19.01.2012 15:22

Janúar

Janúarmánuður flýgur áfram á nýja árinu og styttist í að innimótin byrji. Stefnt er á nokkur slík mót og eru keppnishestarnir byrjaðir að komast í form. Við erum svo heppin að hafa möguleika á því að leyfa hestunum að hlaupa í rekstri og gerum við það reglulega til að koma þeim í enn betra form og auka fjölbreytileika í þjálfun. 


Hluta af leiðinni í rekstri rekum við framhjá hólfi sem ungfolar eru í, finnst þeim ekki leiðinlegt að sjá hryssurnar og hlaupa aðeins með emoticon


Á heimleið úr rekstri, farið að slakna á þeim

Alltaf er gaman að gefa sér tíma til að líta á ungviðið. Miklar vonir eru að sjálfsögðu bundnar við þessa litlu hesta. Folöldin eru komin á hús og er gaman að kynnast þeim en útigangurinn er líka heimsóttur og finnst ungviði alltaf forvitnilegast að sjá litlar manneskjur emoticon

þessi veturgömlu tryppi urðu mjög spennt fyrir Guðmari þegar við kíktum á þau.

Halla Ísey kom til Guðmars og leyfði honum aðeins að snerta sig. Guðmar á þessa hryssu og valdi nafnið á hana.  Það verður gaman að sjá hvort hann komi meira að tamningu á henni? emoticon

01.01.2012 21:02

Gleðilegt nýtt ár

Um leið og við óskum lesendum öllum nær og fjær gleðilegs nýs árs með þökk fyrir það liðna er gaman að minnast á að í dag voru sýndar í sjónvarpinu svipmyndir frá Landsmóti 50+ en Þórir tók þar meðal annarra þátt á hestaíþróttum. Þátturinn fjallaði á ítarlegan og skemmtilegan hátt um mótið en keppnisgreinarnar voru mjög fjölbreyttar. Þórir sigraði í fjórgangi og tölti á Kvaran frá Lækjamóti og varð 2. í fimmgangi á Návist frá Lækjamóti. Gaman verður að sjá hvort Þórir skelli sér í Mosfellsbæ þar sem næsta mót verður haldið næsta sumar til að verja titlana.
Hægt er að sjá þáttinn í heild sinni á þessum link  ríkissjónvarpsins. Umfjöllun um hestaíþróttina byrjar á 8.53 mínútu. 


Þórir og Kvaran í sveiflu sl. sumar

13.12.2011 21:10

Árið 2011 samantekt

Þegar áramót nálgast getur verið gott og gaman að horfa til baka rifja upp árið sem er að líða. Eins og svo oft áður var árið viðburðarríkt enda sjaldan rólegt hjá Lækjamótsfjölskyldunni. 
Hér fyrir neðan er stutt samantekt á því sem helst stendur upp úr þegar horft er til baka.

Árið byrjaði á skemmtilegri sýnikennslu sem félagarnir Ísólfur, Guðmar Þór og James héldu saman í reiðhöllinni á Hvammstanga. Fleiri sýnikennslur voru á árinu hjá Ísólfi t.d á vegum Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og á eftirminnilegri afmælissýningu FT. 

Ísólfur og Kristófer með sýnikennslu á afmælissýningu FT.

Í febrúar hófust innanhúsmótin og tókum við þar þátt í húnvetnsku liðakeppninni, skagfirsku mótaröðinni og KS-deildinni.  Vel gekk á flestum þessum mótum og fjölgaði bikurum jafnt og þétt á bikarahillunni. 


Vigdís varð samanlagður sigurvegari í 2.flokki í húnvetnsku liðakeppninni. Í öðru sæti varð Þóranna Másdóttir sem var hjá okkur frá janúar - ágúst 2011. Ekki má gleyma að nefna að lið 3 (okkar lið) sigraði samanlagt þessa skemmtilegu keppni. 

