árangur hjá þeim félögum og spennandi að fylgjast með framhaldinu hjá þeim. 





Til gamans má segja frá því að undirrituð á hryssu undan Veigari, Sögn frá Lækjamóti. Það er nú margt líkt með þeim þó að hún sé ekki komin í svona svakalega flottar tölur ennþá amk. emoticon

Sögn frá Lækjamóti er undan Veigari frá Lækjamóti 

24.10.2012 11:00

Allir að taka laugardagskvöldið frá :)

Uppskeruhátíð  Hrossaræktarsamtaka V-Hún

og Hestamannafélagsins Þyts 2012

Hátíð í heimabyggð

Verður haldin laugardagskvöldið 27. október

 í Félagsheimilinu á Hvammstanga.

Matur, gleði og gaman.

Þessi frábæra skemmtun hefst stundvíslega kl 20:00

 en húsið opnar kl 19:30 og það verður sko stemming.

 

Þórhallur Magnús Sverrisson sér um matinn og á boðstólnum verður:

Forréttur

Sjávarréttarsúpa með bláskel og humar.

Graskerssúpa.

Aðalréttur

Grillhlaðborð að hætti kokksins.

 

 

Veislustjórn verður í höndum Ingvars Helga Guðmundssonar.

 

 

Forsala miða og pantanir fara fram í Söluskálanum á Hvammstanga, sími 4512465 og þarf að vera lokið að kvöldi miðvikudagsins 24.október.  Greiða þarf fyrir miðana með reiðufé.

Miðaverð á uppskeruhátíðina er kr 6500 matur, skemmtun og ball, en ef þú vilt hins vegar bara skella þér á dansleik í syngjandi sveiflu með Klaufum, sem hefst kl 00:00, þá kostar það litlar 3000 kr.

Enginn posi á staðnum!

 

Eftirfarandi bú eru tilnefnd ræktunarbú ársins 2012 af Hrossaræktarsamtökum V-Hún.

 Efri Fitjar - Grafarkot - Lækjamót

           

Athugið að það eru allir velkomnir á þessa frábæru skemmtun .

Þetta er einstakt tækifæri til að hlæja, gráta og hafa gaman.

Athugið

Til sölu:  Betan hennar Sonju Eðvalds.

Svo framarlega sem þú átt lausan dag, gaufastu til að láta sjá þig

Sjáumst nefndin.

14.10.2012 14:23

James kominn heim og á batavegi



"Í dag þann 6.10 varð ungur maður undir hrossastóði í Víðidalstungurétt í.
Maðurinn tróðst undir hrossunum þegar verið var að reka þau í
dilk og var hann fluttur með sjúkrabíl til Akureyrar. Ekki er vitað
hvað hann er mikið slasaður."

Þessi frétt birtist hjá nokkrum fjölmiðlum landsins þann 6.október sl. Það eru kannski ekki allir sem vita að maðurinn sem fréttin fjallaði um var hann James okkar.

James var fluttur eins og segir á Akureyri til rannsóknar. Í fyrstu var talið að hann hefði sloppið, engin beinbrot eða innvortisblæðingar. Var öllum mjög létt enda leit þetta ekki vel út. Við enn frekari rannsóknir kom hinsvegar í ljós mikið innvortis mar og fór svo að James þurfti að dvelja á sjúkrahúsinu í tæpa 5 sólahringa. Niðurstöður fjölda rannsókna sýndu mar á brjóstkassa, lungum, kviðvegg, mjóbaki og mjaðmagrind ásamt mari á hálsliðum og axlarliðum.
Læknarnir voru ekkert hrifnir af því að sleppa James út strax enda þurfti hann að taka með sér mikið af verkjalyfjum. En hann var óþekkur sjúklingur og vildi fara að komast upp í hesthús þó ekki nema til að finna hestalykt svo honum var sleppt með loforðum um að hann verði stilltur og fari ekki of fljótt að reyna á sig. 

Það er ljóst að það mun taka einhvern tíma fyrir James að jafna sig en batahorfur eru góðar og lán í óláni að ekki fór verr. James vill koma á framfæri innilegu þakklæti til þeirra sem brugðust skjótt og rétt við þegar slysið varð. Einnig hefur hann fundið fyrir miklum hlýhug og kveðjum frá fjölmörgum og vill hann þakka fyrir það og segist að lokum vera glaður að vera komin heim!

07.10.2012 20:43

Stóðréttarhátíðin 2012



Það er fátt skemmtilegra en stóðsmölun, stóðréttir og frábær félagsskapur heila helgi! Nú þegar þessari helgi er að ljúka er ekki laust við að manni sé strax farið að hlakka til að endurtaka leikinn á ári emoticon

Leyfum myndunum að tala sínu máli en hátíðin byrjaði á fimmtudegi þegar farið var með smalahestana á Hrappstaði, föstudagurinn tók svo við þar sem smalað var heilan dag í frábæru veðri, sól og logni.  Á laugardeginum var svo sjálf stóðréttin og að sjálfsögðu endað á stóðréttarballi í Víðihlíð. 

