Lækjamótsfjölskyldan

 

Fjölskyldan í Berserkjarhrauni 2008, hjálmlaus svo allir þekkist.

F.v. Sigurður, Gréta, Þórir, Sonja, Friðrik, Elín, Guðmar Hólm, Ísólfur, Ísak Þórir og Vigdís.

 

Lækjamót er í Víðidal, Húnaþingi vestra við þjóðveginn um það bil miðja vegu milli Reykjavíkur og Akureyrar. Jörðin hefur verið í eigu ættarinnar síðan snemma á 19. öld. Íbúðarhúsið var byggt 1929 og er enn í fullu gildi. Lækjamót er stór og grasmikil jörð en við höfum einnig aðgang að Víðidalstunguheiði og fara tryppi í uppvexti þangað og eyða þar sumrinu í frjálsræði ásamt hundruðum annarra hrossa. Tryppin fá tækifæri til að vera frjáls og sterk í krefjandi umhverfi.

 

 

 

Fjölskyldan:

 

Þórir Ísólfsson: Hefur starfað við tamningar, hrossarækt og reiðkennslu í um 40 ár. Handhafi Morgunblaðsskeifunnar árið 1973 á Hólum. Settist á skólabekk á ný veturinn 2007 og endurmenntaði sig við reiðkennaradeild Hólaskóla. Þórir er reiðkennari við Hólaskóla í hlutastarfi en starfar einnig við aðra reiðkennslu bæði hópkennslu og einkakennslu ásamt tamningum og bústörfum á Lækjamóti. 

 

 

Elín R. Líndal: Fædd og uppalin á Lækjamóti og hefur því tengsl við náttúruna og hestinn í því sambandi. Starfar þó utan heimilis sem framkvæmdastjóri Forsvars ehf á Hvammstanga og sem sveitastjórnarmaður í Húnaþingi vestra. Hún á auk þess sæti í ýmsum nefndum og ráðum á Íslandi.

 

 

 

 

Sigurður Líndal Þórisson: Elstur systkinanna. Er menntaður leikari auk þess að hafa lokið meistaranámi í stjórnun menningarstofnanna.  Þar sem Sigurður býr í London hefur hann ekki getað stundað hestamennsku í mörg ár, áhuginn er þó enn til staðar og fer hann á bak í ferðum sínum til Íslands. Þrátt fyrir að hann hafi ekki stundað keppnir í fjölda ára á hann stigamet í hindrunarstökki á Íslandi.

 

 

 

Greta Clough Líndal: Eiginkona Sigurðar. Einnig í leiklistarbransanum. Hefur ekki alist upp við hesta en hefur komið með í hestaferð á Íslandi og var ekki lengi að fá góða tilfinningu fyrir hestunum.

 

 

 

 

  

 
 

Ísólfur Líndal Þórisson: Hefur haft tamningar og þjálfun að atvinnu frá 15 ára aldri. Hlaut Morgunblaðsskeifuna á Hvanneyri árið 1998. Menntaður reiðkennari frá Hólaskóla 2005 þar sem hann hlaut LH-hestinn fyrir hæstu meðaleinkunn í reiðkennslu. Ísólfur kenndi við Háskólann á Hólum frá 2007-2010 en hefur nú flutt aftur heim á Lækjamót til að sinna m.a  þjálfun, tamningum og reiðkennslu. Ísólfur hefur átt velgengni að fagna á keppnis- og kynbótabrautinni undanfarin ár.

 

 
 

Vigdís Gunnarsdóttir: Eiginkona Ísólfs. Útskrifaðist sem félagsráðgjafi árið 2005. Hefur starfað sem félagsráðgjafi og við námsráðgjöf. Starfar nú alfarið við þjálfun hrossa á Sindrastöðum. Vigdísi er hestamennskan í blóð borin, hefur næmt auga fyrir gæðum og vegur álit hennar þungt. 

 

 

 

 

 

Ísólfur og Vigdís eiga saman Ísak Þóri fæddur 1999 og Guðmar Hólm fæddur 2006. 