í mars var lokapróf í frumtamningum hjá Önnu-Lenu sem var hjá okkur í verknámi, stóðst hún prófið með miklum glæsibrag.


Anna-Lena ánægð með lokaprófið

Í lok apríl hófust kynbótasýningarnar en árið 2011 sýndi Ísólfur mörg hross með góðum árangri. Alls fóru 8 hross í fyrstu verðlaun, stóðhestarnir Blysfari, Freyðir, Hlynur, Hróður, Kraftur, Stúdent,Vökull og svo hryssan Návist frá Lækjamóti. 
Blysfari frá Fremra-Hálsi var hæst dæmda kynbótahrossið en hann er 4. hæst dæmdi 6 vetra stóðhestur í heiminum 2011 og varð í 7.sæti á Landsmótinu. Blysfari hlaut 8,77 fyrir hæfileika, þar af 9 fyrir tölt, brokk og fegurð í reið og risatöluna 9,5 fyrir vilja og geðslag. Í aðaleinkunn hlaut hann 8,49.

Í maí útskrifaðist James okkar sem reiðkennari frá Háskólanum á Hólum og var það mikil gleðistund.

Félagarnir James og Flugar saman á útskriftinni.


Þó að samantektin hér sé hestatengd þá er ekki hægt annað en að minnast á að þann 28.maí fæddist yndislegur drengur, sonur Sonju og Friðriks, sem seinna var skírður Jakob.

Og þrátt fyrir að vera nýbúin að eignast barn þjálfaði Sonja og keppti á Kvarani sínum á íþróttamóti Þyts með góðum árangri. Sonja, Friðrik og Jakob fóru svo aftur til Danmerkur í september þar sem Sonja er á 4.ári í dýralæknanámi.

Allt sumarið var tekið þátt í hinum ýmsu hestamótum, íþrótta-og gæðingamótum og tveimur landsmótum! Vel gekk á flestum þessum mótum, þónokkrir sigrar og hvorki meira né minna en Landsmótssigur á fyrsta Landsmóti 50+ sem haldið var á Hvammstanga. Þar sigraði Þórir með glæisbrag í tölti og fjórgangi á Kvaran frá Lækjamóti. Nokkrum dögum áður höfðu Þórir og Kvaran unnið sér þátttökurétt á Landsmóti hestamanna með sigri í A-flokki gæðinga hjá hestamannafélaginu Þyt. 


Þórir og Kvaran á Landsmóti 50+ á Hvammstanga

Of langt mál væri að telja upp öll þau hross og mót sem tekið var þátt í en hér má sjá örfáar svipmyndir.



Ekki er hægt að rifja upp árið án þess að minnast á frábæran árangur Elvars Einarssonar og Kóngs frá Lækjamóti en þeir félagar settu Íslandsmet í 250 m. skeiði og urðu í 2.sæti í 100 m.skeiði á Heimsmeistaramóti íslenska hestsins. 



Þegar ekki voru hestamót eða kynbótasýningar var nóg um að vera heima á Lækjamóti og auðvitað mikið snúist í kringum hross enda er það okkar áhugamál, atvinna og ástríða. Folöldin fæddust, stóðið rekið á heiði, þjálfað og tamið.


Frændurnir Guðmar og Jakob í fyrsta sinn (örugglega ekki í síðasta) saman á hestbaki.


Sumarið er yndislegur tími 


kvennareiðin 2011 var eins og alltaf mikil skemmtun. 

Þegar haustaði tóku svo smalamennskur, réttarstörf og reiðnámskeið.

feðgarnir Ísólfur, Ísak og Guðmar í almenningnum að draga féð.


Stóðréttarhelgin er mikil hátíð hjá okkur.