 
Svona var veðrið í stóðsmölunni, glampandi sól og logn


Eiríksjökull skartaði sínu fegursta


Stóðsmölunin að hefjast



Stóðið rekið til réttar





Frændurnir Gunnar og Guðmar flottir með nýju Lækjamótshúfurnar


Réttarstörfin í fullum gangi


Heiðar Breki mættur í sínar fyrstu stóðréttir


Jakob var að sjálfsögðu mjög áhugasamur um réttarstörfin



Á leið heim með stóðið

30.09.2012 17:50

Fortamningar og önnur haustverk

Í dag settum við þrjá 2 vetra fola út en þeir hafa verið á húsi í eina viku. Við ákváðum þetta haustið að prófa að fortemja 2 vetra tryppin og var byrjað á stóðhestefnunum. Þegar stóðið verður komið af heiði og heim eftir stóðréttir verða fleiri 2 vetra tryppi tekin á hús og fortamin.  Það er gaman að kynnast tryppunum enn betur svo snemma og undirbúa þau fyrir tamningu. Þau eru öll ósnert þegar þau koma inn en byrja að læra "laus í hringgerði" og eru snert og strokin um allan líkamann.

Skapgerðaeinkenni virðast koma fljótt í ljós og minna folarnir þrír allir mikið á feður sína þrátt fyrir ungan aldur.  Vonandi verða hæfileikarnar ekki síðri en þessir folar eru undan stóðhestunum Blysfara frá Fremra-Hálsi (hæf. 8,77),  Freyði frá Leysingjastöðum II (hæf. 8,41) og Krafti frá Efri-Þverá (hæf. 8,48).



Hreinn frá Leysingjastöðum II (fæddur 2010) undan Freyði f. Leysingjastöðum og Fregn frá Leysingjastöðum.  Ljúfur og geðgóður eins og faðirinn, á auðvelt með að treysta manninum. Sýnir allan gang og mikla mýkt.

Hreinn var orðin mjög sáttur við manninn eftir þessa fáu daga og mátti snerta hann út um allt.


Hraunar frá Lækjamóti (fæddur 2010) undan Krafti frá Efri-Þverá og Eldingu frá Stokkhólma
Stoltur, öruggur með sig og ákveðið skap. Sýnir flottar hreyfingar og allan gang. Mjög líkamlega þroskaður. 

Hraunari var mjög rólegur yfir snertingu



Önundur frá Lækjamóti (fæddur 2010) undan Blysfara frá Fremra-Hálsi og Aþenu frá Lækjamóti
Örlyndur og næmur en blíður. Sýnir mikið rými og hlaupagleði.

Önundur var næmastur af þeim öllum en var orðin alveg rólegur yfir snertingu



Þessa dagana er auk þess verið að týna inn þau hross sem verða í þjálfun í vetur og eru snillingar eins og Freyðir frá Leysingjastöðum, Kristófer frá Hjaltastaðahvammi, Gáta frá Lækjamóti og Sögn frá Lækjamóti nú komin á skeifur eftir gott haustfrí. 

Ekki má svo gleyma undirbúningi fyrir stóðréttir en það þarf að huga að járningum og þjálfun og þeim hrossum sem farið verður á í stóðsmölunina nk. föstudag. 

Friðrik, James og Ísólfur að járna, dugir ekkert minna enda fjöldi góðra vina og ættingja á leiðinni í stóðsmölun og stóðréttir með okkur emoticon


og þau eru fleiri haustverkin, það þurfti líka að mála í hesthúsinu þetta haustið


20.09.2012 08:54

Styttist í stóðréttir

Eftir óveðrið sem geysaði á Íslandi 10. september fórum við fram að heiðagirðingu til að líta á stóðið sem þar dvelur. Töluverður snjór var og þurftum við að ganga síðasta spölinn. Stóðið leit vel út en þurfti að hafa meira fyrir því að finna gras en venjulega. Þennan dag sem við komum var fallegt haustveður, sól og hiti yfir frostmarki. Tvær vinkonur okkur, Rona og Harriet Frame komu með okkur og tóku þessar myndir sem hér fylgja.


Við heiðargirðinguna beið þessi hópur,aðeins ringlaður á hvaða dagur væri vegna óvæntrar snjókomu.


Mörg af þeim sem biðu voru í okkar eigu svo við gátum heilsað upp á þau. Þarna er Valdís frá Blesastöðum 1A og folaldið Ísabella undan Þórálfi frá Prestbæ.

     Ísólfur að heilsa Hrönn f. Leysingjastöðum II sem er í okkar eigu.