 

                         

Ísak Þórir ríður út sér til skemmtunar og aðstoðar við smalamennskur en hann aðal áhugamál er leiklist og allar íþróttir.
 

 

 

 

 
Þrátt fyrir að Guðmar sé ungur að árum á hestamennskan hug hans allan. Hann er óvenju hestglöggur þrátt fyrir ungan aldur og fer í hesthúsið daglega og tekur þátt í öllu sem tengist því að vera hrossaræktandi af miklu áhuga. Það verður spennandi að fylgjast með því hvernig þessi óvenju mikli hestaáhugi þróast.
 
 
 

 

 

 

Sonja Líndal Þórisdóttir: Hefur lokið tveimur árum frá Hólaskóla og hlaut Morgunblaðsskeifuna eftirsóttu fyrir hæstu meðaleinkunn í reiðmennsku við skólann árið 2007. Sonja náði góðum keppnisárangri í yngri flokkum og hlaut m.a ásetuverðlaun FT og knapaverðlaun LH á LM1998. Stundar nú dýralæknanám í Kaupmannahöfn. Samhliða náminu er Sonja með reiðkennslu fyrir Íslandshestaeigendur í nágrenni Kaupmannahafnar. Sonja stundaði sl. vetur tvöfalt háskólanám þegar hún ákvað að ljúka reiðkennaranámi við Háskólann á Hólum. Það gerði hún með miklum sóma og útskrifaðist með hæstu meðaleinkunn fyrir reiðkennslu og kennslufræði. Hlaut hún því hina eftirsóttu LH styttu líkt og Ísólfur áður. 

Sonja og Ísólfur hafa bæði hlotið LH styttuna fyrir hæstu meðaleinkunn í reiðkennslu og kennslufræði í reiðkennaranámi við Háskólann á Hólum.

 

 

 

 

 

 

 

Friðrik Már Sigurðsson: Unnusti Sonju. Friðrik er fæddur í Kaupmannahöfn árið 1980 og ólst upp í Reykjavík og bjó þar þangað til hann lauk námi við framhaldsskóla. Eftir það hefur hann unnið í tengslum við hesta bæði hér á landi og erlendis. Friðrik hefur stundað nám við Háskólann á Hólum og Landbúnaðarháskóla Íslands og starfaði um tíma hjá hestatímaritinu Eiðfaxa og frá árinu 2008 til 2010 við Háskólann á Hólum.

Friðrik útskrifaðist með diplóma í tamningum og hlaut hæstu einkunn á tamningaprófi við Háskólann á Hólum árið 2003 og er því fyrsti handhafi tamningabikars Félags Tamningamanna.  Hann lauk B.S. prófi í búvísindum frá Landbúnaðarháskóla Íslands árið 2006, þar sem lokaritgerð hans fjallaði um ágrip hjá íslenskum kynbótahrossum. Hann lauk svo diplómanámi í þjálfun og reiðkennslu frá Háskólanum á Hólum árið 2008.  Friðrik er alþjóðlegur kynbótadómari FEIF frá árinu 2009, en hefur dæmt kynbótahross á Íslandi frá árinu 2008. Auk þess að dæma kynbótahross þá starfar Friðrik við reiðkennslu og námskeiðahald bæði á Íslandi og erlendis.

 

 

 

 

Sonur Sonju og Friðriks heitir Jakob fæddur 2011. Jakob er að sjálfsögðu áhugasamur um hesta og önnur dýr eins og fjölskyldan öll.  Hér á myndinni situr hann fyrir framan Guðmar frænda eftir að hafa tekið þátt í fyrsta hestamótinu.

 

Flettingar í dag: 170
Gestir í dag: 39
Flettingar í gær: 681
Gestir í gær: 100
Samtals flettingar: 205664
Samtals gestir: 33780
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 10:40:46
LÆKJAMÓT  |  531 HVAMMSTANGI - ÍSLAND  |  +354 4512570  | [email protected]