Í lok október var haldin uppskeruhátíð Hrossaræktarsamtakanna og hestamannafélagsins Þyts og hlaut Vigdís verðlaun sem stigahæsti knapi í 2.flokki. Er það góð hvatning fyrir framhaldið en á hús eru komin 27 hross, þar af 4 fyrstu verðlauna hross auk annarra ungra og efnilegra. Hlökkum við því til að halda áfram að bæta okkur og hrossin og vonum að 2012 verði okkur gæfuríkt. 


23.11.2011 21:06

þjálfun gengur vel

Tíminn flýgur áfram og aðventan á næsta leiti emoticon  Í dag var í fyrsta sinn eitthvað sem minnti á veturinn þegar byrjaði að snjóa. Það er gott að fá smá snjó, þá birtir og allt verður svo hreint og fínt. Einnig er besta útreiðafærið þjappaður snjór svo vonandi verður hæfilegur skammtur af honum í vetur. 
Vel gengur að þjálfa þau hross sem eru komin á hús á Lækjamóti og hrossin aðeins byrjuð að komast í form. 

Ein af þeim hryssum sem eru á húsi núna er Þokkadís frá Varmalandi en hún er 6 vetar hryssa í eigu Sigurgeirs og Birnu á Varmalandi. Þessi mynd var tekin í dag en Þokkadís fer vonandi eitthvað af bæ í vetur að kíkja á vellina.


Ekki má gleyma Setningu frá Lækjamóti en hún var tekin inn í vikunni eftir mikinn þrýsting frá yfirþjálfarinum honum Guðmari sem fannst sú gamla hafa verið nógu lengi í fríi. Skeifnaspretturinn var tekinn í dag og skemmtu þau sér bæði vel emoticon

Nokkur af þeim hrossum sem komin eru á hús eru: Kvaran frá Lækjamóti, Freyðir frá Leysingjastöðum II, Morgunroði frá Gauksmýri, Kristófer frá Hjaltastaðahvammi, Sögn frá Lækjamóti, Amor frá Enni, Brana frá Lækjamóti, Hrókur frá Kópavogi, Alúð frá Lækjamóti, Stássa frá Naustum og Jafet frá Lækjamóti. 
Þónokkur önnur ung og efnileg hross eru einnig á húsi sem verða mynduð síðar í vetur emoticon

Kvaran frá Lækjamóti


Freyðir frá Leysingjastöðum II


Morgunroði frá Gauksmýri


Kristófer frá Hjaltastaðahvammi


Sögn frá Lækjamóti


Amor frá Enni


Brana frá Lækjamóti


Hrókur frá Kópavogi 


Alúð frá Lækjamóti


Stássa frá Naustum


Jafet frá Lækjamóti og Birna Agnarsdóttir en hún ætlar að koma til okkar reglulega í vetur og þjálfa með okkur. 

17.11.2011 12:17

Ástund 35 ára!



Ástund, sérvöruverslun hestamannsins, fagnar 35 ára afmæli þann 19. nóvember. Ástund er til húsa í Austurveri við Háaleitisbraut 68 og hefur verið þar frá stofnun. Ástund er enn í eigu stofnenda þess og eru þeir stoltir af því að hafa rekið verslunina á sömu kennitölu í gegnum þykkt og þunnt. En lykillinn að velgengni fyrirtækisins er gott starfsfólk og stöðugleiki í starfsmannahaldi.  Ástund hefur verið leiðandi í hönnun á reiðtygjum og reiðfatnaði um árabil.  Ávallt hefur verið lögð mikil áhersla á faglega og persónulega þjónustu ásamt því að bjóða upp á fjölbreytt og vandað vöruúrval á viðráðanlegu verði.

 

Í tilefni þessara tímamóta verður margt um dýrðir. Nýr hnakkur úr smiðju Ástund lítur dagsins ljós:  Ástund "Epona"

 

Kynnig á nýjum jafnvægispíski frá hinum virta framleiðanda Fleck og nýja gerð öryggishjálms!

 

25 - 35% afsláttur af öllum vörum í verslun okkar, helgina 18. - 19. - 20. nóvember!