Harriet að kíkja á stóðið


þegar við vorum búin að knúsa þau og kjassa röltu þau í hægðum sínum af stað í halarófu


þegar þetta er ritað er rétt um tvær vikur þar til stóðið verður rekið til byggða. Er mikil tilhlökkun á bænum fyrir þessari helgi því fátt er skemmtilegra en að fá hrossin sín heim og hitta alla þá frábæru vini sem dvelja hjá okkur þessa helgi.

10.09.2012 14:54

September heilsar


Guðmar fylgist spenntur með kindunum koma niður af heiðinni og tilbúin að hjálpa til við að reka í réttina


Göngur og fjárréttir í Víðidalstungurétt kláruðust um síðustu helgi og var að sjálfsögðu tekið á móti gangnamönnum þegar þeir komu niður eftir fjögurra daga göngur á Víðidalstunguheiði. Göngurnar voru þetta árið blautar og frekar kaldar en verða án efa gleymdar á næsta ári og allir spenntir að leggja aftur af stað emoticon


Féð stoppað við Kolugil áður en haldið er til réttar


Tveir ungir smalar voru til í ævintýri og skelltu sér yfir Víðidalsá


Guðmar fékk að ríða Rökkva á eftir safninu 


Réttardagurinn er alltaf skemmtilegur 

      
Einar, Guðmar og Magnús hjálpast að við að draga 


og þó að í dag sé aðeins 10 september þá lítur gluggi sem vísar í norður svona út!






04.09.2012 21:38

Góður árangur á kynbótasýningu í Svíþjóð


Rauðhetta frá Skeppargarden sem hlaut 8,03 í aðaleinkunn þegar hún var sýnd í Svíþjóð um helgina. 

Síðasta kynbótasýningin í Svíþjóð var haldin á Sundbyholm um síðustu helgi. Á þessari kynbótasýningu sýndi Ísólfur þrár hryssur, Mærð frá Skeppargarden, Rauðhettu frá Skeppargarden og Ripa frá Kullen. Fyrir sýninguna hafði Ísólfur dvalið í rúmar tvær vikur á íslandshestabúgarði Lottu og Peters, í Skeppargarden, til að þjálfa og kenna.  Í stuttu máli gengu sýningarnar á þessum þremur hryssum mjög vel, þær fóru allar í 1.verðlaun og ein þeirra Mærð frá Skeppargarden varð 2.hæst dæmda 4.vetra hryssa sýningarinnar, hlaut 8,13 í aðaleinkunn. Sú sem stóð efst á sýningunni var Vigdís frá Sundsberg en hún er hæst dæmda 4.vetra hryssa ársins í heiminum.

Nú þegar kynbótasýningum er lokið í ár er áhugavert að taka saman niðurstöður á sýningunum. Niðurstaðan fyrir árið er mjög góð en Ísólfur sýndi í ár 15 sýningar í fullnaðardóm. Af þeim hlutu 8 sýningar 1.verðlaun í aðaleinkunn eða 53 % sýninga.  Af þessum 15 sýningum voru 7 í 1.verðlaun fyrir hæfileika. Okkur þykir að sjálfsögðu afar skemmtilegt að tvær af þessum hryssum sem hlutu 1. verðlaun í sumar séu frá Lækjamóti og gefur ástæðu til bjartsýni með framhaldið á ræktununni á Lækjamóti. 


Ein af þessum 1.verðlauna hryssum sem sýnd var í sumar er Návist frá Lækjamóti. Návist vann sér inn þátttökurétt á Landsmóti þar sem hún hækkaði sig í 8,21 í aðaleinkunn þar af 8,27 fyrir hæfileika. Návist er í eigu Þóris Ísólfssonar og fer í háskólanám á Hóla eftir áramót með Sonju.


Glæsihryssan Framtíð frá Leysingjastöðum hlaut 8,22 í aðaleinkunn. Framtíð er í eigu Hreins Magnússonar og var henni haldið undir Spuna frá Vesturkoti.


Stássa frá Naustum er mikill gæðingur og hlaut 8,09 í aðaleinkunn í sumar. Stássa er í eigu Illuga G. Pálssonar og var henni haldið undir Hrafn frá Efri-Rauðalæk.


Gáta frá Lækjamóti stimplaði sig rækilega inn í lok sumars þegar hún hlaut 8,13 í aðaleinkunn þar af 8,24 fyrir hæfileika aðeins 5 vetra gömul. Gáta er í eigu Elínar R. Líndal og verður í þjálfun í vetur á Lækjamóti.



Flettingar í dag: 114
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 759
Gestir í gær: 43
Samtals flettingar: 556671
Samtals gestir: 58108
Tölur uppfærðar: 5.2.2025 09:38:23
LÆKJAMÓT  |  531 HVAMMSTANGI - ÍSLAND  |  +354 4512570  | [email protected]