 

Allir viðskiptavinir sem leggja leið sína í Ástund að versla um afmælishelgina komast í happdrættispott og vinningarnir eru ekki af verri endanum.

 

1.     Vinningur 75.000.- kr gjafakort

2.     Vinningur 50.000.- kr gjafakort

3.     Vinningur 25.000.- kr gjafakort

 

Helgi Björns mun árita diska og skemmta viðskiptavinum á milli 17 -18 á föstudag og laugardag.

 

Opnunartími:

 

Föstudagur  10 -18

Laugardagur  10 - 18

Sunnudagur  12 - 17

14.11.2011 17:05

Staðfest Íslandsmet!

Á Íslandsmóti fullorðinna á Selfossi í sumar fóru þeir félagar Elvar Einarsson og Kóngur frá Lækjamóti 250 metrana í skeiðinu undir þágildandi Íslandsmeti.  Sótt var um tímann, 21,89 sek. sem nýtt Íslandsmet og hafa nú keppnisnefnd og stjórn LH samþykkt metið, sem sett var við löglegar aðstæður á Selfossi í sumar. (tekið af www.hestafrettir.is)

Glæsilegur árangur hjá þeim Elvari og Kóngi, innilega til hamingju emoticon


mynd GHP


09.11.2011 23:20

Vetrarstarfið að hefjast

Þessa dagana fjölgar stöðugt í hesthúsinu á Lækjamóti eftir kærkomið haustfrí hjá hestunum. Alltaf jafn gaman að fá uppáhöldin inn en þau eru sum hver ansi bústin og sælleg eftir fríið emoticon síðust daga hafa verið farnir skeifnasprettir og menn og hestar frekar ringlaðir á hvaða árstími sé enda hitastigið þessa dagana hærra en oft í sumar! 


Guðmar heilsar upp á hryssurnar Sögn og Brönu frá Lækjamóti


Logi að járna Stássu frá Naustum og Ísólfur að skipta sér af


Kvaran frá Lækjamóti og Kristófer frá Hjaltastaðahvammi komnir i stíurnar sínar

30.10.2011 19:32

Stórskemmtilegri uppskeruhátíð lokið

Í gærkvöldi fór fram hin margrómaða uppskeruhátíð Hrossaræktarsamtaka vestur-Húnavatnssýslu og Þyts. Boðið var upp á frábær skemmtiatriði þar sem ýmsir félagsmenn fengu að vita hvað þeir hefðu gert af sér sl. ár. Sjaldan hefur verið hlegið eins mikið á einni kvöldstund, enda atriðin frábær. Lækjamótsfólkið fékk að sjálfsögðu aðeins að kenna á því og er spurning hvort myndavélin verði geymd heima á næsta hestamóti þar sem Ísólfur keppir emoticon .
Á hátíðinni voru einnig veitt verðlaun og hlaut undirrituð verðlaunin stigahæsti knapi ársins í 2. flokki og er bara ansi ánægð með það emoticon

(mynd af heimasíðu Þyts) Verðlaunahafar, knapi ársins Tryggvi Björns, stigahæst í 2.flokki Vigdís og stigahæst í ungmennaflokki Jónína Lilja Pálmad.

Fjölmörg önnur verðlaun voru veitt þetta kvöld og tók Þórir Ísólfsson við verðlaunum sem ræktandi stóðhestsins Hlekks frá Lækjamóti en hann var í 2.sæti hæst dæmdu 6 vetra stóðhesta ársins hjá Hrossaræktarsamökunum.

Hlekkur frá Lækjamóti undan Álf frá Selfossi og Von frá Stekkjarholti

28.10.2011 21:13

Framkvæmdir áður en tekið er á hús

Það styttist í að hrossin verði tekin á hús og er ekki laust við að okkur hlakki til. Það skiptir hinsvegar miklu máli að öll aðstaða sé góð fyrir hrossin og því var ráðist í það verkefni í dag að taka upp gólfið í reiðhöllinni, en það var orðið verulega óslétt og hart.  Fengnir voru verktakar á staðinn með allskonar tæki og tól sem fóru létt með gólfið. Við fylgdumst aðallega með þessum gjörningi enda algjörlega vonlaus þegar kemur að einhverju öðru en að snúast í kringum hross emoticon

Svona var gólfið orðið áður en hafist var handa


Það var engin smágræja fengin í þetta og þurfti að skáskjóta henni inn um hurðina



og svo þurfti líka eina nettari græju


Nokkrum pökkum af spæni var síðan blandað saman við til að auka mýkt gólfsins


sjá má glitta í Guðmar í dyrunum en hann fylgdist vel með framkvæmdunum


og varð auðvitað að hjálpa til líka emoticon

20.10.2011 22:55

Uppskeruhátíðarfjör

Ef þig langar að hlægja mjög mikið, borða góðan mat og dansa þá er uppskeruhátíðin kvöldið fyrir þig eins og sjá má á heimasíðu Þyts emoticon
smellið hér til að rifja upp stemminguna
Uppskeruhátíð  Hrossaræktarsamtaka V-Hún

og Hestamannafélagsins Þyts 2011


Verður haldin laugardagskvöldið 29.október í Félagsheimilinu á Hvammstanga.

Matur, gleði og gaman.

Þessi frábæra skemmtun hefst stundvíslega kl 20:30

 en húsið opnar kl 20:00 og það verður sko stemming.

Potturinn á Blönduósi sér um matinn og á boðstólnum verður:

Forréttur

Grafinn lax - Reyktur lax  - Sjávarréttapâté - Sveitapâté 

Pastarami piparskinka

Meðlæti

Hunangssinnepssósa - Hvítlauksdressing - Ferskt salat - Fylltar ólífur

Brauð og smjör

Aðalréttur

Rosmarinkryddaður lambavöðvi - Hunagnsmarineruð kalkúnabringa - Grísa purusteikt 

Meðlæti

Rauðvínssósa - Ofnbakaðar kartöflur - Eplasalat - Kartöflusalat

Rauðlauks-tómatsalat - Rauðkál og baunir - Brauð og smjör ofl.

Veislustjórn verður í höndum söngdívu og fyrrum Selamálaráðherra.

Forsala miða og pantanir fara fram í Söluskálanum á Hvammstanga, sími 4512465 og þarf að vera lokið að kvöldi miðvikudagsins 26.október, athugið ekki posi.

Miðaverð á uppskeruhátíðina er kr 6000 matur, skemmtun og ball, en ef þú vilt hins vegar bara skella þér á dansleik í syngjandi sveiflu með Geirmundi, sem hefst kl 00:00, þá kostar það litlar 2500 kr.

Enginn posi á staðnum!

Eftirfarandi bú eru tilnefnd ræktunarbú ársins 2010 af Hrossaræktarsamtökum V-Hún.

Gauksmýri - Grafarkot - Lækjamót - Stóra Ásgeirsá - Þóreyjarnúpur

Athugið að það eru allir velkomnir á þessa frábæru skemmtun .

Þetta er einstakt tækifæri til að hlæja, gráta og hafa gaman.

Athugið

Unnsteinn AndrésarAndar eða Steini hennar Þórdísar....  hlökkum sérstaklega til að sjá þig J

Svo framarlega sem þú átt lausan dag, gaufastu til að láta sjá þig

Sjáumst nefndin.

07.10.2011 08:56

Unga bjargað

Það eru ýmis verkefnin sem menn taka að sér í sveitinni emoticon Fyrir stuttu síðan barst okkur símtal frá veiðiskálanum þar sem óskað var eftir aðstoð við að frelsa unga sem hafði álpast inn í skálann. Unginn flaug þar endanna á milli og barðist við að reyna að komast út um gluggana. Það var rokið af stað í það verkefni eins og önnur og náðust nokkrar ansi magnaðar myndir af þessum fallega fugli sem varð frelsinu feginn.


Unginn flaug ítrekað á rúðuna og varð vankaður við það


Eftir að hann datt vankaður í gólfið náðist að handsama hann


og það var eins gott að vera í þykkum hönskum því hann beit frá sér



Ísólfur, smyrillinn og Víðidalsfjallið flott saman emoticon

Frelsinu feginn!

04.10.2011 15:21

Blysfari frá Fremra-Hálsi einn af hæst dæmdu kynbótahrossum ársins

Á heimasíðu Eiðfaxa hér má sjá yfirlit yfir hæstu kynbótadóma ársins 2011.
Þar er gaman að sjá að Blysfari frá Fremra-Hálsi er 4. hæst dæmdi stóðhestur ársins í 6 vetra flokki með aðaleinkunn 8,49, þar af hæfileikaeinkunn 8,77.


IS-2005.1.25-038 Blysfari frá Fremra-Hálsi

Sýnandi: Ísólfur Líndal Þórisson

Mál (cm):

141   128   136   66   145   36   45   44   6.4   30   18  

Hófa mál:

V.fr. 8,7   V.a. 7,8  

Aðaleinkunn: 8,49

 

Sköpulag: 8,08

Kostir: 8,77


Höfuð: 7,5
   2) Skarpt/þurrt   K) Slök eyrnastaða  

Háls/herðar/bógar: 8,0
   1) Reistur   5) Mjúkur   D) Djúpur  

Bak og lend: 8,0
   3) Vöðvafyllt bak   8) Góð baklína  

Samræmi: 8,5
   4) Fótahátt   5) Sívalvaxið  

Fótagerð: 7,5
   2) Sverir liðir   G) Lítil sinaskil   J) Snoðnir fætur  

Réttleiki: 8,0
   Afturfætur: 1) Réttir  
   Framfætur: D) Fléttar  

Hófar: 8,5
   4) Þykkir hælar   7) Hvelfdur botn  

Prúðleiki: 8,5

Tölt: 9,0
   1) Rúmt   3) Há fótlyfta   4) Mikið framgrip  

Brokk: 9,0
   2) Taktgott   4) Skrefmikið   5) Há fótlyfta  

Skeið: 8,0
   4) Mikil fótahreyfing  

Stökk: 8,5
   2) Teygjugott   4) Hátt  

Vilji og geðslag: 9,5
   2) Ásækni   4) Þjálni  

Fegurð í reið: 9,0
   3) Góður höfuðb.   4) Mikill fótaburður  

Fet: 7,5

Hægt tölt: 8,5

Hægt stökk: 8,0

03.10.2011 10:08

Farin að telja niður í stóðréttir 2012

Þrátt fyrir mikið rok og yfirleitt lítið spennandi veður var stóðréttarhelgin 2011 vel heppnuð. Vel gekk að koma stóðinu til byggða á föstudeginum enda rákust þau hratt undan vindi. Á réttardaginn var svo gaman að finna hrossin sín og sjá hvað þau voru vel á sig komin eftir dvölina á heiðinni. Stóðréttirnar eru mikil hátíð og ekki laust við að heimilisfólkið sé strax farið að telja niður til stóðrétta 2012 emoticon

Verið að reka inn í Lækjamótsdilkinn


Birna, James, Gunnar Andri og Atli Geir fylgjast vel með stóðinu


Frændurnir Guðmar og Benóný gæða sér á hákarli og ræða málin


Guðmar bíður upp á hákarl

26.09.2011 21:33

Stóðréttir í Víðidal

Það styttist í eina skemmtilegustu helgi ársins! Spennan magnast með degi hverjum enda fátt skemmtilegra en að fá góða vini í heimsókn, smala stóði niður af fjalli og fá stóðið sitt heim aftur. Auðvitað má ekki gleyma fjörinu á kvöldin og ballinu. Eins og sjá má á heimasíðu Þyts verður margt um að vera:


Stóðsmölun og stóðréttir




Föstudaginn 30.september verður stóðinu smalað til byggða.
Gestir sem ætla að taka þátt í gleðinni fara af stað frá Hrappstöðum um kl. 10.
Þeir sem ætla að vestan geta mætt í Valdarásrétt um hádegi.

Svo er líka mögnuð sjón að mæta bara síðdegis til að sjá stóðið renna heim í sveitina.
Allir velkomnir  í kaffi í skemmuna á Kolugili !
Um kvöldið er kjörið að fá sér kjötsúpu í Víðigerði
eða hjá Siggu og Jóa á Gauksmýri.

Laugardaginn 1. okt. er stóðið rekið til réttar stundvíslega kl. 10
og hefjast þá réttarstörf.
Í réttinni stendur Kvenfélagið Freyja fyrir happdrætti
og fæst miði með því að versla veitingar af félaginu .
Aðalvinningurinn er folald !!
Í Víðidalstungurétt má jafnan sjá fjölda efnilegra unghrossa.
Uppboð á gæðingsefnum og
Sölusýning verður við réttina um hádegið.

Á laugardagskvöld er dansleikur í Víðihlíð þar sem hljómsveit Geirmundar
heldur uppi sveiflunni eins og honum einum er lagið.

Verið velkomin í Víðidal
í Húnaþingi vestra.

11.09.2011 15:27

Smalað í myrkri og dregið í sól

Einn af hátindum haustsins eru án efa göngur og fjárréttir. Þessa helgina var réttað í Víðidalstungurétt eftir 5 daga göngur á Víðidalstunguheiði. Göngurnar voru erfiðari en oft áður en þoka og snjókoma gerðu gangnamönnum erfitt fyrir. Fyrstu kindurnar komu niður hjá Hrappsstöðum um kl. 18 sl. föstudag eftir langa bið, sérstaklega fyrir Guðmar sem var búin að bíða spenntur alla vikuna eftir að fá að smala kindunum í réttina.
Ákveðið var að halda því til streitu að koma kindunum í réttina og fór svo að smalað var í myrkri við tunglskin og falleg norðurljós. Síðustu kindurnar komu á leiðarenda kl. 22:40.


Guðmar bíður spenntur við Hrappsstaði eftir að safnið komi niður


Hópurinn sem beið á Hrappsstöðum eftir safninu (Dæja tók myndina).
Vigdís eldri (81 ára) Vigdís yngri, Pálína (82 ára), Jóhanna, Jónína, Ísak og Guðmar

Þegar loksins var hægt að leggja af stað var spenningurinn orðin ansi mikill sem smitaðist yfir í hrossin og Setning gamla sem orðin er 24.vetra varð eins og unglamb aftur...




Réttardagurinn rann svo upp bjartur og fagur þar sem allir tóku þátt af miklum krafti

Eftir réttirnar var svo brunað á Sauðárkrók þar sem Gunnar Andri (sonur Hönnu systur) var að keppa með Aftureldingu í fótbolta þar sem þeir sigruðu Tindastól/Hvöt 2-1.

Gunnar (í bláu) stóð sig vel í vörninni hjá Aftureldingu


Það var fjölmennt á Lækjamóti II þessa helgi. Á myndinni eru ættmæðurnar Vigdís Gunnarsdóttir (móðir Gunnars) og Pálína Gísladóttir (móðir Jóhönnu). Svo eru Gunnar og Jóhanna og dæturnar þeirra 3 auk maka og barna.


Flettingar í dag: 114
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 759
Gestir í gær: 43
Samtals flettingar: 556671
Samtals gestir: 58108
Tölur uppfærðar: 5.2.2025 09:38:23
LÆKJAMÓT  |  531 HVAMMSTANGI - ÍSLAND  |  +354 4512570  | [email protected]